Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 16:45:44 (3200)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:45]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins til að einfalda þetta og jafnvel flýta umræðunni þá nema álögurnar 8 milljörðum en skattalækkanirnar 5 milljörðum, þ.e. fyrir árin 2004 og 2005. Þar liggur þessi mismunur. Þetta eru ekki tölur sem við höfum verið að finna upp eða koma fram með til þess að reyna að koma höggi á meiri hlutann eða ríkisstjórnina eða hvern þann sem vill standa fyrir þessari pólitík. Þetta eru kostnaðarreikningar fjármálaráðuneytisins. Við höfum ekki gert mikið annað en að leggja saman og draga frá. Út úr því kemur að á þessum tveimur árum tekur ríkið 2,5 milljarða í gjöld umfram þær skattalækkanir sem á að ráðast í. Það er þetta sem ég bað hv. þingmann um að reyna að útskýra fyrir mér og hann treysti sér ekki til.