Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 16:57:46 (3207)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:57]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skiptir máli hverjir eru líklegir til að standa við loforðin. Hér kemur hv. þingmaður upp og segir: Við hefðum víst lækkað skatta. Með hvaða flokkum? Með flokkum sem þeir ætluðu að fara í ríkisstjórn með eftir síðustu kosningar. Það lá alveg fyrir hvað átti að gera, það átti að skipta um ríkisstjórn og koma stjórnarflokkunum frá sem þá voru við lýði. (Gripið fram í.) Og er algjörlega klárt eftir kosningarnar að það hefði ekki gengið upp.

Aðeins um það að ríkið taki meira til sín. Hv. þingmaður hefur komið hér upp og furðað sig á því: Hvernig getur ríkið tekið til sín meiri tekjur, lækkað skattana og aukið útgjöldin á sama tíma? Það er vegna þess að hér er hagvöxtur. Það er pólitíkin sem rekin hefur verið. Og það gengur ekki fyrir hv. þingmann að reyna að draga upp einhverja hægri öfgamynd af Sjálfstæðisflokknum sem hefur aldrei verið slíkur flokkur. Hann hefur alltaf verið flokkur sem hefur viljað þétt öryggisnet, byggt upp heilbrigðiskerfið og menntamálin, og milljarðarnir sem farið hafa í aukin útgjöld hafa farið í hvaða tvo málaflokka fyrst og fremst? Það eru heilbrigðismál og menntamál og það er í fullkomnu samræmi við stefnu flokksins í þeim málaflokkum.