Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 17:00:28 (3209)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[17:00]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með þessum umræðum um tekjuskatt og eignarskatt, sérstaklega að hlusta á hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sem sagði að stefna stjórnarinnar væri hægri stefna með kommúnísku ívafi. Ég veit ekki hvort það þýðir að stefnan sé á miðjunni (LB: Eða geðklofa.) eða geðklofa, já, eins og hv. þingmaður sagði. Ég tel a.m.k. að þær skattalækkanir sem til umræðu eru komi mjög vel út fyrir þjóðarbú okkar og einstaklingana í landinu.

En af hverju getum við lækkað skatta? Hvernig stendur á því? Það hefur gengið mjög vel í samfélaginu og hagvöxtur hefur verið að aukast. En hver er forsendan fyrir hinum aukna hagvexti? Mig langar að rifja það upp, virðulegi forseti.

Þar kemur auðvitað ýmislegt til en það sem hefur kannski mest að segja í því sambandi er sú stóriðja sem nú er í uppbyggingu og hefur verið umdeild. Ég vil sérstaklega rifja upp að flokkarnir sem nú ráða ríkjum hafa stutt þau áform frá upphafi en það hafa stjórnarandstöðuflokkarnir ekki gert. Það þarf ekki að nota mörg orð yfir stefnu Vinstri grænna. Þeir hafa verið á móti og allt í lagi með það. Þeir hafa þá skoðun og hafa verið á móti þeirri uppbyggingu.

Samfylkingin hefur verið fremur tvístígandi. Þeir voru mjög mikið á móti til að byrja með, töldu uppbyggingaráformum allt til foráttu og voru t.d. á móti íslenska ákvæðinu í Kyoto-bókuninni. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að það ákvæði yrði hlegið út af borðinu á alþjóðavettvangi. Það er búið að rifja það upp nokkrum sinnum og er ágætt að gera það einu sinn enn. En íslenska ákvæðið, sem ég hafði tækifæri til þess að fylgja eftir á sínum tíma, var aðalforsenda þess að við gætum farið í uppbyggingu á stóriðju. Hefðum við ekki fengið íslenska ákvæðið þá hefðum við þurft að velja á milli þess að sleppa stóriðjuáformum eða að standa utan Kyoto-bókunarinnar, sem ég tel að hefði orðið mjög erfitt fyrir Ísland og algjörlega fráleitt fyrir land sem byggir meira og minna á endurnýjanlegri orku. Það hefði verið fráleitt.

Segja má að stjórnarflokkarnir hafi með staðfastri stefnu og eljusemi náð að skapa forsendur fyrir skattalækkanir. Það hefur verið mikill stöðugleiki í efnahagslífinu og hagvöxtur. Kaupmáttur heimila hefur aukist og fari fram sem horfir mun kaupmáttaraukningin verða 55% á 12 ára tímabili, í lok þessa kjörtímabils. Það er stórkostleg kaupmáttaraukning og vert að huga vel að þeirri tölu, 55% kaupmáttaraukningu. Það er eiginlega ótrúlega há tala.

Virðulegur forseti. Í spá fjármálaráðuneytisins kemur fram að hagvöxturinn verði það mikill og aukning einkaneyslunnar líka að það muni skila raunaukningu tekna í ríkissjóð á árunum 2004–2006, þrátt fyrir þessar skattalækkanir. Hagvöxturinn er því að skila því svigrúmi sem við höfum til skattalækkana og þær munu einnig hafa áhrif á aukna veltu í samfélaginu. Hagvöxturinn er því lykilatriði við að skapa svigrúm fyrir skattalækkanir á heimilin í landinu.

Auðvitað hefði verið líka hægt að hækka laun en það er stefna ríkisstjórnarflokkanna að betra sé, við þær aðstæður sem nú eru, að auka kaupmáttinn með því að lækka skatta.

Það er hins vegar alveg rétt sem komið hefur fram, að það þarf að vera aðhald í ríkisfjármálum. Af fjárlögum næsta árs á að verða 10 milljarða kr. tekjuafgangur. Það sýnir að reynt er að viðhalda aðhaldssömum fjárlögum þótt það sé rétt sem hefur komið fram að ýmsar stofnanir telja þurfa meira aðhald. En á sama tíma og við lækkum skatta viljum við líka verja velferðarkerfið.

Það hefur auðvitað verið stefna Framsóknarflokksins að hér sé öflugt heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Í fjárlagafrumvarpinu hefur tekist að halda styrkum stoðum undir velferðarkerfinu, hv. þm. Ögmundur Jónasson, það hefur tekist. Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamála aukist um 4–5% að raungildi. Heilbrigðis- og tryggingakerfið er því varið eins og hægt er. Hið sama á við í menntamálum og í málaflokkum sem tilheyra félagsmálaráðuneytinu.

Hér hefur verið rætt svolítið um að meginþungi skattalækkananna komi fram árið 2007. Það hefur verið gangrýnt. Menn hafa sagt: Þetta er bara eitthvert kosningatrix. Þeir hafa talað um skattalækkanirnar þá með neikvæðum hætti. En ég vil ítreka að tímasetningin ræðst að sjálfsögðu af því að þá eru stóriðjuframkvæmdirnar að mestu yfirstaðnar. Skattalækkanir sem koma til framkvæmda árið 2007, t.d. 2% lækkun á tekjuskatti, eiga að koma í veg fyrir niðursveiflu í þjóðarbúinu á þeim tíma og tryggja áframhaldandi kaupmáttaraukningu.

Ég vil sérstaklega, virðulegur forseti, draga kaupmáttaraukninguna fram í umræðuna. Það er mikið talað um kaupmáttaraukninguna en ég bendi á að það er brýnt að almenningur nýti hluta af þeirri kaupmáttaraukningu til að lækka skuldir sínar. Þetta orð „kaupmáttaraukning“ er að mínu mati svolítið hvetjandi fyrir fólk til þess að fara og kaupa fyrir fjármagnið sem það fær í hendur. Ég vil vara við því. Ég tel að almenningur eigi að nýta sér tækifærið þegar kaupmáttur eykst og nota m.a. til að lækka skuldir sínar.

Virðulegur forseti. Það er óhætt að fullyrða að aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru tekjujafnandi þegar á heildina er litið, þrátt fyrir að allt annað komi fram í umræðunni hér. Í útreikningum sem byggja á skattframtölum ársins 2003 sést að skattleysismörk hækka um ríflega 20%, úr 71 þús. kr. í 86 þús. kr. Mikil hækkun á barnabótum mun koma öllum barnafjölskyldum til góða, mest hinum tekjulægri. Afnám eignarskatts mun einnig koma sér vel fyrir íbúðareigendur, ekki síst eldra fólk og ellilífeyrisþega sem búa í lítið skuldsettum íbúðum og greiða þar af leiðandi tiltölulega háan eignarskatt. Upplýsingar úr skattframtölum sýna einnig að flestir þeirra sem greiða eignarskatt hafa tiltölulega lágar tekjur, gagnstætt því sem oft hefur verið haldið fram.

Sem dæmi um áhrif þessara skattaaðgerða má nefna að ráðstöfunartekjur einstæðs foreldris, með eitt barn undir sjö ára aldri og 125 þús. kr. í tekjur á mánuð, hækka um 12.500 kr. á mánuði eða um 10%. Á sama hátt má taka annað dæmi. Ráðstöfunartekjur hjóna með 300 þús. kr. tekjur á mánuði, með tvö börn og annað yngra en sjö ára, hækka um 23.500 kr. eða 9,5%. Báðar þessar fjölskyldur eru með tekjur undir meðallagi.

Til samanburðar má nefna að heildaráhrif aðgerðanna leiða til 4,5% hækkunar ráðstöfunartekna allra heimila í landinu þannig að staðreyndin er sú að ráðstöfunartekjur barnafólks með tekjur um og undir meðallagi hækka um 6–10% eða verulega umfram það sem heildaráhrifin sýna. Þetta sýnir vel tekjujöfnunaráhrif aðgerðanna. Það er beinlínis rangt að halda því fram að hinir tekjuhæstu beri mest úr býtum vegna þessara breytinga. Þessar aðgerðir eru tekjujafnandi þannig að hinir tekjulægri bera hlutfallslega meira úr býtum en hinir tekjuhærri. Þetta á ekki einungis við um yngra fólkið heldur einnig fólk á miðjum aldri.

Ég vil einnig nefna, virðulegur forseti, að afnám eignarskattsins kemur sér afar vel fyrir eldra fólk og ellilífeyrisþega. Það er mikilægt að draga fram að skattalækkanirnar og sá kaupmáttarauki sem þær fela í sér munu vonandi stuðla að hóflegri launahækkunum á næstu árum en ella og treysta þar með efnahagslegan stöðugleika.

Segja má að sú lífskjarabót sem orðið hefur vegna kaupmáttaraukningarinnar sé einsdæmi í heiminum í dag. Það er mikilvægt að tryggja áframhald á þeirri efnahagsstefnu sem hefur skilað þeim árangri.

Virðulegur forseti. Ég vil einnig gera að umtalsefni barnabæturnar. Tillögur okkar um barnabæturnar eru þær að ótekjutengdar barnabætur hækki á árunum 2006–2007 um samtals 50%, til viðbótar þeim 3% sem gert er ráð fyrir að þær hækki á árinu 2005. Einnig er gert ráð fyrir 10% hækkun tekjutengdra barnabóta til viðbótar þeim 3% sem ég nefndi áðan. Sú hækkun á að verða í ársbyrjun 2006. Að auki er lagt til að viðmiðunarmörk tekna vegna tekjutengdra barnabóta hækki um 50% auk þeirra 3% sem ég nefndi áðan. Að lokum vil ég draga fram að gert er ráð fyrir því að tekjuskerðingarhlutföll tekna við ákvörðun barnabóta lækki úr 3% með einu barni, 7% með tveimur börnum og 9% með þremur börnum eða fleiri, í 2%, 6% og 8%, í sömu röð og ég taldi áðan. Sú lækkun á að verða árið 2007.

Virðulegur forseti. Mér virðist sem við munum draga úr jaðarskerðingum. En það er einmitt sú stefna sem við höfum viljað fylgja og reyndar fleiri flokkar, t.d. Samfylkingin. Það er gert með því að minnka tekjuskerðingu á barnabótunum mjög verulega. Útgjöld vegna þessa eru um 2,4 milljarðar kr. sem greiddir verða seinni hluta tímabilsins, árin 2006–2007.

Virðulegur forseti. Ég vil einnig fara nokkrum orðum um matarskattinn. Hér hefur hart verið sótt að Framsóknarflokknum út af matarskattinum. Sérstaklega hefur hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, ítrekað dregið fram, með mjög óréttmætum hætti að mínu mati, að allir flokkar vilji lækka matarskattinn nema Framsóknarflokkurinn. Þetta er alrangt. Það var eftirminnilegt að sjá hæstv. fjármálaráðherra Geir H. Haarde reka þau orð ofan í hv. þm. Össur Skarphéðinsson í morgun. Þá kom skýrt fram að þau ummæli sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafði um Framsóknarflokkinn og hafði eftir hæstv. fjármálaráðherra voru ósönn. Hér var lesið upp úr viðtali sem vitnað hafði verið í og það leiðrétt, sem betur fer.

Í umræðunni hefur margoft komið fram hjá hæstv. forsætisráðherra Halldóri Ásgrímssyni og varaformanni efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, og fleirum að Framsóknarflokkurinn er ekki á móti lækkun á matarskatti, það er alrangt. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að endurskoða eigi virðisaukaskattskerfið og mun fara í gang nefndarstarf til að endurskoða það. Skapist til þess svigrúm verður matarskatturinn endurskoðaður eins og annað.

Ég vil hins vegar minna á, í þessu sambandi, að stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að forgangsraða skattalækkunum þannig að ávinningur efnahagslífsins fari milliliðalaust til fólksins, sem sagt án milliliða. Matarskatturinn færi að sjálfsögðu í gegnum sjóði smávöruverslunarinnar áður en hann skilaði sér til neytenda þannig að það er annars konar aðferð ef svo má segja. Sumir hafa efasemdir um að það mundi allt skila sér. Ég veit ekki hvað er rétt í því. Sumir segja að of lítil samkeppni sé á matvörumarkaði og hluti af lægri matarskatti gæti farið til verslunarinnar án þess að skila sér til neytenda. Ég ætla ekki að slá neinu föstu um það en mér finnst umræðan mjög athyglisverð.

Ég vil líka taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur fyrr í umræðunni, varðandi hina uppblásnu umræðu um matarskattinn. Ég vil alls ekki útiloka að við lækkum skattinn en ef maður skoðar tölurnar þá mun lækkun á matarskatti ekki skila mjög miklu. Allt telur en miðað við tölur, ef við skoðum hvað Hagstofan segir á vef sínum, eru útgjöld dæmigerðra hjóna með börn tæplega 700 þús. kr. í mat og drykk á ári. Ef virðisaukaskattur á matvæli lækkar, sem ég vil ekki útiloka, þá lækkar reikningur þeirrar fjölskyldu um 3.867 kr. á mánuði. Öll þessi uppblásna umræða um matarskattinn, ef farið yrði í að lækka hann, snýst um 3.867 kr. á mánuði eða svo. Það skilar svipuðum árangri og lækkun á endurgreiðslubyrði lána hjá lánasjóðnum sem við erum að fara í núna. Umræðan um matarskattinn hefur því verið blásin upp og er sérstök fyrir þær sakir að í henni hefur verið farið með ósannindi á hendur Framsóknarflokknum.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið þau sjónarmið sem ég tel mikilvægt að draga fram í umræðunni. Ég tel að við séum á réttri leið með skattalækkanirnar. Við getum verið mjög stolt af þeim. Það er verið að stórlækka skatta landsmanna. Við viljum að fólkið hafi fjármagn á milli handa til að nýta í það sem því sjálfu finnst mikilvægt.

Á sama tíma viljum við að sjálfsögðu verja velferðarkerfið. Við viljum verja heilbrigðiskerfið og menntakerfið. Það er rétt að almenningur njóti góðs af þeim arði sem við fáum inn í samfélagið, m.a. út af framkvæmdum okkar í stóriðju og öðru, en ekki einungis ríkissjóður.