Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 17:19:06 (3211)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[17:19]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar litið er til eignarskattsins kemur í ljós að helmingur hans er borgaður af þeim sem eru 60 ára og eldri. Hann kemur eldra fólkinu hlutfallslega mjög til góða, en ég tel að flestir flokkar beri hag þess hóps mjög fyrir brjósti. Það kom líka fram í efnahags- og viðskiptanefnd að Landssamband eldri borgara vill að breytingin taki gildi sem fyrst.

Í dag lendir meginþungi eignarskatts á þeim sem hafa 1,5 millj. í árstekjur eða minna. Ég held að við getum verið sammála um að það séu alls ekki hin breiðu bök sem meginþunginn af eignarskattinum lendir á. Ég tel því eðlilegt og styð þá leið sem farin er, að afnema eignarskattinn algjörlega og tel eðlilegt að gera það. Það er líka um ákveðna einföldun í skattkerfinu að ræða þegar einn skattur fellur algjörlega út. Ég tel að hann sé þess eðlis að rétt sé að taka hann alveg af, en ég skil hins vegar alveg hugmyndafræðina í því sem hv. þingmaður spurði um, að auðvitað er líka hægt að hækka frítekjumörkin. Þá lendir skatturinn bara á þeim allra tekjuhæstu sem eru að sjálfsögðu fyrir hendi.

Ég tel rétt að afnema þennan skatt alveg og styð þær skattkerfisbreytingar sem við erum að gera.