Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 17:27:18 (3215)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[17:27]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég rakti í ræðu minni varðandi jöfnunaráhrif skattaaðgerðanna er alveg ljóst að heildaráhrif aðgerðanna leiða til 4,5% hækkunar ráðstöfunartekna allra heimila í landinu, en ráðstöfunartekjur barnafólks með tekjur um og undir meðallagi hækka um 6%–10%, eða verulega umfram það sem heildaráhrifin sýna. Þetta sýnir hvernig tekjuáhrifin koma fram í heildaraðgerðunum.

Varðandi velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið og sjúkrahúsin sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni vil ég endurtaka að í tillögum og skattaaðgerðum ríkisstjórnarinnar erum við á sama tíma og við lækkum skatta að standa vörð um velferðarþjónustuna, bæði menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Það er 4%–5% raunaukning til heilbrigðis- og tryggingakerfisins í fjárlögunum á næsta ári. Ég tel að það sé mjög góð staða að geta sett 4%–5% raunaukningu þar inn.

Það er alveg rétt að það er mjög dýrt að reka heilbrigðiskerfið og við sjáum að liðir eru að stórhækka, launatekjur eru um 40% af veltunni í heilbrigðiskerfinu o.s.frv. Okkur ber því að horfa á heilbrigðiskerfið með það fyrir augum að gera það eins hagkvæmt og hægt er til þess að við getum veitt góða þjónustu. En við erum svo sannarlega að veita góða þjónustu.

Á Íslandi er t.d. lægsti ungbarnadauði á Norðurlöndunum og líklega í heiminum. Það er einmitt mælikvarði á getu og stöðu heilbrigðiskerfis í hverju landi fyrir sig, hlutfall ungbarnadauða, og hér er hann lægstur. Við erum því með mjög gott heilbrigðiskerfi.