Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 17:38:44 (3221)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[17:38]

Dagný Jónsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er gengið til atkvæða um hækkun skráningargjalda í ríkisháskólum. Ég gerði grein fyrir fyrirvara mínum við málið í ræðu í gær en tel ástæðu til að endurtaka þann fyrirvara en ég skrifaði upp á nefndarálit meiri hluta hv. menntamálanefndar með fyrirvara. Það var gert í þeim tilgangi að málið komi hingað inn í þingsal til 2. umr. og hljóti þannig þinglega meðferð.

Ég tel mjög jákvæða þróun að hækkunin sé ekki dregin frá framlagi ríkisins til skólanna en get ekki tekið fyllilega undir þann rökstuðning sem liggur að baki gjaldsins. Árið 2001 þegar stúdentar stóðu í baráttu gegn hækkun skráningargjalda, var tvennt gagnrýnt umfram annað: Í fyrsta lagi að hækkunin væri lítt rökstudd og í öðru lagi að hækkunin var þá öll dregin frá framlagi ríkisins til Háskóla Íslands. Þessar forsendur eru breyttar en ég er þó ekki fyllilega sátt, eins og ég sagði áðan, við þennan rökstuðning og ég tel að við verðum að endurskoða skilgreiningu á þessu gjald, hætta þessum orðaleik og hafa þetta skýrara, enda er alveg ljóst að við munum fá málið inn í þingið aftur og aftur og það er ólíðandi að endalaust sé verið að tína til nýja liði.

Herra forseti. Ég vil þó geta þess að í mínum huga er það skýrt að ekki er um skólagjald að ræða enda er ekki verið að greiða niður kennslu með gjaldinu.