Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 17:46:49 (3224)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[17:46]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar er að reyna að telja okkur trú um að það sé hægt að lækka skatta í landinu um 25–30 milljarða á þremur árum. Á sama tíma, í fjárlögum fyrir komandi ár, á að skafa upp úr vösum námsmanna með stórhækkun lítt dulbúinna skólagjalda 140 millj. kr. Það er það sem þessi leiðangur á að skila.

45 þús. kr. eru 45 þús. kr., hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hvað sem þær eru kallaðar. Þær eru hvorki eyri meiri né minni. 45 þúsundkall er 45 þúsundkall sem námsmenn þurfa að taka af sínum nauma framfærslueyri og fá ekki lánað fyrir.

Ríkisstjórnin, sem á sama tíma er að hygla sérstaklega tekjuhæsta fólkinu í landinu með afnámi hátekjuskatts, ætti ekki að tala mikið um jafnrétti til náms eða jöfnuð í samfélaginu almennt. Hún ætti að skammast sín.