Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 18:39:40 (3235)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:39]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Í ræðum í dag hafa hv. þingmenn stjórnarliða gagnrýnt mjög málflutning stjórnarandstöðuþingmanna er varða álögð gjöld sem síðustu daga og vikur hafa fylgt skattafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og sagt að einungis sé um verðlagsbreytingar að ræða.

Það verður að minna hv. þingmann á að skattleysismörkin voru fryst frá vísitölu árið 1998 og fyrir þær sakir hafa nettótekjur landsmanna, sérstaklega þeirra lægst launuðu, lækkað um 10 þús. kr. Í raun ættu skattleysismörkin að vera 99 þús. kr. í dag en ekki 72 þús., kr., með öðrum orðum er þarna 27 þús. kr. munur og þar af leiðandi greiðir fólk 10–12 þús. kr. hærri skatt en ella. Eðlileg viðbrögð ríkisstjórnarinnar í dag ættu því að vera, úr því að rými til skattalækkana hefur skapast, að skila þessum fjármunum til baka. Það er mjög eðlileg krafa.

Því spyr ég (Forseti hringir.) hv. þingmann aftur: Þykir honum það sárt að fá jafnmargar krónur í vasann og öryrkinn?