Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 18:42:20 (3237)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:42]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst það við hæfi að hv. þingmaður skyldi ljúka ræðu sinni áðan með því að óska okkur sem sátum í salnum til hamingju með skattalækkanirnar. Það er full ástæða til þess, því við munum fá verulegar skattalækkanir, þegar og ef þar að kemur. En við munum líka fá miklu meiri kjarabætur en það fólk sem hefur lægri tekjur. Þetta hefur sannast í umræðunni í dag og ekki bara í dag heldur undanfarna daga, og yfir það hefur verið farið mjög vandlega. Því finnst mér ástæða til að spyrja hv. þingmann og biðja hann að gera þingheimi grein fyrir hvernig á því stendur, úr því að menn trúa svona mikið á getu ríkissjóðs til að lækka skatta í framtíðinni, að menn treysta ríkissjóði ekki til að missa af neinum tekjum, hvorki á því ári sem er að líða né á því sem er að koma, því að ríkissjóður á að koma út með plús hvað varðar skatta á landsmönnum á þessum tveimur árum. Það er sem sagt framtíðarmúsíkin að hægt sé að lækka skatta um 22 eða 23 milljarða á ári í framtíðinni, en hvorki möguleiki á að það gerist á því ári sem er að líða né á næsta ári.

Það er ástæða til að hafa töluverðar áhyggjur af árunum eftir 2005, því að það er þá sem verðbólgan mun koma af fullum þunga vegna þess að nú er verið að fresta henni með ýmsum aðgerðum, m.a. Seðlabankans, og menn vita það og greiningardeildir bankanna spá því að verðbólgan muni bresta á eftir a.m.k. ekki styttri tíma en ár, hugsanlega eftir tvö ár, það er það lengsta, en þá kemur hún. Þá hljóta menn að þurfa að spyrja: Hvernig stendur á því að það er ekki hægt að koma til (Forseti hringir.) móts við skattgreiðendur á næsta ári?