Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 18:49:34 (3241)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:49]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að inna forseta eftir því hver sé ábyrgðarmaður ríkisstjórnarinnar eða meiri hlutans í umræðunni. Ég sé ekki hæstv. fjármálaráðherra, ekki hæstv. forsætisráðherra og ekki formann efnahags- og viðskiptanefndar. Ég sé engan stjórnarliða hér nema virðulegan forseta og (Forseti hringir.) spyr forseta hvort það sé ætlun hans að láta umræðuna halda áfram við þær aðstæður.

(Forseti (BÁ): Forseti telur að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar sem verið hefur hér í allan dag sé helst til svara vegna nefndarálits og breytingartillagna og mun forseti gera honum viðvart að óskað hafi verið eftir nærveru hans.)

Ég geri þessar athugasemdir, virðulegur forseti, vegna þess að mér blöskrar og ekki í fyrsta skipti hvernig ríkisstjórnin, meiri hlutinn og hæstv. ráðherrar umgangast sín eigin mál. Maður hefði haldið að þetta mikla gæluverkefni ríkisstjórnarinnar að lækka sérstaklega skatta á hátekjufólk í landinu sem sjálfstæðismenn mega vart halda vatni yfir, að þeim væri meira annt um afkvæmið en svo að þeir skildu það eftir munaðarlaust í umræðunni og enginn stjórnarliði væri til að svara fyrir það. Mér finnst líka að hæstv. fjármálaráðherra geti vel sýnt umræðunni þann sóma að vera eitthvað viðstaddur hana. Ég efast um að ég nenni að leggja það á mig að ætlast til viðveru þeirra eða krefjast hennar þó það sé fullkomlega réttmætt. Kannski má segja að það sé metnaðarleysi af okkur stjórnarandstæðingum að vera ekki harðari af okkur í þeim efnum að láta það ekki líðast hvernig umræður eru að þróast hér almennt, að ríkisstjórnin hunsar þær gjörsamlega. Það heyrir orðið til hreinna undantekninga að hér sjáist eintak á ríkisstjórnarbekkjunum sem er alveg makalaust.

Virðulegur forseti. Það er von að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og hv. þm. Pétur H. Blöndal, eru nánast í gleðivímu þegar þeir koma upp og smjatta á skattalækkununum. Það er af því að hér er á ferðinni einhver sú mesta hægri stefna, einhver sú raktasta nýfrjálshyggja sem lengi hefur sést á byggðu bóli. Það er augljóst mál og þarf ekki flókinn samanburð við fyrirkomulag skatta í nágrannalöndunum til þess að sjá að verið er að keyra með Ísland í allt aðra átt en í nágrannalöndunum í norðanverðri Evrópu. Við erum að keyra í allt aðra átt en annars staðar á Norðurlöndunum. Við erum að búa til flatara skattkerfi með minna tekjujöfnunargildi en nokkur önnur norræn eða norður-evrópsk þjóð. Við erum að fara í bandaríska átt sem hyglar alveg sérstaklega hátekjufólki, fjáreignamönnum og stóreignamönnum. Ég held að það eigi að ræða þá hluti nákvæmlega eins og þeir eru. Við getum auðvitað tekist á um skattstig, hversu mikilla tekna við viljum afla til samneyslunnar, ríkis og sveitarfélaga og opinberra verkefna en við skulum ræða sjálft inntak skattkerfisins, pólitíkina sem er fólgin í því hvernig teknanna er aflað hvort sem þær eru meiri eða minni. Það snýr að grundvallaratriðum í stjórnmálum. Það snýr að þjóðfélagsgerðinni sem við mótum fyrir framtíðina. Það er alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn, hægri öfgaöflin í Sjálfstæðisflokknum eru að vinna stórpólitískan sigur með því að koma í framkvæmd á Íslandi, ef svo heldur sem horfir, einhverju hægri sinnaðasta skattkerfi í allri Evrópu. Það er bara þannig og að sjálfsögðu lötrar Framsóknarflokkurinn götuna á eftir íhaldinu í þessu eins og öðru.

Ég skil fögnuð hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem er últra hægri maður eins og hann kemur mér fyrir sjónir í þessum efnum, últra hægri maður í skattatilliti og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Þeir mega alveg gleðjast út frá sínum þröngu hægri sérhyggjusjónarmiðum, að fletja niður skattkerfið og hlífa sérstaklega tekjuháu fólki og létta sérstaklega sköttum af fjármagnsgróða eins og gert hefur verið undanfarin ár. Og það sem er alvarlegast af öllu saman, veikja undirstöður velferðarkerfisins á Íslandi (PHB: ... stækka kökuna.) sem verður okkur öllum til tjóns þegar frá líður og atvinnulífinu líka og ekki síst. Það er nú þannig.

Hér er sem sagt á ferðinni algerlega ómenguð hægri stefna í skattamálum. Ég ætla ekki að halda því fram að verið sé að ganga alveg jafnlangt og í Bandaríkjunum í tíð hægri öfgastjórnarinnar sem þar hefur setið að völdum í á fimmta ár. Þar sýna kannanir að aðeins 1% amerísku þjóðarinnar hefur notið ávaxtanna af skattkerfisbreytingum Bush. Bandarískir auðkýfingar hafa fyrst og fremst notið góðs af áherslum Bush í skattamálum, enda er þar á ferðinni brauðmolakenning hægri manna sem er fólgin í því að með því að leyfa auðmönnunum að verða nógu ríkum og enn þá ríkari muni molar falla af borðum þeirra til hinna sem menn njóti góðs af. Þar er brauðmolahagfræði í ýtrustu hægri stefnu sem til er í skattamálum við lýði. Hér er gengið aðeins skemmra, en samt ljóst að fyrst og fremst 5%–10% íslensku þjóðarinnar munu hagnast stórkostlega á áherslum Sjálfstæðisflokksins í skattamálum. Það er fólk ofan við meðaltekjur og þeir sem hafa greitt hátekjuskatt, álag á hærri hluta launa sinna, það eru þeir sem hafa átt stóreignir og hafa miklar fjármagnstekjur sem búa á Íslandi við það sem er óðum að verða alger lágskattaparadís auðmanna í launalegu og fjármagnstekjulegu tilliti. Auðvitað er erkiíhaldið, erkihægrimennirnir ánægðir með þetta og ganga hér um gleiðbrosandi. Það er skiljanlegt.

Það er ágæt úttekt um þessa hluti í Fréttablaðinu í dag, í miðopnu þess blaðs. Ég veit ekkert hversu nákvæm og vísindaleg hún er, en sem fréttaskýring og lausleg úttekt á því hvernig þetta er í löndunum í kringum okkur er hún ágæt og dugar vel til þess að sýna það sem eru löngu þekktar staðreyndir að á Íslandi eru háir skattar á lágtekjufólk. Þeir eru hlutfallslega háir. (Gripið fram í: Nú?) Þeir eru það. (Gripið fram í: Engir.) Og skattlagning á Íslandi er undir meðaltali OECD-ríkja. Hún á að fara stórlækkandi. Við höfum haft um tíu ára skeið eða svo tvö skattþrep, í raun má segja þrjú í tekjuskatti, þ.e. skattleysismörk sem búa til núll þrep, það er almennt þrep og það er sérstakt álag á hæstu laun. Engu að síður miðað við núverandi ástand er tekjujöfnunargildi tekjuskattsins á Íslandi minna en í flestum nálægum löndum. Það eru aðeins tvö nálæg lönd þar sem þetta er á svipuðu róli. Hjá Írum og Bretum eru skatthlutföllin svipuð eða lægri og þau verða hæst á Íslandi í dag, losa 40%. En hvað á núna að gera? Fara með hlutfallið á árinu 2007 niður í 34,78%, tæp 35%. Við verðum um 20 prósentustigum lægri en flest nálæg lönd, þar á meðal alls staðar annars staðar á Norðurlöndum hvað varðar skattlagningu á hæstu tekjur. Það er enginn smámunur, herra forseti.

Ég held að Íslendingar geri rétt í að hugleiða þá: Bíddu, hverjir erum við? Hverjir erum við Íslendingar? Erum við ekki norræn þjóð? Erum við ekki stolt af því að hér hafi verið byggt upp, að því marki sem okkur hefur tekist það, norrænt velferðarsamfélag, norrænt módel, norrænt velferðarkerfi? Ég held það. Ég held að Íslendingum sé mjög tamt að ganga út frá því sem gefnu að við séum í hinum besta skilningi þess orðs norræn þjóð, að við höfum öflugt velferðarsamfélag byggt á norrænum gildum um jöfnuð og samhjálp og öryggi fyrir þá sem þurfa á stuðningi í samfélaginu að halda. En við erum að kveðja þetta módel. Við erum að sigla í burtu alveg lóðbeint, algerlega til hliðar frá öðrum Norðurlöndum. Það sést m.a. á því að á árinu 2007 verða heildarskatttekjur hins opinbera orðnar mun lægra hlutfall af þjóðartekjum hér en annars staðar á Norðurlöndunum, verulega lægri en þar sem þær eru næstlægstar, í Finnlandi, og t.d. verður tekjujöfnunargildi beinna skatta orðið til muna minna á Íslandi.

Þetta gerist á sama tíma og það dregur hratt í sundur í launamun í landinu. Það vitum við. Nýjustu kannanir sýna það allar saman. Og akkúrat við þær aðstæður velur ríkisstjórn sér að draga úr tekjujöfnunargildi skattkerfisins og veikja undirstöður velferðarsamfélagsins.

Í Danmörku er hæsta hlutfall á tekjur í skatti nálægt 60%. Það er milli 55 og 57% í t.d. Svíþjóð og Belgíu. Finnar greiða yfir 50% skatt af hæstu launum og Norðmenn líklega tæp 50%. En Íslendingar ætla með þetta niður fyrir 35%. Það þarf ekkert að tala um þetta öðruvísi en þetta er. Þetta eru tölur. Þetta eru tölulegar staðreyndir sem tala mjög skýru máli um það á hvaða vegferð við erum.

Svo koma menn hér og halda innblásnar ræður, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hv. þm. Bjarni Benediktsson og hv. þm. Pétur Blöndal, og hneykslast á því að við stjórnarandstæðingar séum að draga athyglina að þeirri staðreynd, a.m.k. við talsmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að sérstaklega sé verið að lækka skattana á tekjuhæsta fólkinu. En það er staðreyndin og það er ástæða til að rifja það hérna upp að miðað við skattana eins og þeir voru lagðir á á árinu 2003 vegna tekna ársins 2002 og svo þegar komið verður að árinu 2007 þá hafa tekjuskattar tekjuhæsta fólksins lækkað um heil 11%, 11 prósentustig, niður í tæp 35% úr 46% tæpum eins og þetta var á árinu 2003.

Svo koma stjórnarliðar, sérstaklega framsóknarmenn, í vörn sinni fyrir því að þetta séu ekki svona últra hægri áherslur í skattamálum og taka dæmin af meðaltekjufjölskyldunni, helst samt fjölskyldu aðeins undir meðaltekjum, og hún þarf endilega að eiga tvö börn undir sjö ára aldri til þess að þetta komi nú nógu vel út með barnabótunum, og finna það út að þar skili þetta nú bara — miðað við auðvitað ýmsar gefnar forsendur sem ekki munu standast — bara hreinlega alveg upp undir 8–9% kaupmáttaraukningu. Er það ekki, herra forseti?

En hvaða kaupmáttaraukningu skilar þetta tekjuhæsta fólki landsins? Það fer yfir 10% í beinni skattalækkun og þarf engar barnabætur til til að ýkja það dæmi upp ef við tökum tekjuhæstu mennina, t.d. þá sem er að finna í þessu riti hér. Ég tók dæmið af milljón króna manninum í ræðu minni við 1. umr. og ég þarf ekki að endurtaka það. (Gripið fram í.) Milljón króna manninum, ja, t.d. forstjórar. Það eru ein 80 stykki. (PHB: En sjómenn?) Það er slatti af sjómönnum. Það eru nú fyrst og fremst skipstjórar og aðallega á uppsjávarflotanum sem fara það hátt. En það eru nokkrir forstjórar í landinu sem eru með tekjur, skattskyldar tekjur aðrar en fjármagnstekjur, upp undir tíu milljónir kr. á mánuði. Þeir eru a.m.k. tveir á lista Frjálsrar verslunar yfir tekjur Íslendinga eða skattgreiðslur Íslendinga á árinu 2004 vegna tekna ársins 2003. Annar er með tæpar tíu milljónir á mánuði samkvæmt þessum listum og hinn með rúmar ellefu. Segjum bara að þessir menn séu með tíu milljónir kr. á mánuði hvor og hvað er þá verið að færa þeim í skattalækkanir ef við tökum aftur árið 2003 til viðmiðunar og síðan aftur árið 2007?

Tíu milljón króna maðurinn er að fá um 680 þús. kr. skattalækkun á mánuði með afnámi hátekjuskattsins. Það eru um 8 milljónir kr. á ári. (Gripið fram í.) Og hann er að fá rétt tæpar 400 þús. kr. í viðbót í skattalækkun með þeim 4% í lækkun tekjuskatts sem hér á að fara að afgreiða nú eða um 4,7 milljónir á ári. Þetta gerir samanlagt tæpar 13 millj. kr. í skattalækkanir, 12,7 milljónir skulum við segja, á ári hjá þessum tveimur forstjórum, ágætum sem þeir eru. Þetta gerir yfir 10% tekjuhækkun. Ef þeir eru svo heppnir að eiga börn undir sjö ára aldri má bæta þar svolitlu við, svona til að hafa dæmið sambærilegt við dæmin hjá Framsókn.

Þetta er veruleikinn. Þó að við tökum prósenturnar þá stenst sá málflutningur stjórnarliða ekki að skattkerfisbreytingar ríkisstjórnarinnar í heild séu að skila mestu til meðaltekjufólks. Þær skila mestu til hæstu launahópanna, ekki bara í krónum, því að þar erum við auðvitað að tala um stóru upphæðirnar, heldur líka í hlutfalli. Tekjuhæstu einstaklingarnir munu á fjögurra ára tímabili fá yfir 10% kauphækkun með skattbreytingum ríkisstjórnarinnar að öðru óbreyttu. Þetta er veruleikinn.

Þetta eru að mínu mati og okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði ranglátar breytingar. Þær auka ójöfnuð í samfélaginu. Þær eru að breyta grunngerð þjóðfélagsins ásamt ýmsu öðru sem hér er verið að vinna skipulega að af hægri öfgamönnunum sem ráða ferðinni. Samfélagsgerðin er að þróast hratt í gegnum þessar skattkerfisbreytingar og í gegnum það sem kemur á hina hliðina, veikari samneyslu, minni velferðarþjónustu, meiri gjaldtöku og kostnað sem velt er yfir á notendurna.

Hvað eru menn að gera í þessu sama frumvarpi og ríkisstjórnin er að hæla sér af og í tengslum við það í afgreiðslu fjárlaga fyrr í þessum mánuði? Jú, á móti skattalækkunum eru þeir að hækka skólagjöld. Þeir eru að taka upp komugjöld á heilsugæslustöðvar. Það vantar 500 milljónir og rúmlega það upp á að samningur við öryrkja sé efndur. Það á skera niður flatt í rekstri Landspítala – háskólasjúkrahúss um 600 milljónir frá rekstraráætlun stofnunarinnar. Það er bara óskilgreindur sparnaður sem á að þvinga stofnunina í. Þannig gæti ég áfram talið. Með öðrum orðum þá er sýnilegt strax við afgreiðslu málsins hér að málflutningur stjórnarliða um að þetta sé hægt án þess að það komi við velferðarkerfið stenst auðvitað ekki. Auðvitað hrynur hann. Menn þurfa að leggja í þann leiðangur og kvelja einstaka hv. þingmenn stjórnarliðsins sem hafa átt svolítið bágt með því að pína þá til að annaðhvort samþykkja eða hrökklast í að sitja hjá við skólagjaldahækkunina sem á að skila 140 milljónum í hækkuðum skólagjöldum. Þau eru að vísu eru dulbúin og kölluð skrásetningargjöld í opinberu háskólunum. Það er eins skýr yfirlýsing um það og nokkur getur verið að það er hin hliðin á málinu. Það er það. Þessar áherslur og þessi pólitík talar fyrir sig sjálf.

Það verða fyrst og fremst ráðstöfunartekjur hinna ríku sem hækka hressilega gangi þessar breytingar ríkisstjórnarinnar eftir allt til enda. Það er alveg sama hvernig hæstv. ríkisstjórn og talsmenn hennar hér rembast eins og rjúpan við staurinn við að reyna að segja eitthvað annað. Þetta er bara einfaldlega svona og þarf ekki um það fleiri orð að hafa, herra forseti.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum í grundvallaratriðum aðrar áherslur í þessum efnum. Við viljum að Ísland haldi áfram að vera norræn þjóð, norrænt land í besta skilningi þess orðs, ekki bara hvað ætt og uppruna og menningu snertir heldur líka hvað þá þjóðfélagsgerð snertir sem við viljum byggja hér upp og varðveita, þ.e. þjóðfélag samhjálpar og jöfnuðar og félagslegs réttlætis með öflugu velferðarkerfi og samábyrgu velferðarsamfélagi.

Auðvitað verða slíkar þjóðfélagsbreytingar ekki eða sjaldnast með einstökum stökkbreytingum þó að hér séu að vísu stórir hlutir á ferðinni í skattamálum. Auðvitað gerast þessar breytingar í skrefum. Þær gerast jafnt og þétt, sérstaklega ef við völd eru stjórnvöld sem hafa einbeittan vilja og langan tíma til þess að umbreyta þjóðfélaginu eins og Sjálfstæðisflokkurinn með stuðningi fyrst Alþýðuflokksins og nú Framsóknarflokksins er að gera. (Gripið fram í: Aðallega kjósenda.) Ja, hann fer nú minnkandi sem betur fer. En því miður hafa menn vélað sig inn á þjóðina aftur og aftur, m.a. með því að þeir hafa aldrei gengist við því sem þeir eru að gera og aldrei lagt spilin hreint á borðin.

Hvað mundi íslenska þjóðin segja ef hún væri spurð að því, ef það væri borið upp við hana bara hreint í þjóðaratkvæði hvort hún vildi þessa þjóðfélagsgerð eða norrænt velferðarsamfélag. Ég hef engar áhyggjur af því hvað íslenska þjóðin mundi kjósa ef hún fengi að svara því skýrt í einni spurningu. Ég er algjörlega sannfærður um að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar vill hér norrænt velferðarsamfélag samhjálpar og félagslegs réttlætis. Það liggur fyrir í könnununum. Yfir 60% þjóðarinnar svöruðu því þannig aðspurð að menn væru tilbúnir til að borga meiri skatta ef þeir fengju í staðinn öflugra mennta- og heilbrigðiskerfi og betri opinbera þjónustu. Það liggur fyrir.

En auðvitað ef menn reyna að blekkja með þeim hætti sem hér er gert í forsendu þessa máls, að hægt sé að gera hvort tveggja, lækka stórkostlega skatta um tugi milljarða og halda algerlega óbreyttu velferðarstigi þá er ekki von á góðu því að þá koma menn ekki hreint til dyranna. (Gripið fram í.) Þá koma þeir ekki heiðarlega fram. (Gripið fram í.) Það er ómerkilegt að halda slíku fram.

Þegar menn segja þetta þá þarf nú ekki endilega annað en að vitna í þeirra eigin plögg, aum sem þau eru, þessi ræfilslegu plögg hér, herra forseti. Hvað er þetta? Þetta er þjóðhagsáætlunin sem við höfum núna frá forsætisráðuneytinu. Hún er örfáar blaðsíður, 15 í litlu broti með stóru letri. Þetta er það sem við fáum eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður, sem lagði fram ítarlega og faglega þjóðhagsáætlun á hverju hausti þangað til hún móðgaði stjórnvöld, fyrst og fremst hæstv. þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson, og var lögð niður í staðinn.

En í þessu snifsi og í litla fylgiritinu með fjárlagafrumvarpinu má þó lesa þegar grannt er skoðað að þetta er nú ekki betra en svo að strax á árunum 2007 og 2008 er gert ráð fyrir verulegum halla á ríkissjóði upp á 1,1% og síðan 1,6% af landsframleiðslu. Hvað þýðir það? (Gripið fram í: Og 2005 kemur eftir þrjár vikur.) Það þýðir að menn munu standa frammi fyrir því hér í þessum sal á árinu 2006 að horfast í augu við að tekjur ríkissjóðs duga ekki fyrir útgjöldum. Halda þeir að þá verði létt að koma fjárlögum saman og það verði gaman? Hvernig halda þeir að þá byrji fyrir samneysluna í landinu, velferðarþjónustuna í landinu þegar búið verður að afsala ríkissjóði um 30 milljörðum kr. í traustum tekjustofnum, þ.e. tekjuskatti fyrst og fremst, og aðstæðurnar verða orðnar þessar í efnahagsmálum þjóðarinnar? Það þýðir ekkert að reyna að fela þessar staðreyndir. Þær eru svona. Ekki einu sinni áætlanir ríkisstjórnarinnar sjálfrar gera því ráð fyrir að þetta sé hægt eins og hagsveiflan verður þá og tekjur ríkissjóðs verða orðnar það miklu minni, án þess að þá verði kominn halli á ríkissjóð.

Auðvitað munu menn þá segja: Ja, við verðum að skera niður. Þá munu hægri mennirnir gera það sem þeir hafa alltaf ætlað. Þeir nota ástandið til að þrýsta samneyslunni niður og draga úr velferðinni í landinu. Þeir koma stundum upp um sig, t.d. með hugtakinu „útgjaldastýring“. Útgjaldastýringu hafa þeir kallað það hér á köflum. Það á sem sagt að fara þá leið til að þurfa ekki að horfast í augu við niðurskurðinn, koma framan að fólki og segja: Við ætlum að draga úr fjárveitingum til heilbrigðismála, til skóla, til tryggingakerfisins o.s.frv. Menn fara fremur þá leið að lækka tekjurnar meðan árferðið er eins og það er og segja síðan: Nei, því miður. Það verður halli á ríkissjóði nema við skerum niður.

Þá skilja menn hugtakið „útgjaldastýringu“. Væri ekki eðlilegra að halda þeim tekjum inni á góðæris- og veltutímanum, leggja þær til hliðar, eins og ábyrgir menn ættu að gera, greiða inn á lífeyrisskuldbindingar ríkisins, borga niður erlendar skuldir og standa betur að vígi þegar lægð kemur og erfiðleikar berja að dyrum, sem verður samkvæmt spám ríkisstjórnarinnar sjálfrar í síðasta lagi á árinu 2007? En margir telja reyndar að svo verði fyrr.

Herra forseti. Ég leyfi mér að gagnrýna að hér skuli t.d. ekki sjást í hæstv. fjármálaráðherra eða hæstv. forsætisráðherra sem fróðlegt hefði verið að hafa í salnum og ræða pínulítið við um aðstæðurnar í efnahagsmálum nú þegar við erum á síðustu metrunum við að ljúka þinghaldi fyrir jól. Það er nefnilega ýmislegt að koma fram þessa dagana sem ástæða er til að staldra við.

Það þarf ekki annað en að fara í álit Seðlabankans frá 2. desember síðastliðnum og þær harkalegu aðgerðir sem með því voru boðaðar. Þar voru heldur betur tíðindi í íslenskum efnahagsmálum og þótt víðar væri leitað, að dúndra stýrivöxtum bankans upp um heila prósentu í einu skrefi. Nauðsyn þess er rökstudd með því að frá því að Seðlabankinn skoðaði stöðuna og gaf út í júní á þessu ári hafi ýmislegt orðið til að kynda undir vexti eftirspurnar, stóriðjuáformin hafi enn færst í aukana, aðgangur almennings að lánsfé orðinn meiri og boðuðum áformum um lækkun skatta á næstu árum verið framfylgt, sem enn frekar mun auka ráðstöfunartekjur almennings og hvetja til aukinnar einkaneyslu.

Ég var á stórmerkum fundi í morgun sem KB-banki hélt í stærsta fundarsal landsins. Hann dugði varla til. Ég stakk upp á því að næst mundu þeir halda morgunverðarfund í Laugardalshöllinni. Það var troðfullt út úr dyrum þar sem greiningardeild KB-banka og bankinn kynntu nýjustu skýrslu sína, þessi öflugasti banki þjóðarinnar, um horfur, sérstaklega í gengis- og verðlagsmálum þjóðarinnar, á næstu missirum. Það var skaði að þar skyldu ekki vera fleiri þingmenn, alveg sérstaklega hæstv. ráðherrar. Að vísu var sessunautur minn hæstv. sjávarútvegsráðherra sem var svo sem ágætt. En þeir hefðu mátt vera þar fleiri, t.d. hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, yfirmaður efnahagsmála.

Á fundinum leyndu sér ekki áhyggjur talsmanna bankans af því hvert stefndi. Formaður bankastjórnarinnar gerði viðskiptahallann að umtalsefni, sem hann taldi hættulegastan af öllu sem við stæðum frammi fyrir. Hann sagði augljóst mál að þetta gengisstig krónunnar gæti ekki gengið upp til lengdar og væri reyndar hættulegt að það héldi lengi áfram í þeim hæðum sem það er vegna þess að því lengur sem það ástand varir því harkalegar verði sennilega fallið þegar það kemur. Enda er spáin, sem þarna var gefin út, sú að við stöndum frammi fyrir því, líklega þegar líða tekur á næsta ár en tímasetningar eru alltaf erfiðar í þessum efnum, að harkalegt gengisfall gangi yfir hagkerfið og gengisvísitalan gæti farið úr þeim 110 stigum sem hún er að nálgast núna og upp undir 140 stig á örfáum mánuðum. Það munar um minna. (Gripið fram í.) Það getur nú vel verið að einhverjir fari að gera það, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) og það hjálpar þá líklega til.

Nei, ætli það sé ekki meiri ástæða til að hafa svolitlar áhyggjur frekar en að gjamma fram í glaðbeittir, eins og stjórnarliðar gera. Finnst mönnum þetta ekki áhyggjuefni? Eru menn virkilega svo heillum horfnir og kærulausir orðnir, svo gjörsamlega einangraðir í þeirri sjálfsblekkingu að hér sé allt í himnalagi, að það sé alveg sama hvaða aðvörunarorðum rignir yfir okkur, hversu harkalega Seðlabankinn telur sig knúinn til að grípa í taumana og hvað spádeildir stærstu fjármálastofnana landsins segja?

Hvað fréttum við utan úr atvinnulífinu? Hvar eru nú áhyggjur manna af því? Einhvern tíma hefðu menn staldrað við fréttir af því tagi sem birtust í Morgunblaðinu í dag, um að á viku hafi gengisbreytingar krónunnar rýrt útflutningstekjur sjávarútvegsins um 5 milljarða kr. Það munar um minna. Ég man að menn settu lög á sjómenn til þess að bjarga leifunum af loðnuvertíð og töluðu þá um að allt upp undir 3 milljarða kr. væru í húfi. Á einni einustu viku fjúka 5 milljarðar kr. af tekjuhlið sjávarútvegsins út af gengisbreytingum krónunnar einum saman.

Hvað segir í blaðinu Frjálsri verslun? Ég er ekki að vitna í áróðursrit af vinstri kantinum. Ég vitna í málgögn hægri manna, m.a. Morgunblaðið og Viðskiptablaðið. Ég held að Viðskiptablaðið, ef eitthvað er, sé orðið enn þá meira flokksmálgagn á köflum. En það sinnir vel málefnum atvinnulífsins og það er gott.

Þar er viðtal við merka menn, Hörð Arnórsson, forstjóra Marels, Birgi Ísleif Gíslason seðlabankastjóra og reyndar bjargvættinn, eða bjargvættina skilst mér að eigi að segja á vestfirsku, Einar Odd Kristjánsson.

Hvað segir seðlabankastjóri? Jú, hann segir að menn ættu ekki að láta sér koma þetta mjög á óvart. Hann segir að menn megi auðvitað búast við háu gengi næstu tvö ár þegar svo gríðarlegar framkvæmdir koma inn í hagkerfið á svo stuttum tíma. Það nemi um einum þriðja af landsframleiðslu og sé allt fjármagnað ýmist með eigin fé eða lánsfé frá útlöndum.

„Við slíkar aðstæður er ekkert um annað að ræða en að menn megi búast við háu gengi.“

Hvað með áhyggjur manna vegna útflutningsgreinanna? spyr Viðskiptablaðið seðlabankastjóra:

„Við deilum þeim áhyggjum með þeim sem í þeim viðskiptum eru,“ segir seðlabankastjóri. — Það hlýtur nú að vera mönnum mikil huggun að Seðlabankinn deilir áhyggjunum.

„Það er enginn vafi á því að menn verða að búa sig undir það að gengið verði hátt … Það er okkar verkefni að halda verðbólgunni sem næst 2,5% og við erum auðvitað staðráðnir í að gera það með þeim tækjum sem við höfum,“ segir seðlabankastjóri og hana nú.

Hins vegar segir Hörður Arnórsson, forstjóri Marels, sem er útflutnings- og samkeppnisiðnaðarfyrirtæki: „Mér finnst ótrúlegt skilningsleysi vera á þörfum útflutningsgreina ef menn ætla að sætta sig við það.“ — Þar vísar hann til orða seðlabankastjóra um hátt gengi. — „Tekjur minnka og þetta er mjög slæm staða. Þetta er sérstaklega slæmt varðandi sölu inn á Bandaríkin vegna þess hversu veikur dollarinn er. Þá er líka ljóst að staðan er mjög óþægileg fyrir allar útflutningsgreinar, líka gagnvart öðrum gjaldmiðlum þar sem krónan er mjög sterk.“

„Er hætta á að fyrirtæki flykkist úr landi í auknum mæli?“ spyr Viðskiptablaðið.

„Fyrirtæki hafa verið að fara úr landi undanfarin missiri. Það má nefna dæmi, Hampiðjuna, Plastprent og 66°Norður. Þetta hamlar uppbyggingu hér.“

Seðlabankastjóri er svo aftur yfirheyrður um verðbólguspána. Hann telur hana hafa versnað töluvert og telur m.a. upp þessar ástæður, með leyfi forseta:

„Stóriðjuáformin hafa enn vaxið og þjappast meir á næstu tvö ár en áður voru horfur á. Yfirlýsingar um skattalækkun hafa verið staðfestar og áform um aðhald í opinberum útgjöldum eru nokkuð óljós. Allir þessir þættir leiða til meiri framleiðsluspennu en áður var talið og kynda undir verðbólgu.“ — Allir þessir þættir, skattalækkanirnar líka. Það er stóriðjustefnan, skattalækkanirnar og sérstaklega greiður aðgangur almennings að lánsfé sem veldur mönnum þessum áhyggjum og hefur þessar afleiðingar.

Hvað er að gerast? Það eru ruðningsáhrifin af stefnu ríkisstjórnarinnar sem búa til þetta óhagstæða umhverfi fyrir útflutnings- og samkeppnisgreinarnar.

Vilhjálmur Egilsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu og hagfræðingur, orðaði þetta þannig á fundi í KB-banka í í morgun að verið væri að búa til pláss — hann notaði ekki orðið „ruðningsáhrif“, það er mitt hugtak — en hann talaði um að búa til pláss fyrir miklar stórfjárfestingar í hagkerfinu. Á mannamáli: Það er verið að ryðja öðru í burtu til að skapa pláss fyrir gæluverkefni ríkisstjórnarinnar, hina glórulausu, hömlulausu stóriðjustefnu og skattalækkanirnar sem eru auðvitað óðs manns æði við þessar efnahagslegu aðstæður. Það er alveg sama hvernig sjálfstæðismenn rembast við að segja annað. Þær eru glórulausar. Að taka 25–30 milljarða kr. í viðbót og setja í umferð við þær aðstæður. Það er svipað fjármagn og spáð er að gjaldeyrisinnstreymið vegna stóriðjunnar verði á næstu tveimur árum. Stærðargráða þess er einmitt um 30 milljarðar kr. á hvoru ári, 2005 og 2006.

Nú getur vel verið að það sé rétt sem kemur fram í ágætri skýrslu KB-banka, að menn hafi haft tilhneigingu til að ofmeta hin beinu eiginlegu áhrif stóriðjufjárfestinganna á hagkerfið. En hitt er ljóst að væntingarnar vegna þeirra eru einn aðalorsakavaldurinn. Efnahagsmál snúast auðvitað ekki bara um tölulegar staðreyndir og aðstæður ráðast ekki bara af hinum beinu og eiginlegu áhrifum heldur líka af andrúmsloftinu, af hinum sálræna þætti, af væntingunum.

Hvers vegna fer gengið upp í beinu framhaldi af ákvörðun Seðlabankans um hækkun stýrivaxta? Jú, það er vegna væntinga um aukinn vaxtamun á komandi missirum sem markaðurinn bregst strax við. Markaðurinn brást strax við vegna stóriðjuvæntinganna. Hann byrjaði á því í fyrra. Það er við þær sem við erum að glíma.

Ruðningsáhrifin af stórframkvæmdum, gæluverkefnum ríkisstjórnarinnar, reynast öðru atvinnulífi í landinu harla dýr, harla þungbær. Það er veruleikinn. Hvar er nú allur lofgerðarsöngur framsóknarmanna og annarra þeirra sem studdu þessar framkvæmdir? Það er að koma á daginn að þær skapa íslenska þjóðarbúinu geysilega erfiðleika og verða okkur mjög kostnaðarsamar í öðru atvinnulífi. Greinar eins og sjávarútvegurinn, útflutnings- og samkeppnisiðnaðurinn, ferðaþjónustan, veikburða uppbygging í öðrum greinum eins og fiskeldi, loðdýrarækt eða útflutningi á lambakjöti, blæða núna fyrir hækkað raungengi, fyrir háa vexti, fyrir verðbólgu og fyrir spennu í hagkerfinu. Þetta er einfaldlega veruleikinn, herra forseti.

Við nákvæmlega þessu var varað, að það væri ákaflega ógæfulegt að setja inn í íslenska hagkerfið á örfáum missirum utanaðkomandi stórfjárfestingu sem næmi einum fjárlögum ríkisins eða jafnvel rúmlega það. Það er allt að ganga eftir, með væntingunum sem því fylgja. Þegar við bætist svo ógæfusöm ríkisstjórn og ábyrgðarlaus sem hellir olíu á eldinn með stórfelldum skattalækkunum, sem þar á ofan koma þeim tekjuhæstu mest til góða, þá er það ekki mjög félegt.

Ég er því jafnhryggur, ef ég mætti taka svo til orða, og hægri sjálfstæðismennirnir eru glaðir yfir því sem er að gerast í íslenskum efnahagsmálum, sérstaklega hvað varðar ríkisfjármál, skatta og stöðu velferðarkerfisins á Íslandi. Þetta eru dapurlegir tímar fyrir þá sem vilja standa í ístaðinu og verja samábyrgt, norrænt velferðarsamfélag á Íslandi. Þetta eru mjög dapurlegir tímar og af minni hálfu mega allir hafa skömm af aðild sinni að því. Ég ber ekki mikla virðingu fyrir því að menn reyni að smygla inn á þjóðina stórfelldum þjóðfélagsbreytingum undir fölskum formerkjum þess að þetta sé allt saman hægt, muni hvergi koma við og ekkert annað en gullöld og gleðitíð fram undan, allt teppalagt og bein braut. Það er því miður aldeilis ekki þannig.

Það eru verulegar hættur á því að við keyrum núna harkalegar út af en nokkru sinni fyrr um áratuga skeið. Þær eru miklu meiri en nokkurn tímann áður í sögu þjóðarinnar. Af hverju er það? Jú, af því að nú hafa menn fengið frjálsan fjármagnsflutning milli landa. Menn hafa fengið markað. Menn hafa ekki þær öryggisgirðingar hvað sem menn segja um eldra fyrirkomulag á sinni tíð sem þýddi að útslagið og sveiflurnar gátu ekki orðið jafnmiklar og þær geta orðið núna. Núna gætum við heldur betur fengið að finna fyrir því ef hér færi virkilega illa, sem því miður er allt í kortunum, höggið getur orðið mjög þungt, hart og harkalegt þegar niðurslagið kemur og kannski mun fyrr en menn sjá fyrir sér.

Við höfum nánast allar breyturnar til staðar sem nágrannar okkar brenndu sig harkalega á um 1990. Við höfum haft mikla útlánaþenslu. Við höfum haft mikla skuldsetningu. Það er hækkandi fasteignamarkaður, við höfum búið til veð og menn hafa skuldsett sig í samræmi við það og við erum að því leyti að vísu verr stödd en grannar okkar voru þá, við erum skuldugri. Við erum ein skuldugasta þjóð í heimi. Íslensk fyrirtæki eru mjög skuldsett, að mestu leyti í erlendri mynt og nánast að engu leyti í innlendri óverðtryggðri krónu, svo maður noti myndlíkingamál ráðuneytisstjórans í sjávarútvegsráðuneytinu. Heimilin eru u.þ.b. að verða þau skuldugustu í heimi. Þau eru að sigla í 200% af ráðstöfunartekjum einmitt þessa mánuðina, fóru yfir 180% við áramótin síðustu. Sveitarfélögin eru mjög skuldug og safna skuldum upp á 3–5 milljarða á hverju ári.

Það er aðeins einn aðili sem hefur heldur verið að bæta stöðu sína, það er ríkissjóður. Það er gott, það er vel, en hann hefur gert það að miklu leyti með því að selja eignir sem höfðu byggst upp í landinu um áratuga skeið. Það kemur að því að það verða ekki endalausar eignir til að selja. Hvernig verður staðan þá? Jú, þá höfum við tekið þátt í minnka tekjur ríkisins þannig að það verður væntanlega rekið með halla strax árið 2007.

(Forseti (BÁ): Forseta leikur nokkur hugur á að vita hversu langt mál ræðumanns verður.)

Já. Ég skil vel að forseta fýsi að hlusta á mig lengi enn, en það var reyndar ekki ætlunin að halda ræðunni mikið lengur áfram. Ég held ég geti þess vegna, ef það er ætlun forseta að gera hlé, lokið máli mínu innan skamms og vil gjarnan gera það því ég sé ekki ástæðu til að vera að slíta þetta í sundur. Ég geri ekki ráð fyrir því að hæstv. ráðherrar ætli að ómaka sig hingað til umræðunnar frekar en venjulega. Það skal þá bara standa í þingtíðindunum að nú eins og endranær sýni þeir þeim umræðum sem hér fara fram takmarkaða virðingu. Það er orðin regla en ekki undantekning, en ég hef hugsað mér á næstunni að vera nokkuð iðinn við að vekja á því athygli, sérstaklega af því að ég fæ aldrei neina hjálp frá forsetum þingsins í þeim efnum að halda ráðherrum við þingskyldur sínar. Mér finnst dapurlegt að hér fari fram 2. og 3. umr. um fjárlög, menn ræði höfuðtekjuöflunarmál eða ríkisfjármálafrumvörp ríkisstjórnarinnar eins og þennan mikla skattalækkunarleiðangur og forsetar Alþingis lyfta ekki litla fingri til þess að reyna að sjá til þess að ráðherrar séu viðstaddir umræðurnar eins og eðlilegt væri.

(Forseti (BÁ): Forseti vill geta þess að formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Pétur Blöndal, hefur fylgst með umræðunni. Jafnframt vill forseti geta þess að skilaboðum var komið til fjármálaráðherra áðan um að hv. þingmaður hefði áhuga á því að hafa hann í salnum.)

Já, mér þykir forseti hafa brugðist skörulega við með því og forseti telur það væntanlega sjálfur, en engu að síður dugði það ekki til þess að hæstv. ráðherra mætti til umræðunnar.

En það er ekki aðalatriði málsins og er eins og hjóm eitt, virðulegur forseti, borið saman við það sem hér er undir, þ.e. þær miklu breytingar í skattamálum og áhrif þeirra á ríkið og íslenska samfélagið sem ég hef miklar efasemdir um að muni leiða til mikils velfarnaðar gangi þetta allt eftir, sem er að vísu ósýnt því það er nokkur tími til stefnu þar til þunginn af þessu á að koma til framkvæmda og vika getur verið langur tími í pólitík. Það skyldi ekki vera að farið væri að krauma dálítið undir víða í samfélaginu og þar á meðal á stjórnarheimilinu? Siglingin er satt best að segja ekki það gæfuleg. Ég held ég verði að segja að af minni reynslu af því að reyna að hafa tilfinningu fyrir sæmilega föstum tökum á hlutunum held ég að þessi haustmánuður sé með því slappasta sem ég hef upplifað hvað það varðar að maður hefur enga tilfinningu fyrir því að hæstv. ríkisstjórn sé með neina meðvitund og átti sig neitt á samhengi hlutanna eða í hvaða veruleika við stefnum með hlutina. Maður verður ekki var við það þegar menn koma hingað upp með klisjukenndar utanaðlærðar tölur um hvað allt sé yndislega gott og fagurt, þegar ekki þarf meira til en að lesa blöðin eða mæta á fundi í bænum til þess að heyra allt aðrar lýsingar af ástandinu, eins og ég hef aðeins reynt að draga fram.

Ég get því ekki, virðulegur forseti, farið að lokum með neinar hamingjuóskir. Það er afar fátt í þessu sem ég get glaðst yfir. Við styðjum að sjálfsögðu breytingarnar á barnabótunum. Þær eru í rétta átt og ganga út á að skila til baka hluta af því sem af barnafólki hefur verið haft undanfarin ár með skerðingum og tekjutengingum, en það hrekkur skammt þegar hið stóra samhengi hlutanna er skoðað og heildarbreytingarnar sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er að gera í þessum efnum, að meðtöldu því sem var lögfest í fyrra og varðar niðurfellingu hátekjuskattsins, eru í algerlega öfuga átt að okkar mati. Þær færa íslenskt samfélag í burtu frá því sem við eigum að stefna að, að halda áfram að vera norrænt velferðarsamfélag.