Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 19:38:58 (3243)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[19:38]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er í fyrsta lagi algjörlega ósammála hv. þingmanni um að það sé eitthvað óeðlilegt við að krefjast viðveru ráðherra við stórpólitíska umræðu af þessu tagi, eða talsmanna ríkisstjórnarflokkanna. Það á ekkert skylt við það að málið sé á forræði þingsins. Hv. þingmaður þarf ekkert að vera að kenna mér held ég stafrófið í þeim efnum, ég er búinn að vera hérna eitthvað á þriðja áratug og á því að kunna það. Það er að sjálfsögðu fullkomlega réttmætt þegar stórmál af þessu tagi eiga í hlut að menn krefjist þess jafnframt að viðkomandi fagráðherrar séu til staðar og taki þátt í umræðunni og svari fyrir sinn hatt. Þeir fara jú með framkvæmdarvaldið í þessum efnum. Þeir bera frumvörpin hingað inn og þó að hið formlega forræði málsins sé að sjálfsögðu í höndum þingsins er það ekki þannig að ráðherrarnir hafi sagt af sér á meðan.

Í öðru lagi er það örugglega rétt í ákveðnum tilvikum að fyrirtæki fari úr landi fyrst og fremst vegna þess að þau séu að elta lág laun, en ekki bætir þá algerlega óraunhæf gengisskráning úr skák, þá leggst hún þar ofan á. Það sér náttúrlega hver maður hvernig þetta blasir við þeim fyrirtækjum sem fá nú 20%–40% færri krónur í kassann en þau gerðu fyrir tveimur árum. Það er bara þannig. Fyrirtæki fá 44% minna af íslenskum krónum í tekjur ef þau flytja vöru sína út í dollurum en þau gerðu þegar best lét fyrir tveimur, þremur árum. Þannig er það bara.

Það er að sjálfsögðu gott að það dragi úr óhóflegum jaðaráhrifum á skattkerfinu, en til þess eru mjög margar aðferðir og margar aðrar réttlátari að mínu mati en sú að lækka sérstaklega skattana á tekjuhæsta fólkið, því jaðaráhrifin hafa alltaf verið tilfinnanlegust á launum undir meðaltekjum. (Gripið fram í.) Það er m.a. hægt með því að draga beint úr tekjutengingunum en ekki lækka tekjuskattinn, draga úr tekjutengdum skerðingum í kerfinu á barnabótum og öðru slíku. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður þarf ekkert að ragast um þetta við mig, því allan tíunda (Forseti hringir.) áratuginn var ég sennilega sá sem oftast nefndi jaðaráhrif í skattkerfinu.