Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 19:49:55 (3248)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[19:49]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það virðist vera að á þessum dapurlegu tímum með aldrei meiri hættu í sögu þjóðarinnar eigi ekki að draga þá ályktun að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vilji fara til baka hvað varðar frelsi í fjármagnsviðskiptum. Það liggur þá bara fyrir að það er vilji hv. þingmanns og flokks hans að fara ekki til baka hvað það varðar. Það kemur að vísu nokkuð á óvart vegna þess að eitt af því sem er frelsi á þessum markaði felst líka í því að menn hafa verið að losa um tök ríkisins, m.a. eignarhald og annað slíkt. Látum það samt liggja á milli hluta. Ég var að vonast til þess að hann mundi taka smátíma í það og svara fyrir það hvort hækkun skatta mundi þýða það sjálfgefið að menn fengju þær tekjur sem menn ætluðust til. Ég hefði viljað fá að vita hvort hv. þingmaður telji að — og hann getur notað seinna svarið í það — eða réttara sagt að hann útskýri það hvernig menn hafa í rauninni náð þessum árangri. Við erum búin að ná hérna gríðarlega miklum kaupmætti. Við höfum náð miklu meiri umsvifum í efnahagslífinu, m.a. höfum við aukið og skapað betri tækifæri fyrir fyrirtæki með lækkun skatta. Nú er það þannig að við erum í samkeppni um fólk og fyrirtæki, ekki bara um fyrirtækin, heldur líka fólkið. Það eru fleiri og fleiri einstaklingar sem geta valið sér búsetu sína þótt þeir vinni jafnvel allt annars staðar.

Ég mundi vilja fá að vita — og hann getur notað seinna svarið í að fara yfir það vegna þess að hér hafa komið miklar tillögur frá Vinstri grænum um hækkun skatta — hvort hann hafi engar áhyggjur af því að það geti leitt til minni tekna af þeim völdum.