Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 21:02:56 (3255)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:02]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er ég orðinn hálfringlaður á þeirri umræðu sem hefur farið hér fram í dag miðað við síðustu ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur hér áðan. Þá allt í einu kom fram ný skattalækkunartillaga frá Samfylkingunni. Það er sameiginlegt með þeim tillögum að þær virðast snúast eins og vindáttirnar. Nú er allt í einu Samfylkingin komin á þá skoðun að það eigi að fella niður hluta af eignarskattinum. Ég veit ekki betur en að í fyrstu umræðu um þetta mál hafi Samfylkingin neitað því alfarið að að fella niður eignarskattinn. Nú er allt í einu Samfylkingin komin á þá skoðun að það eigi nú jú að fella niður hluta af eignarskattinum. Ég er alveg hættur að átta mig á þessum málflutningi Samfylkingarinnar í skattamálum.

Ég vil spyrja hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að því hvernig hún vilji koma til móts við það fólk sem er að koma út kostnaðarsömu námi, sem er að koma sér þaki yfir höfuðið, sem er að greiða af sínum dýru námslánum og öðrum lánum. Hvað vill hún gera? Þetta fólk fær litlar barnabætur, litlar vaxtabætur og er að borga mjög háa skatta vegna þess að þetta fólk er með háar tekjur. Þetta fólk þarf að vinna mikið til þess að koma þaki yfir höfuðið. Hvað vill hv. þingmaður og hvað vill Samfylkingin gera fyrir þetta fólk sem er að hefja sinn búskap? Ég hef ekki heyrt neinar tillögur frá hv. þingmönum Samfylkingarinnar hvað það varðar hér í þessari umræðu. Jú, það á að koma sérstaklega til móts við lágtekjufólkið. En hvað með millitekjufólkið og hvað með unga fólkið sem er að koma úr námi og er að basla við að koma sér þaki yfir höfuðið?

Ég skora á hv. þingmann og í raun Samfylkinguna að við höldum fund í Háskóla Íslands og öðrum háskólum hér í landinu þar sem fólk er í kostnaðarsömu námi. Ég vil fá að heyra framtíðarsýn þeirra, hvernig þeir ætla að koma til móts við það fólk sem er að koma úr námi við háskóla hér á landi og erlendis frá jafnvel.