Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 21:06:57 (3257)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:06]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki fengið skýr svör um þá nýju stefnu Samfylkingarinnar að fella niður hluta af eignarskattinum. Ég endurtek það hér. Ég hef setið hér í dag og sat við 1. umr. um málið og ég er að heyra þetta í fyrsta skiptið núna. Ég held að hv. þm. Gunnar Birgisson geti nú tekið þetta í útgjaldapakka Samfylkingarinnar sem hann ætlar að fara hér yfir á eftir. En ég hef ekki orðið var við það hér í þessari umræðu, um fjárlög eða annað, að Samfylkingin ætlaði að fella niður hluta af eignarskattinum. En þetta er eins og annað í tillögum Samfylkingarinnar í skattamálum. Það er nú bara spurning hvernig þeir fara fram úr á morgnana, hv. þingmenn Samfylkingarinnar, þessa dagana.

Hæstv. forseti. Ég ætla að segja það hér um kjör námsmanna að þegar hv. þingmaður var í ríkisstjórn þá var endurgreiðslubyrði námslána 7%. Hún er 3,75% í dag. Það var skattpíning á námsmenn þessa lands á þeim tíma. Og þegar við erum hér að reyna að koma til móts við þennan hóp með þeim skattbreytingum sem við leggjum til og Samfylkingin leggst þar á móti þá er alveg ljóst að námsmenn eiga enga vini hjá Samfylkingunni.