Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 21:41:37 (3270)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:41]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki til nein algild formúla um hvar línan liggur á milli opinbers reksturs, samneyslu og einkareksturs á markaði, að sjálfsögðu ekki. Ég tel hins vegar að við séum komin fram yfir ystu mörk í þeim efnum.

Að allir eigi að fá allt frítt á Íslandi, hef ég sagt það? Það sem ég hef sagt er að við viljum að fólk þurfi ekki að greiða vegna veikinda sinna eða vegna náms barna sinna. Við erum að tala um grunnþjónustu í samfélaginu sem við viljum gjaldfrían aðgang að.

Varðandi atvinnustefnuna, það var spurt hver atvinnustefna okkar væri. Hún er þessi: Að búa fjölskyldum og atvinnulífi góðan, félagslegan ramma, með góðu þjónustukerfi. Að hafa til staðar aðgang að ódýru fjármagni, fjárfestingarfjármagni. Við höfum haft það í aðskiljanlegu formi gegnum tíðina og iðulega óskað eftir umræðum um það.

En það er mótsagnarkennt þegar sjálfir handhafar Stalíns-medalíunnar, mennirnir sem hafa pumpað meira fjármagni inn í atvinnulífið í formi stóriðju því það er ríkið sem fjármagnar hana, leyfa sér að tala á þennan veg um atvinnustefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem vill ganga í gagnstæða átt við þá stórfelldu íhlutunarstefnu sem hv. þm. Gunnar Birgisson er fulltrúi fyrir. Það eruð þið, stjórnarmeirihlutinn, sem hafið gripið á stórfelldari og grófari hátt inn í atvinnulífið en nokkur annar.