Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 21:46:06 (3272)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:46]

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Hér á hinu háa Alþingi hefur alllengi staðið yfir umræða um skattamál okkar Íslendinga sem náttúrlega er töluvert blönduð inn í efnahagsmálaumræðu þótt hún hafi ekki verið mikið rædd hér en þeim mun meira með fjárlögum. Fyrir það fyrsta vil ég segja að auðvitað er það gleðiefni hverrar þjóðar ef þjóðarbúskapur er þannig að hægt sé að lækka skatta þótt það liggi í augum uppi að alltaf getur orðið um það ágreiningur hvernig í þá skattalækkun eigi að fara. Það er kannski það sem skiptir mönnum einmitt í flokka, (Gripið fram í: … flokk.) skilur á milli þeirra sem vilja auka jafnrétti og jöfnuð í landinu og hinna sem vilja lækka skatta hjá þeim sem mest hafa fyrir. Það er það sem betur fer gerir það að verkum að ekki eru allir jafnaðarmenn og sumir verða kapítalistar og eru þar. Maður á ekki samleið með þeim hvað þetta varðar. Svoleiðis er bara lífið.

Það sem er aftur dálítið sérstakt við umræðuna núna er allt að því þessi grobbháttur stjórnarliða sem kemur út í því að staða ríkissjóðs sé góð vegna þess að þeir hafi stjórnað svo vel. Ríkissjóður hefur fitnað eins og púkinn á fjósbitanum, m.a. vegna þenslu sem hefur verið í landinu, aukinna skattahækkana, dulbúinna skattahækkana sem hafa verið undanfarin ár þar sem öryrkjar og aldraðir sem ekki borguðu skatta hér fyrir nokkrum árum eru orðnir stórgreiðendur skatts í tíð núverandi hæstv. ríkisstjórnar frá 1995, eins og hefur verið rakið í dag. Ríkisstjórnin hefur sem sagt fundið breiðu bökin til að skattleggja, til að safna í sarpinn fyrir þeim skattalækkunum sem verið er að gera núna, búa í haginn. Með öðrum orðum má segja, virðulegi forseti, að fjármálaráðherra landsins og ríkisstjórnarmeirihlutinn hafi farið um landið eins og nokkurs konar hjálpræðisher með söfnunarbauk og ekki mátt vita af nokkrum einustu gjöldum án þess að fara um þau höndum, skattleggja og auka skattheimtuna af þeim.

Virðulegi forseti. Það er einfaldlega þannig að menn hafa ráðist hér fram, hækkað gjöld og skatta miklu meira en er svo verið að skila til fólksins í landinu ef við miðum við t.d. næsta ár og hér hefur verið rakið í dag, m.a. í nefndaráliti 1. minni hluta.

Aumt er það hlutverk að fara svo um. Það er sama hvar maður ber niður. Ég verð alveg að játa það, vegna þess að ég fann ekki gögnin mín, að ég stend hérna og get ekki talið upp alla þá skatta sem ríkisstjórnin hefur verið að hækka á síðasta og þessu ári. Þeir eru svo margir að maður verður að hafa þá fyrir fram sig á blaði. Upp í hugann kemur samt þungaskatturinn á síðasta ári, það kjaftshögg sem stjórnarmeirihlutinn veitti þegar skattpíndum hluta þessa lands, þ.e. landsbyggðarbúum, hækkun sem auðvitað fór beint út í verðlagið, í flutningastarfsemi. Þannig er það núna, virðulegi forseti, að helmingur af flutningskostnaði er skattur sem rennur beint í ríkissjóð.

Bensíngjaldið sem var hækkað í fyrra og er að tifa inn núna gefur ríkissjóði miklar tekjur. Það eru mestu álögur sem til eru á bifreiðaeigendur í allri Vestur-Evrópu eins og komið hefur fram hjá FÍB. Heimsmet í skattheimtu af umferð í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, þar sem skattheimta af umferð er í kringum 32 milljarðar kr. á ári, en aðeins 16 milljörðum, þ.e. helmingnum, er varið til samgöngu- og vegaframkvæmda. Samt var bensíngjaldið hækkað og þungaskatturinn hækkaður.

Eigum við að rifja hér upp þegar við afgreiddum fjárlög í fyrra, þegar ríkisstjórnin tók sig til og ætlaði í lok þings þá, rétt fyrir jól, sem hún gerði, að lækka vaxtabætur um 600 millj. kr.? Okkur í stjórnarandstöðunni tókst og í því tilfelli með atbeina hv. þm. Péturs H. Blöndals, formanns efnahags- og viðskiptanefndar, að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin færi í enn eitt stjórnarskrárbrotið með þeim afturvirku aðgerðum sem þar voru boðaðar. Enginn deildi um það að menn gátu á þessum tíma í fyrra breytt vaxtabótadæminu fyrir þetta ár en menn deildu um afturvirknina og það sem ríkisstjórnin ætlaði sér að gera þá, þegar fjármálaráðherra hljóp um landið með söfnunarbaukinn að ná sér í hundruð milljóna, 600 millj. þarna og 400 þarna o.s.frv. En það tókst að lágmarka skaðann. Það tókst að koma vitinu fyrir ríkisstjórnarmeirihlutann þannig að ekki varð í þeirri ferðinni framið það stjórnarskrárbrot sem átti að gera. Ég endurtek það, virðulegi forseti, að hv. þm. Pétur H. Blöndal — ég hæli þeim hv. þingmanni ekkert allt of oft hér — má eiga það að þetta var m.a. fyrir atbeina hans. Hann stoppaði þessa ósvinnu í efnahags- og viðskiptanefnd og kom í veg fyrir að þetta yrði gert sem stjórnarskrárbrot. Engu að síður gekk það í gegn að skerða vaxtabæturnar um 600 millj. Svo er verið að skerða þær um 300 millj. hér.

Ég sagði áðan að mig skorti gögn til að lesa þetta allt upp og ég ætla ekki að fara meira út í það hér. Engu að síður er rétt að taka það fram að ríkisstjórnin hefur, um leið og þetta fagnaðarerindi er boðað með skattalækkunafrumvarpi sem stjórnarliðar geta ekki á heilum sér tekið af fögnuði yfir, á undanförnum dögum hækkað álögur á landsmenn, hækkað skatta með þessum gjöldum. Hæstv. fjármálaráðherra viðurkenndi líka að þarna væri verið að hækka skatta, og ber auðvitað að virða slíka hreinskilni.

Virðulegi forseti. Í því skattalækkunardæmi sem hér er verið að tala um og stjórnarliðar halda vart vatni yfir kemur upp í hugann allt sem stendur út af. Upp í huga minn koma t.d. erfiðleikar og fjárhagsstaða sveitarfélaga þar sem ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum hirt tekjustofna frá sveitarfélögunum og tekið inn í ríkissjóð. Nægir þar að tala um breytingu á skattalögum, þ.e. frá einkarekstri yfir í einkahlutafélögin. Að mati formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, sjálfstæðismannsins Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, getur verið hér um 1.200–1.500 millj. kr. að ræða á ári. Þessi tala hefur líka komið upp, ekki kannski upphafið nákvæmlega, en áhyggjur hæstv. núverandi félagsmálaráðherra meðan hann var varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga um það sem ég ætla ekki að nefna hér en er auðvitað ekkert annað, kalla það því nafni, en þeir hafa tekið af sveitarfélögunum þessar tekjur. Það er eðlilegt að ríkissjóður hafi einhvern afgang úr að spila til að setja í þessar skattalækkanir þegar búið er að hirða þetta eins og ég hef hér verið að taka dæmi um í hækkuðum sköttum, með því að taka peninga sem sveitarfélögin hafa átt og með því að gera öryrkja og aldraða að stórum tekjustofni, ef svo má að orði komast.

Þetta er aumt hlutverk hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég skil ekki almennilega hvernig á því stendur að hv. stjórnarliðar skuli ekki viðurkenna það eins og þetta blasir við. Það er svo augljóst mál hvernig skattheimtan hefur verið aukin til að safna í söfnunarbaukinn til þess að koma út sem góðir jólasveinar rétt fyrir jól og skammta eitthvað til baka í formi skattalækkana sem við deilum hér um hvernig eigi að færa til fólksins, hvaða leið eigi að fara. Eins og ég segi skilur þar á milli jafnaðarmanna og annarra, e.t.v. sem betur fer vegna þess að í þessari umræðu verður maður alltaf svo kátur og upp með sér að vera ekki í flokki með sjálfstæðismönnum og Framsóknarflokknum, að hafa þó enn þá þessa jafnaðarhugsjón og þá fögru stefnu sem þar ræður för.

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera hér aftur að umtalsefni það sem ég ræddi í dag. Ég tek eftir því að enginn þingmaður stjórnarliða sem hér hefur talað hefur rætt um hvernig þessi skattalækkun kemur út fyrir alla Íslendinga eftir því hvar þeir búa. Því miður verð ég að átelja þá stjórnarþingmenn sem kosnir eru af landsbyggðarfólki og í landsbyggðarkjördæmunum að halda ekki betur fram hag þessa fólks, betur en gert hefur verið í þessu dæmi. Aumt er hlutverk þeirra. Mikið svakalega hljóta menn að vera aumir að treysta sér ekki til að halda þessu fram inni í þingflokkum sínum og reyna að koma fram einhverjum bótum fyrir landsbyggðarbúa í þessum skattalækkunarpakka. Ég vil taka það skýrt fram að það er auðvitað ekki rétt að tala um engar bætur vegna þess að þær eru hjá þeim sem borga tekjuskatt og annað slíkt en það er mjög misjafnt ef við förum t.d. yfir í eignarskattinn. Það er reyndar mjög misjafnt í tekjuskattinum vegna þess að út af breytingu á atvinnuháttum hér á Íslandi undanfarin ár hafa tekjur fólks lækkað á mjög mörgum stöðum. Það hefur ekki úr eins miklu að spila og það hafði áður, borgar þar af leiðandi ekki eins mikla tekjuskatta og fær þess vegna ekki eins mikinn plús og aðrir sem betur fer hafa miklu hærri tekjur og sem búa hér.

Ef ég fer aðeins yfir í eignarskattana hefur það komið fram á hinu háa Alþingi að vegna gjaldaársins 2003 er greiddur eignarskattur í Reykjavík og Suðvest. 1.700–1.800 millj. kr. lægri eftir að hann var helmingaður með síðustu aðgerð ríkisstjórnar. Við höfum auðvitað ekki nýrri tölur. Á þessu tímabili munu þá íbúar Norðvest. fá eignarskattslækkun upp á 120 millj. Sama má segja um íbúa í Norðaust., þeir fá sömu tölu. Hjá íbúum Suðvest. er talan um 170 millj. Hvers vegna er þetta svona, virðulegi forseti? Er það vegna þess að tómir eskimóar búi úti á landi, eitthvað svoleiðis? Nei, það er ekki svo. Íbúar úti á landi hafa orðið fyrir mjög miklu verðfalli á sinni merkustu og mestu eign sem er húseignin þeirra.

Af hverju hefur orðið verðfall á húseignum þeirra? Vegna ákvarðana sem teknar hafa verið á hinu háa Alþingi um atvinnuháttabreytingar á Íslandi. Það kemur bæði fram í kvótakerfið í landbúnaði og sjávarútvegi. (Gripið fram í: Ertu á móti því?) Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ég sé á móti því. Já, ég er á móti því að eignir landsbyggðarfólks séu nánast gerðar upptækar vegna stjórnvaldsaðgerða, eins og reyndin hefur verið undanfarin ár. Ég er á móti því, virðulegi forseti, að fólki sé mismunað svo mikið sem hér er gert þegar fjallað er um eignarskattslækkun. Ég skammast mín fyrir, virðulegi forseti, að við þingmenn af landsbyggðinni getum ekki staðið saman um að gæta hagsmuna landsbyggðarfólks hvað þetta varðar.

Látum nú vera að stjórnarþingmenn, kosnir af landsbyggðinni, hefðu léð máls á því að fella algjörlega niður eignarskattinn. En hefði ekki verið meiri myndarbragur á því, virðulegi forseti, ef stjórnarþingmenn af landsbyggðinni hefðu barist fyrir því að sá skattur sem landsbyggðarbúar greiða sennilega mest af, þungaskattur og virðisaukaskattur af þungaskatti, gúmmígjald og hvað þessir déskotans skattar allir heita, hefðu verið lækkaðir? Nei, það var ekki gert. Stjórnarþingmenn, kosnir af landsbyggðinni, hafa ekki haft dug í sér til að verja landsbyggðarbúa hvað þetta varðar. Hafi þeir skömm af því.

Það er staðreynd, virðulegi forseti, að flutningsgjöld hafa hækkað mikið undanfarin ár. Við sjáum það í tekjum ríkissjóðs af flutningastarfsemi. Er þetta til að efla atvinnu á landsbyggðinni, virðulegi forseti? Ég vona, ef einhverjir stjórnarþingmenn kosnir af landsbyggðinni eiga eftir að tala hér í kvöld, að þeir útskýri þá fyrir okkur hvaða ávexti landsbyggðarbúarnir fá úr þessum ímyndaða skattalækkunarpakka.

Eigum við að fara yfir í skattkerfisbreytingu sem gerð var fyrir lögaðila fyrir 2–3 árum, virðulegi forseti? Já, það væri þess virði að rifja hana upp um leið og við tölum um eignarskatta einstaklinga, um hvernig skattkerfið kemur út gagnvart landsbyggðarbúum.

Þegar tekjuskattur lögaðila var lækkaður úr 30% í 18% var tryggingagjaldið hækkað í leiðinni. Eignarskattar lögaðila voru lækkaðir um helming. Hvernig kom þetta út, virðulegi forseti, gagnvart kjördæmum landsins, gagnvart fyrirtækjarekstri annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar í þessum þremur landsbyggðarkjördæmum? Jú, það var nefnilega svona: Fyrirtækjarekstur í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu hagnaðist um rúmar 3.000 millj. kr.

Hvernig kom þetta út í landsbyggðarkjördæmunum? 2–3 millj. kr. í plús í Norðvesturkjördæmi og einhver svipuð hungurlús í Norðausturkjördæmi. Suðurkjördæmi: Skattahækkun. Sérstaklega er minnisstætt skattaumdæmið Vestmannaeyjar. Þar hækkuðu skattar á lögaðila um 35 millj. kr. vegna skattkerfisbreytingarinnar. Virðulegi forseti. Ég vona að stjórnarþingmaðurinn Guðjón Hjörleifsson, Vestmannaeyingur með meiru, sé ánægður með þá skattkerfisbreytingu sem þar varð og hún hafi dugað vel atvinnurekstri í Vestmannaeyjum.

Ég sat fund í gær þar sem núverandi bæjarstjóri Vestmannaeyja lýsti því að á síðustu 10 eða 15 árum hafi störfum fækkað um 615 í Vestmannaeyjum. Mig minnir að íbúum hafi fækkað um 600–700. (Gripið fram í.) Er það hvað, hv. þingmaður? (Gripið fram í.) Ég ætla að eftirláta hv. stjórnarþingmanni Guðjóni Hjörleifssyni, vegna þess að ég held að hann sé á mælendaskrá, að tjá sig á eftir. En getur verið, virðulegi forseti, að skattkerfisbreytingar gagnvart lögaðilum hafi íþyngt atvinnurekstri á landsbyggðinni? Já, þær gerðu það. Tryggingagjaldið, sem öll fyrirtæki borga af greiddum launum, var hækkað. Sem betur fer greiða fyrirtæki úti á landi laun. Þau þurftu að borga hærri skatta.

Eignarskattslækkunin, virkaði hún vel fyrir fyrirtækjarekstur? Nei. Af hverju? Vegna þess að eignir fyrirtækjanna eru ekki hátt skrifaðar, meðal annars vegna þess að þau hafa stundum ekki haft framlegð úr fyrirtækinu til að fara í nýbyggingar, breytingar á tækjum eða öðru slíku eftir að hafa borgað svo mikið í rekstrarkostnað, ekki síst í flutningskostnaðinn.

Virðulegi forseti. Ég hélt að skattkerfisbreytingarnar gagnvart lögaðilum hefðu verið landsbyggðarþingmönnum stjórnarinnar víti til varnaðar. Ég hélt að dugleysi þessara þingmanna þá við að gæta hagsmuna landsbyggðarinnar hefði verið einstakt og kæmi ekki fyrir aftur. En svo er ekki, virðulegi forseti, vegna þess að þau dæmi sem ég hef tekið um eignarskattinn koma álíka niður. Með því er ég að sjálfsögðu ekki að hnýta í höfuðborgarbúa. Sem betur fer eru eignir þeirra hátt skrifaðar, hærra skrifaðar, halda verðgildi sínu og auka verðgildi sitt.

En í þessu samhengi vil ég nefna það hvernig vísitala neysluverðs byggist upp gagnvart húsnæðisþættinum. Hækkun húsnæðisverðs, allt að því viðstöðulaus, hefur hækkað vísitöluna, hækkað lán allra landsmanna og líka þeirra sem búa úti á landi, þar sem atvinna er að dragast saman. Eignir þeirra minnka að verðgildi en lánin þeirra hækka, afborganirnar hækka o.s.frv.

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að kalla þetta en annað en hálfgerða hringavitleysu og vítahring. Hafa landsbyggðarþingmenn úr stjórnarliðinu tekið þau mál upp og barist fyrir þeim frekar en öðrum sem ég hef nefnt? Nei, þeir skila auðu og láta allt yfir sig ganga. Ég segi bara, virðulegi forseti: Mikið svakalega er það aumt hlutverk að sitja í þingflokkum sínum og láta ganga þannig yfir sig á skítugum skónum án þess að snúast til varnar. (BJJ: Veist þú eitthvað um umræðurnar þar?) Ég veit nóg um umræður um það. Ég sé það á þeim frumvörpum sem hér hafa verið lögð fram, hv. þm. Birkir Jónsson, að árangurinn hefur enginn verið, m.a. af því sem við ræðum hér í kvöld, t.d. lækkun eignarskatta. (BJJ: Við erum bara að fella eignarskattinn burt.) Eignarskatturinn er felldur burt, hv. þingmaður, á þann hátt að landsbyggðarbúar hagnast ekkert á þeirri skattkerfisbreytingu. (BJJ: Jú, jú.) Það liggur við að ég segi að ég nenni ekki lengur að …

(Forseti (JBjart): Forseti vill beina þeim orðum til hv. þingmanns að hann beini orðum sínum til forseta en ekki til hv. þingmanna sem sitja í þingsal.)

Virðulegi forseti. Ég tel mig hafa beint orðum mínum til forseta en ég tek eftir því að hv. þingmenn úti í sal beina ekki orðum sínum til hæstv. forseta.

Virðulegi forseti. Það má segja svipað um tekjuskatt einstaklinga og það sem ég hef sagt um eignarskatt bæði einstaklinga og lögaðila. Það er því miður svipað með tekjuskattinn, að þetta kemur svipað út. Ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að fara nánar út í það. Þetta kemur svipað niður út af því að það breikkar sífellt bilið milli landsbyggðarbúa og höfuðborgarbúa á mörgum sviðum, í tekjum, eignum, þjónustu og í heilbrigðiskerfinu hjá stofnunum sem ríkið rekur. Það er sama hvar maður ber niður, það verður alltaf ljósara að hæstv. ríkisstjórn hefur verið dugleg við að auka bilið og búa til tvær ef ekki þrjár þjóðir í landinu.

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að ríkisstjórnin hefði greinilega fundið breiðu bökin til að skattleggja undanfarin ár. Þannig hef ég aldrei talið af hinu góða að öryrkjar og ellilífeyrisþegar væru skattlagðir af smánarlega lágum bótum sem þeir hafa frá Tryggingastofnun eins og gert hefur verið undanfarin ár. Ég hef stundum sagt það í ræðustól og ætla að segja enn einu sinni: Það er sennilega mesti smánarbletturinn á okkur Íslendingum hve illa við búum að ellilífeyrisþegum og öryrkjum á strípuðum bótum. Ég hef t.d. í huga ellilífeyrisþega sem voru ekkert mikið á vinnumarkaði þegar lífeyrissjóðakerfið varð til og njóta því ekki mikilla greiðslna úr lífeyrisjóðum. Þar er fólkið sem byggði upp þetta land fyrir okkur, okkur sem vinnum að stjórn þess í dag, fyrir fólk á mínum aldri og aðra sem njóta ávaxtanna af streði þeirra sem nú eru aldraðir og komið er fram við eins og ég hef gert að umtalsefni. (PHB: Það eru komin 100 ár.) Nei, virðulegur forseti, hv. þm. Pétur Blöndal segir að það sé komið yfir, hvað? (PHB: 100 ár.) Það er ekki komið yfir 100 ára aldur, virðulegur forseti. Um það eru til ótal dæmi.

Ég ætla rétt að vona að það verði á annan veg eftir 20–30 ár, að við, unga fólkið í dag og fólk á miðjum aldri, sem erum að borga í lífeyrissjóð fáum góða lífeyrisgreiðslu þegar að því kemur. En það er til fólk í þessu landi sem var að yrkja landið og byggja upp á sínum tíma og borgaði ekki mikið í lífeyrissjóð. Það var jafnvel atvinnulaust hálft árið. Í þeim hópi eru húsmæður sem unnu heima, ólu okkur upp. Þá voru konur ekki jafnmikið úti á vinnumarkaði og ekki eins mikla vinnu að hafa. Það eru til dæmi um fólk sem hefur innan við 10 þús. kr. frá lífeyrissjóðunum vegna þessa.

Skoðum Tryggingastofnun og þær bætur sem fólkið fær. Ég hef dæmi af einstaklingi sem fær frá Tryggingastofnun um 87 þús. kr. í greiðslur og borgar af því 7–8 þús. kr. í skatt. Er ekki glæsilegt að finna hér 70 eða 80 ára einstaklinga sem fá slíkar tryggingabætur en við hirðum af þeim 7 þús. kr. í skatta á mánuði? Komi síðan eitthvað örlítið úr lífeyrissjóði er hirt af því líka.

Þetta er engin upphæð, virðulegi forseti. Það er engin upphæð þegar ellilífeyrisþegar hafa rétt um milljón á ári frá Tryggingastofnun og lélegum lífeyrissjóðum, lífeyrissjóðum sem m.a. töpuðu fé á tímum óðaverðbólgu fyrir verðtryggingu. Það er einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin telur þetta hin breiðu bök. Þetta fólk á að fá skattalækkun, miðað við þá prósentulækkun sem hér er boðuð af stjórnarliðum, jafnt þessir einstaklingar sem hinir sem hafa kannski 870 þús. kr. á mánuði, svo við tíföldum þetta. Það fær sömu prósentulækkun.

Þarna skilur á milli jafnaðarmanna og kapítalistanna í ríkisstjórn. Okkur finnst þetta vitlaus leið. Á sama hátt er ekki eðlilegt að eignarskattsstofn hjá 70–80 ára gömlum einstaklingi gefi af sér 16 þús. kr. í eignarskatt. Það er engan veginn ásættanlegt en þannig hefur þetta verið hjá ríkisstjórninni undanfarin ár. (Gripið fram í: Fella það niður.) Já, fella það niður. Það er einmitt málið. Verið er að fella niður og þá sé ég að hýrnar yfir hv. þm. Pétri H. Blöndal. Hann gleðst yfir því, það eru gleðidagar hjá honum. En getur verið að menn réttlæti eignarskattslækkunina með því að tala um þetta gamla fólk sem á eignarskattsstofninn upp á 7,5 millj. og borgar 16 þús. kr. í eignarskatt af því, er verið að nota þetta fólk til að réttlæta eignarskattslækkun af 100 millj. kr. fólkinu? Jú, það er einmitt verið að gera það og aumt er hlutverk þeirra, að sigla í skjóli ekkla og ekkna sem svona er komið fyrir í skattheimturugli hæstv. ríkisstjórnar undanfarin ár sem hefur notað gamalt fólk og öryrkja til að safna saman sköttum í ríkissjóð og hæla sér svo af því að ríkissjóður standi svo vel.

Hvernig hefur það verið undanfarin ár, virðulegi forseti? Fríeignamarkið gagnvart eignarskatti er allt of lágt eins og fram hefur komið í umræðum í dag. En það er greinilega, og kom fram í frammíkalli hjá hv. þingmanni, verið að nota ekkjurnar og ekklana sem sitja í húsum sínum með eignarskatt upp á 7,5 millj. og borga 16 þús. kr. í eignarskatt, það er verið að sigla í skjóli þess fólks til að fella niður af 100 millj. kr. eigninni hjá stóreignamönnunum. Þarna skilur líka á milli jafnaðarmanna og kapítalistanna í ríkisstjórninni, hvort sem þeir heita sjálfstæðismenn eða B-deildin hjá Framsókn. Það skiptir ekki máli.

Fríeignamarkið gagnvart eignarskatti hefur verið allt of lágt og gamla fólkið hefur sífellt verið að borga meiri og meiri eignarskatt til ríkissjóðs vegna þess að þetta hefur ekki haldið í við annað í landinu. Þetta er einfaldlega þannig og alltaf langbest, án þess að reikna til dæmi og setja þau upp í excel-skjal eins og mönnum er tíðrætt að gera í dag, að sýna seðlana og hafa þá fyrir framan sig.

Virðulegi forseti. Þá ætla ég að koma að nokkrum þáttum sem lúta að því hvernig menn reikna út skattalegan ávinning fólks gagnvart skattbreytingunum. Það hefur orðið efni mikilla deilna á hv. Alþingi hvernig reikna skal hinn skattalega ávinning. Ég spyr mig t.d. að því hvort rétt sé að stjórnvöld leggi fram gögn þar sem fjallað er um áhrif skattkerfisbreytinganna, þar sem fjallað er um hækkun ráðstöfunartekna frá árunum 2004–2007 eftir hjúskaparstöðu og fjölda barna fyrir framteljanda með 2 millj. í tekjuskattsstofn og noti 2 millj. kr. öll árin án þess að hækka upphæðina. En á sama tíma á að nota lækkuðu tekjuskattsprósentuna, hækkaða persónuafsláttinn til að sýna fram á að þetta sé voðalega flott og fínt.

Ég ætla ekki endilega að segja að þetta sé fölsun. Það er í besta falli hægt að segja að menn setji fram bestu ímynduðu áhrif af þessu. Þegar ég set dæmið upp í excel-reikningsskjöl sé ég mjög mikinn mun á því hvort tekjurnar árið 2004 eru hafðar eins til ársins 2007 og sýndur sá skattalagi ávinningur eins og ríkisstjórnin gerir í gögnum sínum eða hvort maður tekur tekjurnar 2004 og hækkar þær miðað við sömu prósentu og notuð er við hækkanir á persónuafslætti, þ.e. að einhver kauphækkun verði á tímabilinu. Þá munar miklu á útgefnum gögnum stjórnvalda og því sem þar kemur út. Það verður ekki eins gott og ríkisstjórnin hælir sér af.

Mér sýnist t.d. að ef hjón með 4,8 millj. í tekjur árið 2004 færu upp í 5,2 millj. 2007 sé skattalegur ávinningur þeirra ekki 6,8% hækkun ráðstöfunartekna heldur rétt um 5%. Ef maður skoðar sömu tekjur hjá fólki með tvö börn, annað yngra en 7 ára og hitt eldra en 7 ára, er ekki skattalegur ávinningur þess fólks 10,5% eins og stjórnvöld segja heldur 7,5%. Þegar maður tekur tölurnar og hækkar laun þeirra á þessum árum þannig að það myndi hærri skattstofn eins og það á að gera er ríkissjóður að taka meira til sín. Þetta er í besta falli sett fram af stjórnvöldum ekki kannski til að falsa gögn eins og ég sagði áðan heldur til að sýna einhverjar ímyndaða langbestu útkomu sem hægt er að hugsa sér. Það má eiginlega segja að verið sé að gera kopar að gulli ef svo má að orði komast.

Hlutfallið lækkar mjög mikið ef maður tekur inn í hækkanirnar hjá fólki frá því sem stjórnvöld hafa gefið út yfir í það sem maður reiknar út gagnvart þessu.

Virðulegi forseti. Margt í því dæmi sem verið er að fjalla um er þannig að stjórnvöld eru að sýna það allra fallegasta sem hægt er að hugsa sér. Það er jafnframt ekki sanngjarnt vegna þess að í þeim dæmum sem ég hef tekið og viðurkenni fúslega að er erfitt að sýna og leggja fram svona tölu úr ræðustól í hv. Alþingi þá verður fólk auðvitað ekki með 4,8 millj. í tekjur árið 2007 þegar það á að borga lægri tekjuskattsprósentu, fá hærri persónuafslátt og hærri barnabætur, þá kemur þetta ekki eins út og stjórnvöld guma sér af. Dæmið verður verra.

Virðulegi forseti. Ég sé að hv. stjórnarþingmenn fýsir að fara að komast í ræðustólinn, bæði til andsvars og til ræðu. Ég veit að margir hv. þingmenn stjórnarinnar eru á eftir mér á mælendaskrá og einhverjir landsbyggðarþingmenn frá stjórninni eru á mælendaskrá. Ég vænti þess að þeir komi og útskýri fyrir okkur hvers vegna þeir börðust ekki betur fyrir landsbyggðarfólk en raun ber vitni í skattalagapakkanum.

Rétt í lokin, virðulegi forseti, sem þarf ekki að taka mikið fram, vegna þess að þeir hv. þingmenn Samfylkingar sem hafa talað í dag og í kvöld hafa gert það og útskýrt tillögur okkar, að það skilur einfaldlega á milli þarna eins og fram hefur komið. Samfylkingin hefði viljað lækka matarskattinn um helming. Það hefði líka Sjálfstæðisflokkurinn viljað, það hefðu Vinstri grænir viljað og Frjálslyndi flokkurinn. Eins og fram hefur komið, m.a. í víðfrægum Kastljósþætti, liggur það í augum uppi að Framsóknarflokkurinn hefur stoppað þá aðgerð, (Gripið fram í.) þeir 12 þingmenn sem enn þá sitja á Alþingi gátu í þessu tilfelli stoppað Sjálfstæðisflokkinn í að ná fram því sem mest sátt er um á hinu háa Alþingi, þ.e. að lækka matarskattinn um helming. Þetta hefur verið viðurkennt af hæstv. fjármálaráðherra í umræddum Kastljósþætti, þar sem hann sat með formanni Samfylkingarinnar, að Framsóknarflokkurinn stoppaði málið. Það er auðvitað í takt við ýmislegt annað sem Framsóknarflokkurinn hefur gert og ég hef gert að umtalsefni.

Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega að landsbyggðarþingmenn stjórnarinnar muni einn góðan veðurdag rísa til varnar landsbyggðinni í þingflokkum sínum þar sem vélað er um þær aðgerðir og breytingar sem hér er m.a. verið að tala um. Ég hef sýnt fram á það með tölum og þinggögnum að þetta kemur ekki jafnt út. Landsbyggðarbúar fá mjög lítið af þeim skattalækkunum, t.d. varðandi eignarskattinn, og aumt að ekki skuli vera notaður hluti af þeim peningum sem eru til skattalækkunar í það sem ríkisstjórnin, sérstaklega hæstv. iðnaðarráðherra, hefur fjallað um á tyllidögum eins og rétt fyrir kosningar, þ.e. flutningskostnaðurinn hefur ekki verið lækkaður á einn eða annan hátt og sú tala sem hæstv. iðnaðarráðherra nefndi í kjördæmavikunni á fundum þingmanna Norðausturkjördæmis þegar verið var að tala um 200 millj. kr. einhvers staðar úr hirslum iðnaðarráðuneytisins í einhvern flutningsjöfnunarsjóð vil ég segja að það er hungurlús sem gerir ekkert gagn. Við erum að tala um miklu stærri upphæðir, enda er skattheimtan af flutningsstarfsemi sem landsbyggðarbúar borga að mestu leyti miklu hærri en einhverjar skitnar 200 millj. sem hæstv. iðnaðarráðherra fjallar um. Það er dropi í hafið miðað við það sem við þurfum á að halda.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að þeir stjórnarþingmenn sem tipla í salnum og eru tilbúnir til að hlaupa í ræðustólinn í andsvar komi nú og skýri út fyrir okkur hvers vegna þjóðinni er skipt upp eins og raun ber vitni. Mér finnst með ólíkindum, eins og ég hef áður sagt, að þetta skuli fara svona í gegn. Ég hefði aldrei í þeirra sporum látið þetta yfir mig ganga og um leið og ég horfi á klukkuna og sé að hún er ekki nema hálfellefu þá er ég með ýmisleg gögn til að halda áfram eins og hálftíma í viðbót, (Gripið fram í.) en ég bíð spenntur eftir andsvörum þannig að ég ætla að hætta hér og nú.