Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 22:27:46 (3273)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:27]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ræða hv. þm. Kristjáns L. Möllers var hefðbundin og hæfilega full af gífuryrðum, svo sem hungurlús og fleira í þeim dúr. Hv. þingmaður talaði í upphafi ræðu sinnar um stöðu efnahagsmála og að svigrúmið væri bara sjálfsagt mál sem stjórnarflokkarnir hafa skapað til að lækka skattana á fólkið í landinu og talar um gjaldskrárhækkanir þar sem stjórnarflokkarnir hafa farið í vasa skattgreiðenda. Ég vil benda hv. þingmanni á að allt frá árinu 1995 hefur raunaukning kaupmáttar orðið 40% á tímabilinu og neysluverðsvísitalan er dregin þar frá, þannig að hér fer hv. þingmaður með staðleysu. Það er mikið góðæri í landinu.

Hv. þingmaður talaði mikið um atvinnuvegi landsbyggðarinnar. Mig langar að spyrja hv. þingmann að lokum um stefnu Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum. Hvað vill hv. þingmaður gera í þeim málum þar sem sjávarútvegurinn hefur skapað mikinn hagvöxt og hefur gert það að verkum að við getum lækkað skatta eins og raun ber vitni? Hvað vill Samfylkingin og hvað vill hv. þingmaður gera í starfsumhverfi íslensks sjávarútvegs sem skiptir miklu máli varðandi skattalækkanir?