Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 22:30:12 (3275)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:30]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt að þessi liður héti andsvar og hv. þingmenn ættu að koma með svör við einföldum spurningum. Mín spurning var bara ein: Hvað vill hv. þingmaður gera í starfsumhverfi íslensks sjávarútvegs sem skiptir mjög miklu máli fyrir það svigrúm sem við stjórnarflokkarnir höfum skapað til skattalækkana? Ætlar Samfylkingin að halda áfram að boða það öngþveiti sem fyrningarleiðin veldur eða hvað vill hv. þingmaður gera í starfsumhverfi sjávarútvegsins?

Svo er annað mál sem hefur knúið hagvöxtinn áfram og skapað það svigrúm til skattalækkana sem raun ber vitni, en það er atvinnuuppbygging á Austurlandi með álver við Reyðarfjörð. Hvernig snerist Samfylkingin í því máli? Jú, hún var með og hún sat hjá og hún var á móti, þetta var svona hingað og þangað, ég held að hv. þingmenn hafi haft þrjár skoðanir á málinu, það er því miður ekki hægt að hafa fleiri skoðanir á málunum. En ég spyr hv. þingmann hvort hann telji ekki að sú uppbygging sem stjórnarflokkarnir hafa staðið fyrir á Austfjörðum, því miður ekki með nægilega dyggum stuðningi stjórnarandstöðunnar, hafi ekki skipt miklu máli til að hægt væri að lækka skatta.