Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 22:43:09 (3286)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:43]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mig hafa sýnt fram á að ef við tökum t.d. bara tekjulægstu einstaklinga þjóðfélagsins, hvað hefur gerst í því ferli undanfarin ár? Af hverju eru ellilífeyrisþegar og öryrkjar stór skattstofn ríkissjóðs um þessar mundir? Hvers vegna borgar ellilífeyrisþegi með 100 þús. kr. á mánuði í ellilífeyri, plús einhvern lítinn lélegan lífeyrissjóð, 15–20 þús. kr. í skatt til ríkisins? Getur þingmaðurinn, virðulegi forseti, bent mér á lönd í nágrenninu sem skattleggja svo öryrkja og aldraða, eins og ég hef tekið dæmi um? Hver er ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að þetta hefur farið svona í tíð núverandi ríkisstjórnar, frá 1995? Af hverju í ósköpunum þarf að ganga á aldraða, sjötuga, áttræða, 95 ára einstaklinga og skattleggja þá á þann hátt sem hér er gert?