Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 22:44:19 (3287)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:44]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fór því miður eins og ég óttaðist að ekki fékkst svar við spurningu minni, sem var þessi: Getur þingmaðurinn bent á eitthvert land í heiminum þar sem frítekjumarkið er hærra en á Íslandi? (Gripið fram í: Ísland áður en við tókum við.) Ísland áður en við tókum við, er kallað fram í. Það er sem sagt eitthvert ríki í heiminum sem ég var að kalla eftir, það er Ísland áður en við tókum við.

Staðreyndin er sú að það er ekkert ríki í heiminum sem hefur frítekjumarkið jafnhátt og við Íslendingar. Við getum litið til Norðurlandanna þar sem frítekjumarkið er innan við 10 þús. kr. Engu að síður koma menn hér upp og fjargviðrast kinnroðalaust yfir að ríkisstjórnin skuli ekki ætla að hækka þetta enn frekar, setja nýtt heimsmet í málinu.