Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 23:16:53 (3291)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:16]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að líta öðruvísi á málið en hv. þingmaður. Ég segi: Það er ekki verið að hækka álögur á fólk heldur ætlar ríkið áfram sem hingað til að taka til sín sama hlutfall af verðgildi þeirrar vöru og þjónustu sem um er að ræða.

Ef við tökum brennivínið sem dæmi er hlutur ríkisins í útsöluverði hverrar flösku, hvers lítra, færður upp þannig að hann verði sambærilegur við það sem hann hefur verið hingað til. Um það snýst málið.

Þegar menn gera það ekki, t.d. með bjór og léttvín, þá segjum við með þeirri skattapólitík: Við ætlum að taka lægra hlutfall en hingað til hefur gilt. Það er þá skattalækkun.