Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 23:21:26 (3295)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:21]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er einmitt eitt sýnishornið af skoðunum Samfylkingarinnar í skattamálum. Það eru efasemdir þeirra um að við höfum efni á þessu yfir höfuð. Þeir hafa efasemdirnar um að það sé eftir allt svigrúm til að lækka skatta, sem þó átti að vera til staðar fyrir kosningar.

Að sjálfsögðu svara ég spurningunni sem beint var til mín játandi. Ég tel svigrúm að grípa til lækkana á virðisaukaskattskerfinu til hagsbóta fyrir almenning. Það hafa ekki verið tilgreindar neinar ákveðnar prósentur í því samhengi en það mun gert þannig að hagkerfið þoli það. Forsendan fyrir þeirri lækkun, eins og þeim lækkunum sem kynntar eru í því frumvarpi sem hér er til umræðu og stöðugleika og jafnvægi í ríkisfjármálum, er sú að það takist samstaða um að halda útgjöldum ríkisins í skefjum, að okkur takist að auka samneysluna ekki nema um 1–2% á ári.