Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 23:29:59 (3303)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:29]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að frítekjumarkið er hið félagslega jöfnunartæki í kerfinu. Það sýnir ójöfnuðinn hjá ríkisstjórninni að hún hefur haldið aftur af því þannig að nú vantar 10 þús. kr. á mánuði upp á að það sé eins og það var þegar hún tók við. Þeim ávinningi er nú útdeilt til eignamanna og hátekjufólks.

Í því dæmi sem hv. þingmaður tók sjálfur og fannst best, um 100 þús. krónu manninn árið 2007, var um að ræða rúmlega 5 þús. kr. skattalækkun fyrir 100 þús. króna manninn en tæplega 30 þús. kr. lækkun fyrir 500 þús. króna manninn.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji það forgangsverkefni í íslenskum stjórnmálum að lækka skattgreiðslur hátekjumanna, fjármagnstekjueigenda og eignafólks og hvort hann telji það eðlilega þróun að fátækasta fólkið á Íslandi hefur á síðustu árum í æ ríkari mæli verið að borga skatta svo að nú nema skatttekjur á annan milljarð kr. af fólki sem er á strípuðum bótum.