Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 23:34:35 (3308)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[23:34]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að vera ekki of langorður. Hér hefur farið fram skemmtileg umræða og afskaplega ánægjuleg í alla staði. Ég verð að viðurkenna að mér þykir hún sérstaklega ánægjuleg í ljósi þess, eins og oft hefur komið fram, að hún fjallar um helsta baráttumál okkar yngri þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Þetta var okkar helsta baráttumál í prófkjörum fyrir síðustu alþingiskosningar og helsta ástæðan fyrir því að við fengum þar brautargengi. Það varð síðan stefnumál beggja stjórnarflokkanna.

Það er athyglisvert að sjá og heyra af umræðunni hér að vinstri menn hafa nákvæmlega ekkert lært. Við erum alltaf í sömu baráttunni, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og Bjarni Benediktsson, sem hafa verið lengi í þingsal í dag og tekið marga rimmuna hvað þetta varðar, virðulegi forseti.

Þingmenn vinstri flokkanna, Alþýðubandalagsflokkanna, hafa barist gegn skattalækkunum, ekki í áraraðir heldur í áratugaraðir. Þeir virðast aldrei ná þessu samhenginu milli þess að ef menn lækka skatta þá hefur það tilhneigingu til að hafa góð áhrif á vettvangi þjóðlífsins. Ég man sérstaklega að þegar ég kom fyrst á þing fyrir nokkuð mörgum árum sem varaþingmaður þá tók ég rimmu ásamt hv. þm. Pétri Blöndal og Einari Oddi Kristjánssyni gegn þáverandi talsmanni Samfylkingarinnar, Sighvati Björgvinssyni, og núverandi formanni Vinstri grænna, Steingrími J. Sigfússyni, um lækkun á tekjuskatti til fyrirtækja. Þá börðust þeir hatrammir gegn því að tekjuskattur fyrirtækja, sem var þá 38%, yrði lækkaður.

Á sama hátt koma sömu aðilar nú og berjast hatrammir gegn því að tekjuskattar séu lækkaðir. Það hefur þó þann kost að afhjúpar endanlega þann flokk sem heitir Samfylkingin. Þar með er orðið ljóst, bæði í utanríkismálum sem og í innanríkismálum, að hann er bara framhald af gamla Alþýðubandalaginu. Einn af þeim flokkum sem standa að Samfylkingunni, þ.e. gamli Alþýðuflokkurinn, var með það á stefnuskrá sinni á sínum tíma eins og flestir flokkar, eða þrír af fjórum flokkum á Íslandi, að reyna að koma skattprósentunni niður í 35%, sömu skattprósentu og var þegar staðgreiðslan var tekin upp.

Þetta hefur síðan þróast á verri veg eins og allir þekkja og það hefur haft margvísleg áhrif. Verstu áhrifin, sem voru mest áberandi í síðustu alþingiskosningum, eru þau að svokallaðir jaðarskattar hafa hækkað. Það þýðir með öðrum orðum að fólk hagnast ekki á því að afla sér aukinna tekna og festist í fátæktargildrum. Það á við fólk í öllum tekjuhópum, jafnt þá sem eru með lægri laun og þá sem eru með hærri launin.

Það vill svo til að þetta var rætt mjög mikið fyrir síðustu alþingiskosningar. Þá var sérstaklega áberandi hve áköf Samfylkingin var í að berjast gegn hinum svokölluðu jaðarsköttum. Þeir hafa haft tækifæri til þess í verki og í orði á þingi að ljá stjórnarflokkunum lið við að lækka jaðarskatta en það er deginum ljósara að á því er enginn áhugi og það hefur komið skýrt fram. Það er svo einfalt að ef menn ætla að lækka eða afnema jarðarskatta og fækka fátæktargildrum, þá verður það ekki gert öðruvísi en að lækka prósentuna og afnema tekjutengingu.

Þetta snýst um hugmyndir manna í stjórnmálum, hvort þeir telji að hið opinbera eigi að taka eins mikið og mögulegt er af fólkinu og útdeila því aftur eða hvort menn treysti fólkinu fyrir sjálfsaflafé sínu. Flóknara er það ekki.

Það er athyglisvert að fylgjast með umræðunni. Menn verða að fyrirgefa hve tíðrætt mér er, virðulegur forseti verður að fyrirgefa mér það, um svokallaða Samfylkingu. Ég sé enga sérstaka ástæðu til að tiltaka annan stjórnarandstöðuflokk, t.d. Vinstri græna, vegna þess að þeir mega þó eiga að þeir hafa haldið sig bara við sína línu, þ.e. að vera á móti öllum skattalækkunum. Þeir hafa að vísu bætt í umræðuna röksemd sem Samfylkingin byrjaði líka á og gengur út á að fyrir utan það að skattalækkanir séu slæmar þá séu þær sérstaklega slæmar núna af því að þær hafi svo þensluhvetjandi áhrif sem sé sérstaklega slæmt í þessu árferði.

Þannig byrjaði, virðulegi forseti, Samfylkingin líka. Hún talaði um að skattalækkanirnar væru slæmar vegna þess að þær hefðu þensluhvetjandi áhrif. En á einhverjum tímapunkti snerist Samfylkingin og talar allt í einu um að hér sé um miklar skattahækkanir að ræða. Í málefnafátækt sinni gekk Samfylkingin jafnvel svo langt að kalla hina ótrúlegustu hluti skattahækkanir, m.a. afnám ívilnana á séreignarsparnaði, sem er örugglega ekki skattahækkun eins og allir sjá.

Hér hafa samfylkingarmenn talað um að þegar gjöld eru hækkuð í takt við verðlag, jafnvel aðeins reynt nálgast verðlag í einhverjum tilfellum til að halda aukatekjum ríkissjóðs, þá séu menn að hækka skatta. Slíkur málflutningur er auðvitað fráleitur. Menn hafa verið að velta vinstri flokkunum upp úr því hvað þeir gerðu þegar þeir voru við völd en ég ætla ekki að ganga svo langt. Ég ætla aðeins að vísa til þess sem þeir gera handan við Vonarstræti. Hvað gera menn þar þegar kemur að þjónustugjöldum og þessum svokölluðu aukatekjum, virðulegi forseti? Eru menn að hækka þau í samræmi við verðlag? Það er ekki tiltökumál.

Ég er ánægður að hv. þm. Jóhann Ársælsson er kominn til að hlusta á það því að um það er ekki vert að ræða. Það er engin frétt og gert mjög reglulega. En þegar kemur að því að endurnýja þessi gjöld þá eru menn ekki í neinum 3–3,5%, virðulegi forseti. Ég ætla bara að nefna nokkur gjöld sem ég veit ekki hvort lenda á þeim sem þeir telja hafa breiðu bökin.

Ég gæti nefnt skjólstæðinga Félagsþjónustunnar. Þar eru breiðu bökin í Reykjavík samkvæmt Samfylkingunni. Þar hækka gjöld fyrir félagsstarf um 7,1%. Það er tiltölulega hógvært miðað við Samfylkinguna en heimaþjónusta hækkar á vinnustund um 42,9%. Menn eru ekkert að hanga í einhverjum 3,5%. Akstur í félagsstarf fyrir skjólstæðinga Félagsþjónustunnar hækkar um 46,7%. Þar hanga menn ekki í einhverjum 3,5%. Nú er það ekki eins og þeir aðilar, þótt þeir hafi lofað því fyrir síðustu kosningar að hækka ekki skatta, láti það eiga sig að hækka bæði útsvar og fasteignaskatta. (JÁ: Ertu ekki að tala um fjármál Reykjavíkurborgar?)

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þm. Jóhanni Ársælssyni líður illa undir þessum lestri. Auðvitað er ósanngjarnt af mér að nefna þeirra eigin orð og gerðir. Auðvitað ætti ég ekki, virðulegi forseti, að fara yfir það sem þeir sögðu fyrir síðustu kosningar og þaðan af síður að minna á það sem þessir aðilar eru að gera. Þetta eru engar smákanónur í Samfylkingunni. Þar er formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og hvorki meira né minna en forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, eða var forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Ég veit ekki hvort hún er það. Kannski verður hún það en hún var a.m.k. kynnt þannig fyrir síðustu kosningar. Þar eru menn ekki að tala um 3,5%.

Ég gæti nefnt fleiri breiðu bökin. Frístundaheimili, þar er 10% hækkun, Borgarbókasafn, árskort, hækkun um 20%. Sundgjald barna var hækkað um 25% á árinu. Þetta eru væntanlega breiðu bökin af því að hér hafa menn talað um það, þegar ég hef spurt um aukatekjur ríkissjóðs, hvort menn vilji, þ.e. Samfylkingin, bara láta gjöldin standa í stað, sem þýddi raunlækkun. Þá er sagt að skoða verði málið í heild sinni. Þeir tala alltaf um að líta eigi á skattkerfið sem tekjujöfnunartæki sem leggjast eigi á breiðu bökin.

Það er skemmst frá því að segja og öllum ljóst eftir þessa umræðu, virðulegi forseti, og ég ætla ekki að lengja hana mjög, að það sem Samfylkingin lofaði fyrir síðustu kosningar um skattalækkanir stóð aldrei til að efna. Það skiptir engu máli hvort menn fara í einhverjar æfingar á morgun, öllum er ljóst að skattpíningarflokkarnir, Samfylkingin og Vinstri grænir, ætla með öllum tiltækum ráðum alltaf að hækka skatta. Það er alveg sama hvaða aðstæður eru í samfélaginu, þeir munu hækka skatta. Það er nokkuð sem er algjörlega ljóst.

Ég held að við höfum aldrei séð — ja, maður hefur kannski ekki skoðað það vel frá þeim tíma þegar Sósíalistaflokkur Íslands var á Alþingi Íslendinga, ég hugsa að hann slái það kannski út, en ég held að við séum að tala um einhvern slíkan samanburð þegar við skoðum ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar. Ég held að hún hafi aldrei verið meiri. Það er algjörlega fráleitt að hlusta á Samfylkinguna halda því hér fram í öðru orðinu að auka þurfi aðhald í ríkisfjármálum og koma svo í hinu með tillögur um að auka afganginn og þegar menn skoða síðan tillögurnar, ég tek bara eina, virðulegi forseti, og hún gengur út á að selja sendiráð og fá milljarð fyrir það og væntanlega minnka umfangið sem því nemur.

Virðulegi forseti. Hvert er stefnumál þessa stjórnmálaflokks? Það er að ganga í Evrópusambandið og það er ætlast til þess að viðkomandi lönd sem ganga í Evrópusambandið séu með sendiráð í öllum löndum sambandsins og Evrópusambandið er með 25 aðildarlönd þar inni. Ef þeir trúa þessu baráttumáli sínu þyrfti væntanlega að fjölga sendiráðum. Þetta er bara eitt dæmi.

Ég sakna þess þó, virðulegi forseti, og segi það alveg eins og er — og ég met það svo að þeir séu algjörlega sprungnir á limminu eftir að búið er að rassskella þá í umræðunni í dag og í kvöld — að þeir þori ekki í nein andsvör og þykir mér það mjög miður. Ég vil bara ítreka að umræðan hefur leitt það kristaltært í ljós að allt sem sagt var, og við erum svo sem að sjá það þar sem þeir eru við stjórnvölinn, að þegar Samfylkingin lofar skattalækkun þá er það loforð sem á að svíkja.

Við í stjórnarflokkunum erum hins vegar í þeirri ánægjulegu stöðu, sem er algjörlega frábær, virðulegi forseti, að við erum að snúa þessari þróun við. Við höfum smátt og smátt verið að hækka skatta. Þegar við tókum upp staðgreiðsluna vorum við með 35% skatt, árið 1988. Síðan hafa menn smám saman hækkað hann af ýmsum ástæðum, komið með hátekjuskatt ofan á o.s.frv., en við höfum snúið þessu við. Og það er engin spurning að það er markmið í sjálfu sér að einfalda skattkerfið og umbuna venjulegu fólki, duglegu fólki, sem Íslendingar eru, fyrir að sýna dugnað og ráðdeild. Þannig á skattkerfið að vera og við eigum ekkert að skammast okkar fyrir það.

Menn skulu líka átta sig á því, virðulegi forseti, að á sama hátt og skattalækkun á fyrirtækjum hefur þýtt að veltan hefur aukist í þjóðfélaginu, tekjur ríkissjóðs hafa aukist þrátt fyrir skattalækkunina, þá er ekkert sem bendir til annars en að það sama gæti verið upp á teningnum þegar til lengri tíma er litið þegar við lækkum skatta á venjulegu fólki. Við erum í samkeppni um fólk og fyrirtæki, virðulegi forseti, við eigum að hafa það í huga og við eigum að setja markið hátt. Við höfum náð gríðarlegum árangri á undanförnum árum en við getum náð enn betri árangri og við eigum auðveldlega að geta séð Ísland í allra fremstu röð, virðulegi forseti. Skattalækkunarfrumvarpið er ein leið og einn áfangi á þeirri vegferð.