131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[00:32]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þingmanns í hliðarherbergi. Af því að hv. þingmaður er kosinn í landsbyggðarkjördæmi eins og ég þá langar mig til að segja frá nokkru sem átti sér stað fyrir nokkrum árum þegar verið var að breyta tekjusköttum og skattkerfi lögaðila. Vegna þess að hv. þingmaður hefur þetta ekki fyrir framan sig verð ég að setja þetta upp sem dæmi og spyrja álits á því, virðulegi forseti. Skattadæmið er þetta: Tekjuskattur fyrirtækja var lækkaður úr 30% niður í 18%. Tryggingagjaldið var hækkað. Eignarskattar voru lækkaðir um helming. Þetta var aðgerðin. Hún skilaði sér þannig: Fyrirtæki, atvinnureksturinn á höfuðborgarsvæðinu, græddi á þessari aðgerð 3.000 millj. kr., 3 milljarða í skattalækkun. Skattalækkun á tveimur stöðum. Hækkunin var í tryggingagjaldinu. Í Vestmannaeyjum hins vegar sem er sérskattumdæmi þá hækkuðu skattar á lögaðila vegna þessara aðgerða um hátt í 30 millj. kr., ef ég man rétt, 20–30 millj. kr. Í tveimur öðrum landsbyggðarkjördæmum, Norðausturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi, var þetta nokkurn veginn á núlli, 2–4 millj. kr. sem skipta ekki máli. Hvað finnst hv. þingmanni um slíkar skattkerfisbreytingar? Eru þær sanngjarnar gagnvart atvinnulífinu í landinu? Er gætt jafnræðisreglu í svona skattkerfisbreytingu?