131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[00:37]

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurt er hvort jafnræðis sé gætt. Tekjuskattsbreytingar ríkisins ganga jafnt yfir alla landsmenn. Þar er jafnræðis gætt.

Varðandi eignarskattinn þá er alveg ljóst að hann er að detta út og þar gildir það sama fyrir alla landsmenn. Menn borga ekki eignarskatt á eftir. En hann er töluvert hærri á Reykjavíkursvæðinu. Við getum alveg eins tekið dæmið í hina áttina og nefnt fasteignagjöld. Landsbyggðin borgar lægri fasteignagjöld af því að fasteignamat er langtum lægra úti á landi. Mér finnst þetta bara snúast um það að það eigi að hætta að greiða eignarskatt hvar á landinu sem menn búa. Það er stóra málið. Öll fyrirtæki borga sama tekjuskatt. Það er jafnræðisregla. En álögur eru misjafnar hjá sveitarfélögum og þau hafa ákveðna valkosti um hámark og lágmark í gjaldamálum sínum.