131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[01:05]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna þeirra frasa sem hv. þingmaður sagði mig fara með milli umræðna, þá held ég að það sé betra að maður tali í svipuðum dúr, sama hvort það er við 1. eða 2. umr., en þannig er það ekki í Samfylkingunni. Áherslur og annað slíkt breytast á milli umræðna. Það kom ekkert fram hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar í 1. umr. hvað varðar hækkun fríeignamarksins í eignarskatti. Þetta dettur inn á milli 1. og 2. umr. í því nefndarstarfi sem hv. þingmenn hafa örugglega unnið ágætlega í eins og ég nefndi áðan.

Hæstv. forseti. Staðreynd málsins er sú og við getum dregið umræðuna saman í mjög stutt mál. Ríkisstjórnin leggur til skattalækkun upp á 4–5 þús. millj. á næsta ári. Samfylkingin hefur aftur á móti ákveðið að toppa ríkisstjórnarflokkana og hafa þá upphæð 70%–90% hærri. Það á aldeilis að ganga í augun á almenningi en mér væri ekki rótt ef þessi flokkur færi með stjórnartaumana í landinu miðað við hvað hann þarf að því er virðist lítinn tíma til að ákveða skattalækkanir upp á þúsundir milljóna. Þannig er Samfylkingin samansett í dag, því miður.