131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Bifreiðagjald.

377. mál
[02:05]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt. En það er dálítið skemmtilegt að eiga þessa orðræðu við hv. þingmann úr Samfylkingunni. Ég veit ekki betur en að þegar við höfum staðið frammi fyrir kjarasamningum hjúkrunarfræðinga, kennara og reyndar allra opinberra starfsmanna þá hafi alltaf farið fram utandagskrárumræður um að ríkið ætti að semja strax. Krafan er alltaf um að ganga eigi til samninga við opinbera starfsmenn, sérstaklega frá Samfylkingunni. Ég get nefnt fjölmörg dæmi um það.

Útþensla ríkisins hefur orðið vegna þess að opinberir starfsmenn hafa hækkað mjög mikið í launum. Þeir áttu það kannski inni til að byrja með, það er rétt. Þeir voru með lág laun. En nú eru þeir komnir með há laun og enn er krafa sett fram um að ganga eigi til samninga, strax og í óefni er komið. Ríkissjóður hefur því verið að þenjast út, því miður.

Ef menn ætla að reka ríkissjóð með ráðdeild og snilli þá eiga þeir að taka meðvitaða ákvörðun um að lækka skatta en ekki láta verðbólguna um það. Menn geta t.d. lækkað tekjuskatt, hv. þingmaður — hv. þingmaður hlustar ekki þótt hann hafi verið í andsvari — eða fellt niður eignarskatt. Þeir geta látið hátekjuskattinn renna út og sitthvað fleira ef þannig vill til. En það er þá meðvituð ákvörðun og verðbólgan ekki látin um að rýra gjöldin. Við skulum gera þetta meðvitað.

Ef við viljum t.d. lækka bifreiðagjöld þá skulum við taka um það pólitíska ákvörðun en ekki láta tilviljunarkennda verðbólgu um að lækka þau gjöld.