131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Bifreiðagjald.

377. mál
[02:10]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég undrast það að menn skuli leggja á sig allar þessar ræður um að viðhalda þurfi þeim tekjustofni sem hér er talað um vegna þess að sá tekjustofn er aðeins einn af fleiri tekjustofnum sem innheimtur er af bifreiðaeigendum í landinu. Það vill þannig til að enn einum nýjum álögum var bætt á bifreiðaeigendur með lögum sem sett voru í fyrra, en 350 millj. kr. leggjast á þann sama gjaldendahóp í viðbót á næsta ári. Það er því ekki þannig að ríkið missi af einhverju hvað varðar tekjustofna á bifreiðaeigendur. Auk þess ekki nema helmingurinn af þeim tekjustofnum notaður í vegi eða samgöngur í landinu. Það ætti því ekki að vera bráðnauðsynlegt að láta umræddan tekjustofn viðhaldast með þeim hætti sem hér hefur verið lýst.

Mér virðist sem menn séu komnir langt út í móa í umræðunni. Það liggur fyrir að ríkissjóður tapar ekki neinum tekjum á næsta ári. Öllum tekjustofnum er viðhaldið og meira en það. Ríkið situr eftir í plús þegar búið er að draga skattalækkanirnar sem koma til framkvæmda á næsta ári frá skattahækkununum sem hafa komið til á þessu kjörtímabili. Þá sitjum við uppi með það að verið er að innheimta meiri fjármuni í ríkissjóð en þá sem tapast vegna skattalækkana. Samt halda menn áfram að koma í ræðustól og tala um nauðsyn þess að viðhalda tekjustofnum, meira að segja sérstaklega á þennan gjaldendahóp sem þurft hefur að þola auknar álögur. Ég hélt að það þyrfti nú varla að auka vanda landsmanna við að reka bifreiðar, eftir hækkanir á orkuverði og öðru slíku, (Gripið fram í.) hækkanir á tryggingum og öðru sem bæst hefur við þann reikning á undanförnum árum. En hér finnst mönnum vá fyrir dyrum ef ekki verður hægt að hækka þetta gjald líka.

Mér finnst þetta komið út í algjörar öfgar. Menn þyrftu kannski að velta þessu svolítið fyrir sér í heilu lagi, horfa ekki bara með öðru auganu á blaðið sem nú liggur fyrir að samþykkja heldur á alla þá skattlagningu sem bifreiðaeigendur þurfa að þola.