Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 10:31:31 (3387)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:31]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í því frumvarpi sem við greiðum atkvæði um kemur fram skýr pólitísk lína frá hæstv. ríkisstjórn. Hér er um að ræða hugmyndafræði últra hægri manna. Þegar svigrúmið gefst loks til að lækka skatta eru þeir mest lækkaðir á þá sem mest eiga.

En það er ekki gert á þann hátt að lækka tekjur ríkissjóðs á móti. Nei, almenningur skal borga. Það skal hækka skólagjöld, gjöld við heilsugæsluna, gjöld á bifreiðaeigendur, það skal hækka gjöld á alla sem hægt er að ná í og jafnvel þannig að gjöldin sem eru hækkuð eru umfram skattalækkanirnar. (Gripið fram í.) Hér birtist hin pólitíska lína hv. þm. Péturs Blöndals og hann dregur meira að segja (Gripið fram í.) félagshyggjumanninn, hæstv. landbúnaðarráðherra, í frjálshyggjuhreyfinguna sína. Ég verð að óska hv. þm. Pétri Blöndal til hamingju með það. Ég greiði ekki atkvæði.