Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 10:41:39 (3394)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:41]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Þetta er ein meginefnisgrein frumvarpsins sem nú er verið að greiða atkvæði um. Í henni felst veruleg lækkun tekjuskatts einstaklinga, veruleg lækkun jaðarskattanna í þjóðfélaginu, þeirra skatta sem fólk þarf að greiða af hverri viðbótarkrónu sem það aflar sér.

Það er athyglisvert að horfa á töfluna og sjá hvernig þeir sem lofuðu miklum tekjuskattslækkunum í fyrra, fyrir einu og hálfu ári, í kosningum, greiða nú atkvæði. Samfylkingin sem eins og ég hef áður sagt veit ekki sitt rjúkandi ráð í þessu máli treystir sér ekki til að styðja lækkun tekjuskattsins (Gripið fram í.) sem við erum að fara með í 21,75%, tekjuskatt til ríkisins. Hér er stórt og mikið framfaramál á ferðinni fyrir alla þá sem afla sér tekna með vinnu sinni. Ég segi já, herra forseti.