Háskóli Íslands

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 13:45:46 (3435)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[13:45]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að koma upp og svara þessari sem ég vil kalla að vissu leyti markleysu hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar.

Hann vitnaði í grein sem ég ritaði fyrri nokkru síðan sem framkvæmdastjóri stúdentaráðs Háskóla Íslands. Ég vil kannski hryggja hv. þingmann með því að ég stend við allt sem þar segir enda hefur ríkið aukið framlög til ríkisháskólanna undanfarin ár í takt við það sem ég fer fram á í greininni.

Ég held að það sé líka gott fyrir okkur, eins og ég gat um í ræðu minni áðan, að við förum að staldra við og skoða háskólastigið í heild sinni. Það er alveg ljóst að sjálfseignarstofnunum hefur verið hjálpað af stað og kominn tími til að huga betur að málefnum ríkisháskólanna og ég hef von til þess að svo verði.

Líka í sambandi við greinina vísa ég til málefnalegrar baráttu stúdenta árið 2001 og hvað sú barátta leiddi af sér. Þá kom fram að það var 2.500 kr. lækkun frá frumvarpinu, það var dregið dálítið í land og ég held að það sé afrakstur málefnalegrar baráttu.

Hv. þingmaður segir að ég sinni ekki hagsmunabaráttu stúdenta. Eitt af þeim málum sem ég stóð fyrir og er komið í höfn og við munum ræða á eftir og var eitt af stærri málum mínum er lækkun endurgreiðslubyrða námslána. Verið er að lækka hana um 1% sem þýðir um 35 þús. kr. á ári fyrir námsmann. Í nefndarálitinu og í þeim tillögum sem við skiluðum hæstv. menntamálaráðherra var einnig kveðið á um að skoða kosti og galla þess að taka upp styrktarkerfi hjá Lánasjóði íslenskra námamanna. Ef hv. þingmanni finnst þetta ekki vera árangur fyrir stúdenta þá veit ég ekki hvað hann meinar.