Háskóli Íslands

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 13:49:01 (3437)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[13:49]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson segir að ég sé að leggja til 40% hækkun á stúdenta, að ég styðji ekki frumvarpið og greiði því ekki atkvæði mitt. Ég hef rakið það bæði í atkvæðaskýringu og ræðu af hverju ég styð ekki frumvarpið og af hverju ég er ekki á móti því. Það hefði verið betra ef hv. þingmaður hefði verið viðstaddur 2. umr. málsins, þá hefði hann heyrt það.

Ég ítreka að tvennt kemur til, það er alveg sjálfsagt að svara því eina ferðina enn. Í fyrsta lagi fá háskólarnir þessa hækkun óskerta til sín og það tel ég vera verulega framför frá árinu 2001 og síðan er kannski aðalatriðið hvað skrásetningargjöldin eiga að innifela. Ég er ekki sátt við þann lista sem liggur að baki þeim. Ég tel hann vera matskenndan, enda kom í ljós að hann er ekki samræmdur á milli skólanna. Ég tel því óhjákvæmilegt að við förum í þá vinnu að skilgreina málið betur því það er alveg ljóst að þetta mun koma í þingið aftur og aftur eins og hefur gerst að undanförnu og fram kom í máli rektora háskólanna í hv. menntamálanefnd að allar líkur séu á.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því að ég sit hjá við afgreiðslu málsins. Það hefði ekki skipt neinu máli fyrir framgang málsins þó ég hefði verið á móti, en sannfæring mín segir mér að sitja hjá og eins og hv. þingmaður hefur oft bent á á maður ekki að fara gegn sannfæringu sinni.