Háskóli Íslands

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 13:53:15 (3439)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[13:53]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Komið er í lokaumræðu mál sem lýtur að því að hækka skráningargjöld nemenda við ríkisháskólana. Segja má að verið sé að stíga skrefið til fulls með því að skilgreina skráningargjöldin sem hluta af tekjustofnum skólans, að þetta sé nauðsynlegur þáttur til þess að skaffa skólunum tekjur til starfsins.

Þetta kom reyndar fram í orðum þáv. hæstv. menntamálaráðherra, Ólafs G. Einarssonar, þegar samþykkt var á Alþingi að veita heimild til þess að taka svokölluð skráningargjöld. Þá lýsti hæstv. ráðherra alveg feimnislaust yfir að gjaldheimtan væri heimiluð skólunum til þess að mæta skertum fjárveitingum ríkisins til starfsemi þeirra. Hann viðurkenndi það heiðarlega að sú væri ástæðan. Það er miklu betra að komið sé hreint til dyranna og sagt hvað sé verið að gera og hvert markmiðið sé með því en að vera á einhverjum flótta undan því að standa skil og verja raunveruleikann sem verið er að keyra fram.

Hækkunin á skólagjöldum er klárlega hluti af tekjuöflun ríkisins enda stendur í tekjuforsendum fjárlagafrumvarps ríkisins fyrir næsta ár að skráningargjöld skuli hækkuð úr 32.500 kr. í 45.000 kr. Þetta stendur klárt í tekjuforsendum fjárlagafrumvarps ríkisins og kemur í uppgjör á ríkistekjum. Menn vilja því ekki skilja samhengi málsins þegar þeir segja að þetta séu einhverjar sértekjur skólanna og komi öðrum ekki við til ákveðinna þátta í starfsemi skólanna. Það er einfaldlega rangt. Þetta er hluti af almennum rekstri skólanna þar sem skólunum er gert að innheimta þessar upphæðir hjá nemendum, svo einfalt er það.

Til þess að geta komist að grundvallarumræðunni um það hvort fjármagna skuli ríkisháskólana með skólagjöldum eða ekki eiga menn að hætta þessum hártogunum og fara beint í umræðuna, því hún snýst um það hvort við förum í áföngum eins og hér er stillt upp að reka ríkisháskólana, reka háskólakerfi landsins í auknum mæli á skólagjöldum eða ekki.

Þar greinir okkur stjórnmálaflokka á hvort það skuli gert eða ekki. Þar eigum við samleið, við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem leggjumst gegn því að skólagjöld séu tekin við háskólana til þess að fjármagna almennt rekstrarstarf og kennslu þeirra. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs erum andvígir þeirri stefnu.

Hins vegar sjáum við samhengið í stefnu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem keyra í gegnum þingið stefnu sína í velferðarmálum. Hún birtist mjög skýrt: Lækkun skatta á því fólki sem hefur hæstar tekjur, lækkun skatta á hátekjufólk en skattbyrðin færð yfir á lágtekjufólk, hins vegar er tekna ríkissjóðs aflað með notendagjöldum, með sjúklingasköttum á þeim sem þurfa að fara til læknis og með skólagjöldum fyrir þá sem þurfa að fara í skóla. Þetta er stefna núverandi ríkisstjórnar og hún er klár.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs erum einfaldlega andvígir þessari stefnu. Við viljum sterkt og öflugt velferðarkerfi. Við viljum að fólk geti leitað til læknis eða farið á sjúkrahús óháð efnahag, það þurfi ekki að sækja aukna skatta, komugjöld í vasa fólks sem þarf að leita læknis. Sömuleiðis viljum við ekki heldur að fjármagna eigi skólakerfi landsins með gjöldum á nemendur. Skólakerfið er hluti af velferðarþjónustunni, hluti af þeirri grunnþjónustu sem á að standa öllum jafnt opin. Þar á ekki að vera mismunun á.

Sumum finnst þetta ekki há upphæð að hækka skráningargjöld úr 32.500 kr. upp í 45.000 kr. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vorum reyndar andvígir því þegar þau voru hækkuð í 32.500 kr. af grundvallarástæðum og einnig vegna þess að þessi upphæð skiptir máli. Það er aukinn kostnaður fyrir nemendur sem sækja háskólanám, húsaleiga hækkar, allur tilkostnaður hækkar. Þetta er því einn liður í því að auka við þann kostnað. En við erum fyrst og fremst af grundvallarástæðum andvíg því að verið sé að leggja í þessa vegferð.

Fjöldamargir nemendur eru okkur sammála. Ég þykist vita að allir þingmenn, svipað og ég, fái nú fjölda tölvuskeyta með áskorun um að hafna því að taka upp og festa í sessi skólagjöld eða svokölluð skráningargjöld við fjármögnun á ríkisháskólunum. Við fáum hundruð tölvuskeyta og þetta fólk er á vettvangi, veit nákvæmlega hvað málið snýst um og skorar á þingmenn að hafna því að fara inn á braut skólagjalda, fara inn á þá braut að háskólum landsins, ríkisháskólunum skuli gert að fjármagna sig með nemendagjöldum.

Ég vil þakka þeim fjölmörgu nemendum háskólanna sem hafa fylgt sannfæringu sinni eftir með þeim krafti sem þeir hafa gert og koma skilaboðum sínum á framfæri við hv. þingmenn. Það verður svo að reyna á hvort nægilega margir þingmenn átti sig á því hvað hér er um að tefla, jafnrétti til náms og stöðu háskólanáms til framtíðar, að ekki sé gerð þar mismunun á fólki eftir efnahag, þetta sé hluti af grunnþjónustu velferðarsamfélags okkar.

Ítarlegar greinargerðir fylgdu þessu nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar. Hv. þingmenn í menntamálanefnd úr minni hlutanum hafa fjallað um málið, ég nefni sérstaklega hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í menntamálanefnd sem hefur gert ítarlega grein fyrir afstöðu okkar í þessu máli. Þó vil ég hér vekja athygli á að með þessu nefndaráliti fylgja einmitt umsagnir stúdentaráðs Haskóla Íslands þar sem skorað er á alþingismenn og Alþingi að leggjast gegn þessum breytingum. Sú röksemdafærsla að þetta sé til að mæta einhverjum skilgreindum gjöldum er hrakin í þessum álitum umsagna stúdentaráða háskólanna. Hér er verið að pína háskólana til að hefja skólagjaldatöku.

Ég bendi líka á ágæta umsögn frá stúdentaráði Kennaraháskóla Íslands þar sem jafnframt er skorað á þingmenn að hverfa frá þeirri fyrirætlan að taka upp og fjármagna ríkisháskólana með skólagjöldum. Ég vil leyfa mér hér að vitna í ágæt lok á bréfi frá formanni stúdentaráðs Kennaraháskóla Íslands, Sigurði Grétari Ólafssyni, sem lýkur sinni stuttu og hnitmiðuðu umsögn þannig, með leyfi forseta:

„Áætlanir um hækkun skrásetningargjalda grafa undan megingildum norrænnar menningar um gjaldfrjálsa almenningsmenntun og þar með velferðarkerfinu öllu. Stúdentaráð Kennaraháskóla Íslands hvetur menntamálanefnd til að hugleiða niðurrifsáhrif slíkrar hækkunar til langframa.“

Er hægt að segja þetta markvissar og ákveðnar? Einnig er í umsögn frá stúdentaráði Kennaraháskólans rakið hvernig skólanum þeirra hafi bara verið stillt upp og sagt: Þið verðið að fylla kostnaðarliði upp í þessa upphæð sem krafin er, 45 þús. kr. Þið ráðið hvernig þið gerið það en þið þurfið að fylla út þennan lista. Þannig mun hafa verið krafan gagnvart öllum hinum háskólunum enda er þetta svo breytilegt sem mest má vera. Hið skrýtna er þó að skráningargjaldið er sama upphæð á alla skólana. Við höfum verið að tala um olíusamráðið hérna. Það er náttúrlega miklu alvarlegra og stærra mál — og þó ekki, því að þetta er liður í því að knýja alla skólana til að ganga í takt og taka upp skólagjöld. Það er það sem ríkið er að krefjast af þessum skólum, og þá má enginn undan líta. Ef Kennaraháskóli Íslands, Háskóli Íslands eða Háskólinn á Akureyri hefði sagt: Heyrðu, þetta kostar mig bara alls ekki svona mikið sem þið eruð að tala þarna um — hefði hann ekki komist upp með það. Það er bara svo einfalt. Þetta er alveg eins og með olíusamráðið eða grænmetissamráðið uppi í Öskjuhlíðinni, þarna skulu allir ganga í takt þá göngu sem ríkisstjórnin hefur krafist af þessum skólum, að fara inn á braut skólagjalda.

Þetta er rakið hér í ágætu og skýru máli í fylgiskjölum frá öllum háskólunum og ég vitnaði sérstaklega í umsögn Kennaraháskólans.

Ég held að það sé ágætt að ég ljúki máli mínu á því að vitna í lok umsagnar stúdentaráðs Kennaraháskóla Íslands. Reyndar eru þær allar mjög líkar, þessar umsagnir skólanna, alveg klárar og skýrar, en þar skrifa þau undir, Elfa Svanhildur Hermannsdóttir, fulltrúi stúdenta við Kennaraháskólann í stjórn BÍSN, og Sigurður Grétar Ólafsson, formaður stúdentaráðs Kennaraháskóla Íslands, eftir að hafa rakið það hvernig skólinn hefur verið að reyna að svara þessu kalli um að fylla upp í umrædda tölu. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Þær tölur sem hér eru settar fram sýna það svart á hvítu að sú upphæð sem áætluð er vegna skrásetningar nemenda er hreinn og klár skáldskapur. Því er notkun orðsins skrásetningargjöld ekki aðeins villandi heldur er henni einnig ætlað að hylma yfir þá áætlun sitjandi ríkisstjórnar að koma á skólagjöldum í háskólunum. Sú upphæð sem nemendur greiða til skólanna fer að stórum hluta í rekstur þeirra og þjónustu sem aðeins takmarkaður hópur innan hvers skóla notfærir sér. Því er enn og aftur á fáum árum seilst í vasa námsmanna til þess að mæta minnkandi framlagi ríkisins til ríkisháskólanna.“

Þetta er einfaldlega málið í hnotskurn, frú forseti. Þessi ríkisstjórn velur þá leið að ganga á velferðarkerfið, taka upp notendagjöld, taka upp sjúklingaskatta, láta þá borga sem þurfa að leita læknis, láta þá borga sem fara í skólann en lækka svo skatta á því fólki sem hefur hæstar tekjurnar vegna þess að það eru svokallaðir burðarásar ríkisstjórnarinnar og því fólki verðum við náttúrlega að hygla.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru gjörsamlega andvígir þessari skoðun, þessari stefnu. Stefnan er að standa vörð og efla sterkt velferðarkerfi og sterka grunnþjónustu. Það er dapurlegt að horfa á hvernig Framsóknarflokkurinn ber sig, flokkur sem ég held að margir, og víða um land, ekki síst til sveita, hafi talið að væri félagshyggjuflokkur. Skyldi það létta unglingum úr sveit að sækja háskólanám að hækka þessi skráningargjöld? Er ekki nóg fyrir, að þurfa að fara að heiman, kosta uppihald sitt, taka húsnæði á leigu og borga dýrum dómum þó að ekki sé líka verið að taka upp skólagjöld með þessum hætti í skólum sem nemendur héldu að þeir væru að sækja um fría skólavist í?

Það er dapurlegt að horfa á hvernig Framsóknarflokkurinn hverfur frá samþykktum sínum, samþykktum sem flokkurinn bæði gerir á landsfundum og setur í kosningastefnuskrár sínar. Þá er hann mikill félagshyggjuflokkur vikuna fyrir kosningar, andvígur skólagjöldum, andvígur sjúklingasköttum o.s.frv. Viku eftir kosningar er hann kominn í hinn gírinn, það eru skólagjöld og það eru sjúklingaskattar, þá eru þessi kosningaloforð gleymd.

Ég held, frú forseti, að samvinnufólki og félagshyggjufólki úti um allt land þyki dapurt að horfa á hvernig Framsóknarflokkurinn sem einu sinni var kenndur við félagshyggju er nú orðinn taglhnýtingur Sjálfstæðisflokksins í því að berja og brjóta niður velferðarkerfið en byggja upp aftur á móti á notendagjöldum, skólagjöldum og sjúklingasköttum.

Ég vona enn að þetta mál verði ekki samþykkt, að ekki verði samþykkt að hækka þessi gjöld, vera að stíga hér stóraukin skref í að taka upp skólagjöld í ríkisháskólana. Verði það hins vegar samþykkt vil ég lýsa því líka yfir að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu berjast gegn þessu. Eigi síðar en við næstu kosningar skulum við rifja upp kosningastefnuskrá þessara flokka sem fyrir kosningar eru á móti skólagjöldum en eftir kosningar styðja og taka upp skólagjöld.

Við skulum muna þeim það þá og þá skulum við velta þessari ríkisstjórn og rétta kúrsinn af í menntamálum þjóðarinnar, í skólastefnunni, þar sem höfuðáhersla er lögð á að menntun er fyrir alla, líka háskólamenntun, óháð efnahag.