Háskóli Íslands

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 14:55:13 (3450)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[14:55]

Steinunn K. Pétursdóttir (Fl):

Frú forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta mikið. Hér hafa verið fluttar ágætisræður um þau mál sem til umræðu eru, skrásetningargjöld í ríkisháskólana, og ég sé í sjálfu sér enga ástæðu til að rifja það allt saman upp. Hins vegar er eitt og annað sem mig rétt langar til þess að ympra á. Skrásetningargjöldin sem svo eru kölluð eiga í þessari atrennu að hækka um tæplega 40%, upp í 45 þús. kr. eins og komið hefur fram. Ég hef kosið að líta svo á að hér sé verið að laumast bakdyramegin að stúdentum í ríkisháskólum og koma á innheimtu skólagjalda.

Í sundurliðunum háskólanna sem fylgja frumvörpunum þar sem þessi skrásetningargjöld eru sundurliðuð lið fyrir lið og þeir liðir tíundaðir sem þessir fjármunir eiga að fara í, talið upp eitt og annað sem eins og fram hefur komið kemur skráningu stúdenta til náms í skólunum akkúrat ekkert við. Skólagjöld eru þeim formerkjum háð að vera til að fjármagna kennslu, það er ekki nefnt svo í sundurliðununum en hins vegar er þar ýmislegt sem kemur skrásetningunni sjálfri ekkert við heldur.

Mér sýnist sem hér sé verið að seilast í vasa stúdenta til þess að fjármagna rekstur skólanna, ríkisháskóla sem eiga að vera reknir af almannafé en ekki fjármunum þeirra sem nýta sér þjónustuna. Við höfum staðið í þeirri meiningu að hér á landi ætti að vera tryggt aðgengi allra að námi en hér er enn frekar verið að stíga skref í þá átt að halda þeim efnaminni frá námi að einhverju leyti.

Frjálslyndi flokkurinn hefur barist fyrir því og margítrekað og margrætt það að hér skuli vera tryggt aðgengi allra, óháð efnahag og óháð búsetu, að háskólanámi þar sem það séu grundvallarmannréttindi okkar allra að fá að mennta okkur en þeim sem höllum fæti standa fjárhagslega er gert erfiðara um vik með þessu frumvarpi að sækja sér þá menntun sem við viljum meina að þeir eigi fullan rétt á. Okkur hugnast ekki sú aðferð að rekstur skólanna sé fjármagnaður af þeim sem nýta sér skólana, okkur þykir það afskaplega ófýsileg þróun að stúdentar sjálfir sem að langmestu leyti fjármagna námstíma sinn á lánum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna þurfi að leggja fram á einu bretti helming framfærslunnar þann mánuðinn sem þeir skrá sig til náms þar sem skrásetningargjöld falla ekki undir þá liði sem hægt er að fá lánað fyrir hjá lánasjóðnum.

Ef hins vegar, eins og ég hef sagt áður, gjöldin væru nefnd réttu nafni, ef þau væru nefnd skólagjöld fengist lán fyrir þeim. Svo má velta fyrir sér hvort það geti verið að með þessu sé hæstv. ráðherra menntamála að sjá til þess að nemendur komi skríðandi á hnjánum óskandi eftir því að fá að greiða skólagjöld vegna þess að þeir fái a.m.k. lán fyrir þeim. Það virðist vera svo að rektorar skólanna hafi verið nauðbeygðir til þess að koma skríðandi á hnjánum í ráðuneytið og óska eftir heimildum til að fá að seilast á einhvern hátt í vasa nemenda þar sem þeir fá ekki nægileg fjárframlög á fjárlögum til að kosta rekstur skólanna.

Fram hefur komið í ræðum margra hv. þingmanna að hækkunarheimildin var forsenda fyrir fjárveitingum á fjárlögum fyrir 2005. Þetta segir okkur að stjórnendur skólanna voru nauðbeygðir til þess að nýta sér þetta til að fara fram á að rukka nemendur um þessi himinháu skrásetningargjöld. Ég get því ekki betur séð en verið sé að koma bakdyramegin að nemendum og þetta sé fyrsta skrefið af hugsanlega örfáum til þess að koma á innheimtu skólagjalda við ríkisháskólana.

Eins og fram hefur komið í ræðum í dag var varpað á það ljósi í hv. menntamálanefnd í morgun að eingöngu hækkunin, úr 32.500 kr. í 45.000 kr., komi til með að renna óskipt í sjóði skólanna. Rektorarnir og stjórnendur skólanna hafa hins vegar staðið í þeirri meiningu að þeir fengju upphæðina alla óskipta en úr þeim misskilningi var greitt í morgun, þeir fá einungis hækkunina. Rektorar skólanna og stjórnendur þeirra höfðu áður sagt okkur á fundi í menntamálanefnd að ef svo væri, ef 12.500 krónurnar ættu eingöngu að renna óskiptar til þeirra væri þessi aðgerð, þessi gjörningur algjörlega óþarfur þetta væru hvort sem er bara smámunir upp í það sem á vantar til þess að reksturinn megi ganga eins og þeir óska sér að hann gangi, sem sagt vel.

Það sem við stöndum frammi fyrir nú er sú einfalda staðreynd, og við höfum svo sem oft staðið frammi fyrir henni áður, að ríkisháskólarnir fá langt frá því nægilegt fé á fjárlögum til þess að reka sig. Þess vegna er ábyrgðin á rekstri skólanna komin yfir á nemendur. Þeir þurfa að fjármagna reksturinn, þeir þurfa að greiða fyrir hina ýmsu liði sem koma skráningu þeirra til náms akkúrat ekkert við.

Núverandi ríkisstjórn er að hækka álögur á stúdenta á sama tíma og hún lækkar skatta á hátekjufólk og stóreignamenn. Við verðum að minnast þess og hafa það hugfast að hátekjufólkið og stóreignamennirnir eru hugsanlega að greiða í sjóði stjórnmálaflokkanna og þá ríkisstjórnarflokkanna. Við getum hins vegar ekki vitað hvort svo sé, við verðum einungis að leiða að því getum vegna þess að stjórnmálaflokkarnir hafa kosið að berjast gegn því að við fáum að hnýsast í bókhald þeirra. Við fáum ekki að sjá hverjir styrkja þá en við getum alveg gert ráð fyrir því að það séu ekki stúdentar vegna þess að ef svo væri væri ekki verið að hækka gjöld á stúdenta við ríkisháskólana. Það má líka alveg gera ráð fyrir því að stúdentar muni hér eftir ekki leggja mikið í sjóði þeirra, a.m.k. ekki á meðan þeir eru í námi, en eins og ég segi getum við ekki vitað það þar sem við fáum ekki að komast í bókhald þeirra.

Mig langar hins vegar rétt áður en við þingmenn kveðjum og förum í jólafrí að minnast í örstuttu máli á skáldsögu ársins. Þær eru reyndar þrjár sem voru gefnar út, miklar skáldsögur fyrir þessi jólin, það voru fylgiskjölin þrjú sem fylgja frumvörpunum þremur. Eins og hv. þm. Mörður Árnason rakti áðan á sú forsaga sér afskaplega furðulega sögu, þetta er furðuleg leið sem gengin var til þess að komast að þeirri niðurstöðu að skrásetningargjald skyldi vera 45 þús. kr. og það skyldi vera 45 þús. kr. á hvern nemanda í öllum skólunum þremur. Hér virðast hafa verið, eins og fram hefur komið, einhverjir leynifundir í Öskjuhlíðinni á sama stað og gúrkubændur hittust á sínum tíma þar sem sest var niður með fartölvurnar og excel-forritin opnuð og leitað leiða til þess að finna á einhvern hátt niðurstöðu sem hentaði afskaplega vel rektor Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytinu, 45 þús. kr.

Það lítur út fyrir að stjórnendur skólanna hafi verið komnir alveg út í horn og búið hafi verið að snúa þá niður og þeir hafi verið nauðbeygðir til þess að leita eftir heimild til þess að fá að rukka nemendurna, rukka þá sem koma til með að skrá sig til náms í skólunum vegna þess að sýnt þótti og þykir enn að það sé langur vegur frá því að nægilegt fé sé tryggt frá ríkinu til þess að reka skólana með sóma. Það ætti að vera forgangsatriði núverandi ríkisstjórnar að rekstrarfé væri tryggt og væri nægjanlegt til háskólanna þar sem fjárfesting í menntun er fjárfesting til framtíðar sem skilar sér margfalt, fljótt og örugglega aftur í þjóðarbúið.

Þess vegna er það til skammar að þessi aðferð skuli verða ofan á, að orðið hafi fyrir valinu að fátækir námsmenn sem reka sig á námslánum að mestu allan námstíma sinn þurfi að tryggja rekstur skólanna. Það er sorglegt að svona skuli vera komið fyrir okkur og enn sorglegra er að ríkisstjórnarflokkarnir styðja þetta, þeir ganga fram í þessu, þeir óska þess að þetta sé svona og mér þykir líka sorglegt að það er í raun sama hvað lagt er til, hvað bent er á, það virðist ekki vera vilji fyrir því að skoða aðrar leiðir.

Frjálslyndi flokkurinn hefur barist gegn þessu, við höfum mótmælt þessari leið, við erum ekki sátt við að hún skuli verða fyrir valinu. Við teljum að verið sé að leggja byrðar á þá sem eiga erfitt með að standa undir þeim. Rekstur skólanna á að vera tryggður af ríkisfé vegna þess að það á að vera yfirlýst stefna okkar að allir eigi að hafa jafnan aðgang að skólunum óháð því hvort þeir eiga 45 þús. kr. í vasanum eða ekki. Ríkissjóður á nægilegt fé til þess að standa straum af kostnaðinum og ætti að sjá sóma sinn í því að tryggja frið um rekstur skólanna þannig að nemendur geti sest þar og numið það sem þeir kjósa að nema án þess að þurfa að borga fyrir það dýrum dómum.

Þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur komist að einfaldri niðurstöðu í málinu. Við erum ósátt við að þessi leið sé farin. Við munum ekki styðja það að raunin verði að þessi leið verði farin og það var ekkert afskaplega erfitt að komast að þeirri niðurstöðu. Þetta er vond leið að fara og vissulega vildum við að fleiri sæju að þetta er vont skref að stíga sem á eftir að setja svartan blett á menntastefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta sýnir okkur hins vegar hver forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er í menntamálum. Þeir borga sem eiga pening, þeir sem hafa efni á því að fara í skóla geta gert það, hinir verða bara að redda sér öðruvísi.

Það er afskaplega leitt að þetta sé raunin. Á sama degi og ákveðið er að lækka skatta og fella niður skatta stóreignafólks er seilst í vasa þeirra sem minnst hafa, klinkið talið saman og þannig á að bjarga skólunum. Þetta er sorglegt og við munum ekki styðja þetta í gegn. Við munum gera það sem við getum til þess að berjast gegn þessu og ég hvet stúdenta til að sýna áfram þá samstöðu sem þeir hafa sýnt og láta rödd sína heyrast því hún skiptir máli.