Háskóli Íslands

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 16:21:57 (3473)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:21]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að það er sama hvað maður kemur oft upp, menn virðast ekki, og sér í lagi ekki hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, átta sig á um hvað málið snýst. Hér er ekki um skólagjöld að ræða, hér er um skrásetningargjöld að ræða þannig að menn hafi það alveg á hreinu. Hér er ekki um neinn feluleik að ræða. Í fyrsta skipti er verið að draga fram kostnaðinn, og það er mjög sérstakt að menn hafi ekkert verið að ræða það, bakgrunninn, bakgrunnsupplýsingarnar á bak við skrásetningargjaldið. Í fyrsta skipti erum við að sýna svart á hvítu hver þjónustan er sem felst nákvæmlega í þessu gjaldi.

Ég veit ekki hvað þarf að gera til þess að menn átti sig á þessu. Kannski þarf að hringja í símastrákinn til þess að þið skiljið þetta betur en ég veit ekki til hvaða ráða maður á að taka hér.