Háskóli Íslands

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 16:27:03 (3478)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:27]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Grunnframfærsla er metin 79.500 kr. á mánuði hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna fyrir einstakling í leiguhúsnæði. Fyrsta mánuðinn þarf einstaklingurinn nú að taka 45 þús. kr. til þess að borga hæstv. menntamálaráðherra skattinn. Ég spyr ósköp einfaldlega: Hvaðan vill menntamálaráðherra, sem kemur hér af miklu „átoríteti“ fram við stúdenta í landinu, að þeir taki hann? Vill hún að þeir finni þetta fé á götunni? Vill hún að þeir taki þetta af húspeningunum sínum? Vill hún að þeir betli? Vill hún að þeir fari til foreldra sinna eða hvað vill hún að þeir geri til þess að fá þennan 12.500-kall? Ekki einu sinni, heldur eins langt fram og séð verður að hæstv. menntamálaráðherra sitji að völdum og hennar flokkur hér í landinu. Það eru að vísu ekki nema tvö eða þrjú ár þannig að það er þó a.m.k. happ í skógi.