Háskóli Íslands

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 16:42:54 (3481)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:42]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þótti vænt um að heyra hv. þm. Össur Skarphéðinsson segja frá því sem gerðist hér á síðasta áratugnum, það er alltaf gaman og fróðlegt að hlusta á reyndari menn, aðeins eldri, örlítið eldri. En engu að síður, hæstv. forseti, fannst mér líka gott að heyra að hann nefndi skrásetningargjöldin því nafni sem þau heita, þ.e. skrásetningargjöld, og það er einmitt það sem málið snýst um. Við höfum ákveðið form um setningargjöldin sem er búið að vera við lýði nokkuð lengi. Það form hefur ekkert breyst. Meðan við búum við það form og það fyrirkomulag mun ég ekki beita mér fyrir því að þau verði lánshæf hjá LÍN eins og fyrirkomulagið er í dag en, hæstv. forseti, ég held að það sé búið að koma nógu oft fram.

Mér finnst gott að heyra að hv. þingmenn, sérstaklega þingmenn Samfylkingarinnar, eru tilbúnir til þess að taka umræðu um kosti og galla skólagjalda og ég vil frekar leyfa mér að við reynum fyrst að vinna markvisst að því að draga fram með góðu og hæfu fólki, mætu fólki sem kemur úr háskólunum, efnislega kosti og galla skólagjalda, þannig að við fáum vísustu menn landsins til að koma að því borði með okkur til þess að hjálpa okkur í þeirri stefnumótun sem fram undan er hvað varðar allt háskólastigið og þar á meðal tengjast skólagjöldin inn í þá umræðu.