Háskóli Íslands

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 16:48:49 (3484)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:48]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég harma ekkert sérstaklega þó hæstv. menntamálaráðherra undanskilji mig og okkur hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þegar hún fagnar því að þingmenn annars stjórnarandstöðuflokks, Samfylkingarinnar, séu tilbúnir til að ræða alvarlega og á alvarlegum nótum skólagjöld, skrásetningargjöld og innritunargjöld í opinbera háskóla því Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lýst því yfir að við erum algerlega andsnúin því og sjáum engin rök fyrir því að réttlætanlegt sé að leggja skólagjöld á stúdenta í opinberu háskólunum.

Ég veit að hæstv. menntamálaráðherra hafði ekki tök á því að hlýða á fyrri ræðu mína við 3. umr. og því langar mig til þess að hún fái nasasjón af því sem sú ræða gekk út á og að sá kjarni komist til skila núna. Þannig var að starfsmaður hennar úr menntamálaráðaneytinu, Gísli Þór Magnússon, kom á fund menntamálanefndar í morgun. Lýsing hans á veruleika hinna opinberu háskóla var afar dapurleg. Hann lýsir því þannig að þeir komi til með að halda sig innan ramma fjárlaga jafnvel þó að fyrir liggi yfirlýsingar rektoranna um að það vanti í tilfelli Háskóla Íslands 300–400 millj. upp á að endar nái saman á næsta ári, í tilfelli Háskólans á Akureyri 100 millj. og í tilfelli Kennaraháskóla Íslands hafa þeir farið þá leið að halda sig innan fjárlagarammans með því að vísa þúsund umsækjendum frá skólanum. Síðan beita stjórnendur háskólanna, að sögn gísla Þór Magnússonar, öllum tiltækum ráðum til þess að láta enda ná saman.

Hvernig gera þeir það? Jú, með því að skera niður í einstökum deildum. Þannig eru deildarforsetar knúnir til að gefa út yfirlýsingar á borð við þá sem við lásum í morgun við upphaf umræðunnar og var samþykkt á deildarfundi lagadeildar þann 19. febrúar 2004 og lýsir á afar átakanlegan hátt því ástandi sem er í deildinni. Sama má segja um þau orð sem ég vitnaði til í grein Önnu Agnarsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu 24. mars 2003. Þar er afar dapurleg lýsing þessa fyrrverandi deildarforseta heimspekideildar á ástandinu í heimspekideild. Og af því að ég átti inni eina yfirlýsingu í viðbót sem ég las ekki í fyrri ræðu minni langar mig til að leyfa hæstv. menntamálaráðherra og öðrum hv. þingmönnum sem hér eru að heyra hvernig deildarforseti raunvísindadeildar Háskóla Íslands, Hörður Filippusson, lýsir ástandinu í sinni deild þann 20. mars árið 2003 í bréfi sem hann afhenti þingmönnum sem áttu fund með háskólafólki vegna fjárhagsvanda háskólans.

Í yfirlýsingu deildarforseta raunvísindadeildar segir, með leyfi forseta:

„Deildarfundur í raunvísindadeild Háskóla Íslands, haldinn 19. mars 2003, bendir á að fjárveitingar til deildarinnar eru orðnar svo lágar að ekki er lengur unnt að halda uppi kennslu í greinum deildarinnar með viðunandi hætti og í samræmi við það sem gerist í sambærilegum deildum í nágrannalöndunum. Meginástæða þessarar erfiðu fjárhagsstöðu er að fjárveitingar til Háskóla Íslands hafa ekki tekið mið af þeim launakjörum sem fjármálaráðherra hefur samið um við Félag háskólakennara og sem kjaranefnd hefur ákveðið prófessorum. Fundurinn beinir þeirri eindregnu áskorun til stjórnvalda að fjárveitingar til háskólans verði hækkaðar þannig að unnt verði að halda uppi kennslu í samræmi við alþjóðlegar kröfur.“

Á þeim fundi sem ég vitnaði til var Hörður Filippusson spurður að því hvað deildin gerði ef hún fengi ekki aukafjárveitingarnar, sem ekkert útlit var fyrir. Honum varð að orði: Ja, það er þá bara sjálfhætt, það má þá allt eins leggja niður deildina.

Við höfum vitnað til þriggja deilda, raunvísindadeildar, heimspekideildar og lagadeildar við Háskóla Íslands sem hafa allar verið í mikilli úlfakreppu vegna fjárhagserfiðleika undanfarin ár og eina lausnin sem kemur frá hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórninni er þessi: Skráningargjöld eru hækkuð og einungis hluti þeirra fær að renna óskiptur til háskólanna. Það er enginn vilji, það er enginn metnaður hjá núverandi ríkisstjórn til að standa af alvöru vel á bak við opinberu háskólana, það er bara þannig. Það er ekki búið að leiðrétta launastikuna, fjárveitingar hafa ekki haldið í við fjölgun nemenda og deildirnar eru að deyja innan frá eins og kemur í ljós í þeim yfirlýsingum sem hafa verið lesnar upp.

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir að hækka eigi skráningargjöldin um 40%. Þar með hafa skrásetningargjöld í háskólunum hækkað um 80% síðan árið 2000. Þetta er auðvitað út úr öllu korti, þetta er ekki innan neinna eðlilegra marka þegar verðlagsvísitalan er skoðuð. Ég verð að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvernig hún rökstyður hækkunina.

Árið 1991 eru gjöldin 7.700 kr., 1995 eru þau 24.000 kr., 1999 32.500 kr., 2005 eiga þau að verða 45.000 kr. Þetta er ekki eðlileg verðlagshækkun, það er alveg ljóst.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum segja þetta: Mér er mjög þungt að vera við umræðuna sem ég skynja að stjórnarandstöðuþingmenn hafa ekki nein áhrif á. Greinilegt er að stjórnarflokkarnir ætla að lemja þetta í gegn með meirihlutavaldi sínu. Mér finnst stúdentum sýnd mikil óvirðing með málinu hvernig allt er í pottinn búið og hinum opinberu háskólum virkilega sýnd ákveðin lítilsvirðing frá þeim aðilum sem ættu að standa vörð um hagsmuni þessara miklu mennta- og menningarstofnana.