Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 21:22:02 (3545)


131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:22]

Frsm. 2. minni hluta (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum að nálgast lokin á umræðu um tekjuskattsfrumvarp ríkisstjórnarinnar og höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði gert rækilega grein fyrir stefnu okkar og afstöðu til þess frumvarps sem hér liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar. Í sjálfu sér er ekki ástæða til að orðlengja þetta miklu lengur en ég ætla að draga í örfáum orðum saman kjarnann í afstöðu okkar.

Á 20. öldinni byggðu Íslendingar upp mjög kröftugt og öflugt samfélag, samfélag sem frá öndverðri öldinni var í nær stöðugri sókn. Þetta var gert með samvinnu og samhjálp þar sem félagslegar hreyfingar komu mjög við sögu, verkalýðshreyfing, samvinnuhreyfing og að sjálfsögðu sveitarfélög og ríki. En í þessu þjóðfélagi var jafnan mikið og umtalsvert svigrúm fyrir einstaklingsframtakið, eins og það er kallað. Hvar markalínan eigi að liggja á milli samfélagsreksturs annars vegar og einkareksturs hins vegar er sívakandi pólitískt álitamál. Þó hefur lengst af verið sátt um það að grunnþjónustan í samfélaginu skuli vera á hendi opinberra aðila, skólar, sjúkrahús, aðstoð við fatlað fólk, vega- og samgöngukerfi. Menn hafa verið almennt á því máli og um það hefur ríkt víðtæk sátt í samfélaginu að þetta skuli vera rekið á samfélagslegum forsendum. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að það er hagkvæmara og ódýrara. Við höfum sýnt fram á að samfélagsrekstur sem ekki starfar í samkeppnisumhverfi er ódýrari þegar hann er rekinn á vegum samfélagsins en þegar það gerist á vegum einkaaðila. Við getum tekið um þetta fjölmörg dæmi og Ríkisendurskoðun styður málflutning okkar að þessu leyti.

Ef við tökum hins vegar samfélagsþjónustuna og vörpum henni yfir í samkeppnisumhverfið er slík þjónusta ósanngjarnari vegna þess að hún býður upp á misrétti. Slík þjónusta er rekin með þjónustugjöldum og þegar fólk þarf að kaupa sér aðhlynningu vegna sjúkdóma eða menntun handa börnum sínum er því mismunað í samræmi við þær tekjur sem heimilin hafa. Slíkt samfélag misréttis þekkjum við og höfum fyrir augunum vestan hafs, í Bandaríkjunum. Í allra síðustu tíð hefur íslenskt samfélag verið að færast í þessa áttina.

Ég hef kynnst því og þekki nokkuð vel í gegnum starf mitt í verkalýðshreyfingunni hvað er að gerast inni í þessum samfélagsstofnunum. Ég þekkti það mjög vel og kynntist því og fylgdist mjög vel með því þegar starfsfólk á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi var að berjast gegn aðgerðum, aðhaldsaðgerðum sem svo eru nefndar þar sem skorinn var niður reksturinn, fólki sagt upp störfum og þrengt að þjónustunni.

Ég þekki það líka sem þjóðfélagsþegn og við gerum það eflaust öll sem höfum sjálf eða eigum ættingja eða vini sem hafa þurft að sækja til samfélagsþjónustunnar hvað það þýðir þegar þar er skorið niður. Hér rétt ofar í brekkunni er sjúkrahús þar sem öldruðum er sinnt. Gera menn sér grein fyrir því að á sumum deildum þar er fólkið sent heim um helgar? Hvers vegna skyldi það vera gert? Það er vegna þess að þar er fjárskortur. Það er ekki hægt að hafa deildina fullmannaða um helgar vegna þess að það skortir fé. Þess vegna er aldraða fólkið sent heim til sín, ekki vegna að sjúkrahúsið æski þess, nei, síður en svo, heldur vegna þess að það skortir fjármuni. Og þegar hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði í dag um Vinstri hreyfinguna – grænt framboð að við vildum taka peninga úr vasa eins manns og færa þá yfir í vasa annars er það rétt. Við viljum taka peninga úr vasa okkar, (Gripið fram í: Alla?) okkar sem erum heilbrigð (Gripið fram í: Alla peningana?) og færa þá yfir í vasa þeirra og til aðstoðar þeim sem á þeim þurfa að halda, sem eru sjúkir eða eiga á einhvern hátt undir högg að sækja. Þannig hefur íslenskt samfélag hugsað, og hugsað á 20. öld, ekki bara á vinstri væng stjórnmálanna, ekki bara hjá þeim sem kenndir hafa verið við félagshyggju, heldur hugsaði Sjálfstæðisflokkurinn þegar hann var upp á sitt besta einnig á þessa lund. Þar voru nefnilega oft félagsleg sjónarmið í heiðri höfð. Það er staðreynd. (Gripið fram í: … Framsóknarflokkurinn stofnaður.)

Nú er hins vegar að verða breyting á viðhorfum og ég verð að segja að mér fannst áhyggjuefni að hlusta á umræðuna í morgun, m.a. um skattafrumvarpið, og ekki síður við atkvæðagreiðsluna þar sem hver frjálshyggjumaðurinn á fætur öðrum úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki — ég sá engan mun á viðhorfum manna úr þessum tveimur flokkum — kom upp og lýsti yfir fögnuði og gleði vegna þess að verið væri að taka fjármuni úr krumlu ríkisins og færa þá til fólksins. Og til hvaða fólks var verið að færa þessa fjármuni? Til þeirra í samfélaginu sem búa við best efnin (Gripið fram í: Launafólksins?) á kostnað hinna sem þurfa á þessum fjármunum og stuðningi að halda inni á sjúkrastofnunum, inni á stofnunum fyrir fatlað fólk og annarra sem á aðstoð samfélagsins þurfa að halda.

Þetta er pólitíkin sem við erum að takast á um og birtist í þessu frumvarpi. Hér er afstaða og stefna Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs skýr. Við viljum fjármagna öflugt samhjálparkerfi í gegnum skatta og við höfnum stefnu ríkisstjórnarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem vilja feta sig yfir á aðrar hægri brautir.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta núna en ég spyr hvort þeir séu ekki fleiri en ég sem nú eru hugsi yfir því sem er að gerast í íslensku samfélagi vegna þess að mér finnst þetta alvarleg tíðindi. Á sínum var talað um hægri bylgju í samfélaginu. Þá gerðist það að allir flokkar nánast og flestar stofnanir samfélagsins fóru að hugsa á nýjum brautum og mér finnst það áhyggjuefni hve margir í þessum sal eru farnir að hugsa samkvæmt forskrift peningafrjálshyggjunnar. Það á svo sannarlega við þá ríkisstjórn sem stýrir okkar landi nú um stundir.