Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 22:09:22 (3557)


131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:09]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Samfylkingin hefur lagt megináherslu á að það svigrúm sem nú er til skattalækkunar nýtist fyrst og fremst fólki í lágtekju- og meðaltekjuhópunum meðan stjórnarflokkarnir færa mest af skattalækkunum til þeirra sem mest hafa fyrir. Skattatillögur stjórnarflokkanna og okkar jafnaðarmanna sýna að fólk hefur skýrt val milli skattstefnu tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna í landinu.

Það er andstætt stefnu jafnaðarmanna og hrópandi óréttlæti að lágtekjufólk með 150 þús. kr. í tekjur á mánuði fái 8 þús. kr. í skattalækkun á mánuði á árinu 2007, á sama tíma og topparnir með ofurkjörin fá í sinn hlut 186 þús. kr. á mánuði, þ.e. 2,2 millj. á ári í skattalækkun, þ.e. sem samsvarar tvöföldum árslaunum lægst launaða fólksins. (Gripið fram í.) En það er einmitt það sem hæstv. fjármálaráðherra er nú að gera, (Forseti hringir.) að færa ofurforstjórunum tvöföld árslaun lágtekjufólksins í skattalækkun og sem gerir hv. þm. Pétur H. Blöndal svona hamingjusaman. Það er ekki skrýtið þó að ráðherrabekkurinn sé órólegur yfir þessum tölum og ég segi við ráðherrana: Hafi þeir skömm fyrir að nýta þetta svigrúm til skattalækkana til að auka misskiptinguna í þjóðfélaginu. Nóg var nú samt. (Gripið fram í: Heyr.)