Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 22:10:59 (3558)


131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[22:10]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það sem hér á að fara að afgreiða í skattamálum er tær og ómenguð hægri stefna. Það er skiljanlegt að hv. þm. Pétur Blöndal, einn helsti talsmaður peningafrjálshyggjusjónarmiðanna í Sjálfstæðisflokknum, og aðrir últra hægri menn í þeim flokki séu glaðir. Það er fullkomlega eðlilegt og það er út af fyrir sig hægt að óska þeim til hamingju með það (Gripið fram í.) að fá sína stefnu svo tæra og ómengaða í gegn að þeir trúa varla eigin augum, eins og hv. þm. Pétur Blöndal. Hann þarf að láta segja sér þrisvar eins og Njáll forðum að eignarskatturinn sé bara að hverfa, líka af stóreignamönnunum og fyrirtækjunum og það gerir hann enn hamingjusamari. (Gripið fram í.)

Það er líka táknrænt, gleði hv. þm. Péturs H. Blöndals er táknræn sett í samhengi við örlög Framsóknarflokksins eða Litla íhaldsins eins og hann hefur verið skírður á þessum degi. Og þá er erfiðara að gera upp við sig hvort maður á að óska til hamingju eða votta samúð. Það er algerlega kristaltært að hér er á ferðinni hrein ómenguð hægri nýfrjálshyggjustefna í skattamálum. Þeir fá mest út úr þessu sem hæstar hafa tekjurnar og mestar eiga eignirnar. Það er staðreynd. 25–30 milljarðar kr. verða horfnir út úr ríkissjóði á árinu 2007. Þeir fjármunir verða ekki til skiptanna til að standa undir velferðarútgjöldum í landinu, í landi þar sem ástandið er nú þegar þannig að deildum er lokað á stærstu sjúkrahúsum og fólk sent heim fárveikt um helgar hvort sem einhver er þar til að taka á móti því eða ekki.

Sveitarfélögin með hæstv. félagsmálaráðherra yfir sér sem virðist algerlega rænulaus um stöðu þeirra liggja fullkomlega óbætt hjá garði. Af þessum skattkerfisbreytingum einum saman leiðir 400 millj. kr. tekjutap hjá þeim ofan á það sem fyrir er, í viðbót upp á hallarekstur upp á marga milljarða kr. Það er efnahagslegt glapræði um þessar mundir að fara út í þessar skattalækkanir. Ruðningsáhrif stóriðjuframkvæmdanna og skattalækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar eru að ganga af útflutningsgreinunum dauðum. Þar koma menn fram dag frá degi og bera sig upp, grátkórinn gamli í sjávarútveginum er vaknaður til lífsins í fyrsta skipti í 10 ár.

Hæstv. fjármálaráðherra Geir H. Haarde reynir að bera sig vel þótt hann hafi að vísu nöldrað yfir því að kraftaverkið hafi verið þagað í hel. Ég er hins vegar ekki eins viss um að það verði eins gaman að vera fjármálaráðherra á Íslandi árið 2007 og það er hreint ábyrgðarleysi sem þessi ríkisstjórn ástundar í þessum efnum, hreint ábyrgðarleysi.