Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 26. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 26  —  26. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Magnús Þór Hafsteinsson,


Sigurjón Þórðarson, Gunnar Örlygsson.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa fulltrúa allra þingflokka, er sæti eiga á Alþingi, í nefnd sem endurskoði kjördæmaskipan og tilhögun kosninga til Alþingis. Nefndin hafi að markmiði að jafna atkvæðisrétt landsmanna þar sem landið verði allt eitt kjördæmi. Þá fái nefndin það hlutverk að leggja til fyrirkomulag þar sem ráðherrar víki þingsæti fyrir varamönnum sínum og hvaða skyldum ráðherrar gegna þá varðandi störf þingsins.

Greinargerð.


    Áður fyrr þótti mönnum sem rök lægju til þess að fólk í strjálum byggðum ætti meira afl í atkvæði sínu en þéttbýlisfólk og þó einkum íbúar höfuðborgarinnar. Þetta reyndust falsrök ein, enda verður í engu séð að misvægi atkvæða hafi nokkurs manns hagsmuni varið né heldur byggðarlaga. Þvert á móti, þar sem fulltrúar þéttbýlisins hafa hrifsað til sín að kalla allt framkvæmdarvaldið með beinni vísan til þess að með því móti væri verið að jafna völd og áhrif á móti atkvæðisréttinum sem taldist landsbyggðinni mjög hagstæður.
    Árið 2000 var samþykkt á Alþingi Íslendinga tillaga um að misvægi atkvæða skyldi vera allt að einn á móti tveimur. Atkvæðisrétturinn, helgur undirstöðuréttur þegna í lýðræðisríki, var þar með áfram misjafn sem uppfyllir ekki jafnræðisreglu. Og örþjóðinni, sem er ekki fjölmennari en meðalborg í nágrannalöndunum, var skipt upp í kjördæmi, með það eitt að leiðarljósi að innan þeirra byggi sem jafnastur fjöldi fólks. Það leiddi til þess að höfuðborgarsvæðinu þurfti að skipta þvers og kruss og hagræða kjördæmamörkum þar eftir stærð fjölbýlishúsa og fjölda íbúa þeirra. Það má líka heita með ólíkindum ákvæðið sem kveður svo á að skilyrði til að fá úthlutað jöfnunarþingsæti sé að framboð fái á landsvísu 5% atkvæða, eða um 9.160 atkvæði miðað við alþingiskosningarnar 2003, og enda þótt slíkt framboð hafi fengið kjördæmakjörinn mann. Samkvæmt þingsköpum Alþingis teljast tveir þingmenn þingflokkur og eðlilegt væri að nái flokkur tveimur mönnum, þ.e. fái u.þ.b. 5.500 gild atkvæði eða meira, þá fáist uppbótarþingmenn. Það er misræmi í því að 5.500 kjósendum sé meinað að fá kjörinn þingmann þegar besta nýting atkvæða á bak við þingmann er aðeins 2.707 atkvæði, en meðaltalið á bak við alla þingmenn nú er 2907,5 atkvæði.
    Frjálslyndi flokkurinn telur brýnt að landið verði allt eitt kjördæmi og hinn dýrmæti lýðræðislegi frumburðarréttur einstaklinganna, atkvæðisrétturinn, verði þar með jafn og óskertur. Þar með bæru allir þingmenn jafna ábyrgð gagnvart kjósendum hvar sem búseta þeirra væri. Enginn þingmaður gæti því vísað frá sér málum vegna þess að þingmenn úr viðkomandi kjördæmi ættu að gæta hagsmuna annarra landsvæða og íbúa.
    Það er augljóst mál að ekki verður búið við hina nýju kjördæmaskipan. Þess vegna er rétt að breyta sem fyrst skipan þessa undirstöðumáls lýðræðisins og sleppa sem fyrst frá núgildandi millistigi með þrjú mjög stór landsbyggðarkjördæmi og uppskipta höfuðborg.
    Frjálslyndi flokkurinn átti enga aðild að samþykkt tillögunnar árið 2000 þar sem landinu var skipt upp í sex kjördæmi og lagði fyrst á 126. löggjafarþingi fram tillögu um breytta kosningaskipan, líkt og nú er gert.
    Frjálslyndi flokkurinn hefur áður lagt til að tekin verði upp ákvæði um að taki þingmaður sæti ráðherra víki hann úr þingsæti fyrir varamanni sínum. Það gerði þingflokkurinn í þingsályktunartillögu um kosningar til Alþingis sem flutt var á 126. og 127. löggjafarþingi. Með því móti væri dregin skýrari lína milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds en nú er. Áhrif ráðherra hafa farið vaxandi á kostnað löggjafarvaldsins.


Fylgiskjal.


Úrslit alþingiskosninganna 10. maí 2003.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Atkvæði alls 17,73% 33,68% 7,38% 0,98% 30,95% 0,46% 8,81% 98,80% 1,01% 0,19% 100,00%


Úthlutun jöfnunarsæta samkvæmt 108. gr. 13. hluti

Úthlutunarröð jöfnunarsæta

Landstala við úthlutun Hæsta
hlutfalls-
tala
Bókstafur
samtaka sem hlýtur
úthlutun
Kjördæmi þar sem úthlutað er
1. sæti 4.507,7 7,12% F Norðvesturkjördæmi
2. sæti 3.380,8 6,75% F Suðvesturkjördæmi
3. sæti 3.225,8 7,06% U Norðausturkjördæmi
4. sæti 3.085,1 8,88% D Reykjavíkurkjördæmi norður
5. sæti 2.984,2 8,33% S Reykjavíkurkjördæmi suður
6. sæti 2.938,1 7,68% D Suðvesturkjördæmi
7. sæti 2.835,0 7,42% S Suðurkjördæmi
8. sæti 2.804,6 7,61% D Reykjavíkurkjördæmi suður
9. sæti 2.707,0 5,81% B Reykjavíkurkjördæmi norður


Úthlutuð jöfnunarsæti B D F N S T U Alls
Norðvesturkjördæmi 1 1
Norðausturkjördæmi 1 1
Suðurkjördæmi 1 1
Suðvesturkjördæmi 1 1 2
Reykjavíkurkjördæmi suður 1 1 2
Reykjavíkurkjördæmi norður 1 1 2
Heildartala jöfnunarsæta 1 3 2 2 1 9