Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 72. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 72  —  72. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Flm.: Ágúst Ólafur Ágústsson, Össur Skarphéðinsson, Bryndís Hlöðversdóttir,


Margrét Frímannsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristján L. Möller,
Guðrún Ögmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Björgvin G. Sigurðsson, Katrín Júlíusdóttir, Jón Gunnarsson,
Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir.


1. gr.

    Við 81. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. fyrnist sök vegna brota samkvæmt ákvæðum 194.–202. gr. ekki þegar brot er framið gagnvart barni undir 14 ára aldri.

2. gr.

    Síðari málsliður 1. mgr. 82. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Þetta lagafrumvarp var lagt fram á síðasta þingi, 130. löggjafarþingi á þskj. 794 í 520. máli, en fékk ekki afgreiðslu í allsherjarnefnd. Frumvarpið var sent út til umsagnar og fékk vægast sagt góðar undirtektir.
    Umboðsmaður barna lýsti yfir stuðningi við frumvarpið í umsögn sinni 30. mars 2004. Umboðsmaður barna hefur lengi hvatt Alþingi til að afnema fyrningarfresti vegna kynferðisafbrota gegn börnum en sú hvatning kom fyrst fram í skýrslu hans 1997. Með þessu frumvarpi er farið eftir tilmælum umboðsmanns barna. Barnaverndastofa styður frumvarpið eindregið og Barnaverndarnefnd Reykjavíkur fagnar frumvarpinu og telur nauðsynlegt að afnema fyrningarfresti vegna kynferðisafbrota gegn börnum. Stjórn Barnaheilla fagnar sömuleiðis frumvarpinu í sinni umsögn. Samtök um kvennaathvarf hvöttu til að frumvarpið yrði samþykkt og telur Femínistafélag Íslands einnig að afnema eigi þessa fyrningarfresti. Mannréttindaskrifstofa Íslands telur í umsögn sinni að sterkar röksemdir séu fyrir samþykkt þessa frumvarps.
    Átakshópurinn Blátt áfram er verkefni unnið í samvinnu við Ungmennafélag Íslands og felst í að efla forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum á Íslandi. Á heimasíðu þessa hóps, www.blattafram.is, er fólk hvatt til að senda ráðherrum bréf með áskorun um að þeir samþykki frumvarpið.
    Leiðarahöfundur Morgunblaðsins skrifaði 7. febrúar sl. að frumvarpið væri ,,því án efa mikilvægt skref í þá átt að koma lögum yfir sem flesta þeirra sem gerst hafa sekir um jafn alvarlegan og afdrifaríkan glæp og að beita börn kynferðisofbeldi.“ Þar var einnig sagt að,,fyrningarfrestir, eins og þeim er nú háttað, eru iðulega of skammir fyrir þennan viðkvæma hóp brotaþola, sem oft áttar sig ekki á brotinu eða treystir sér til að kæra það fyrr en langt er um liðið. Dómar þar sem einstaklingar hafa verið sýknaðir fyrir kynferðisafbrot gegn börnum, þrátt fyrir að sekt þeirra hafi verið sönnuð, eru staðfesting á því.“

Sérstaða kynferðisafbrota gegn börnum.
    
Kynferðisafbrot gegn börnum eru í eðli sínu ólík öðrum ofbeldisbrotum og er nauðsynlegt að viðurkenna þá sérstöðu þessara brota. Sakir sérstöðu slíkra brota vilja flutningsmenn afnema fyrningarfrest brota í 194. –202. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, sem framin eru gegn einstaklingum yngri en 14 ára.
    Aðstöðumunur geranda og þolanda er eðli máls samkvæmt gríðarlegur. Brotaþoli er ekki í aðstöðu til að skynja að um lögbrot sé að ræða né þekkir hann leiðir til að losna undan oki gerandans. Þolandinn áttar sig e.t.v. ekki fyrr en mörgum árum síðar á að brotið hafi verið gegn honum eða bælir minninguna um ofbeldið í langan tíma og telur sig jafnvel sjálfan bera sök. Þess vegna geta liðið mörg ár og jafnvel áratugir þar til kæra er lögð fram í slíkum málum. Gerandi á ekki að hagnast á þeim mikla aðstöðumun sem er á honum og brotaþola.
Oft koma þessi brot ekki fram í dagsljósið fyrr en mörgum árum eftir að þau voru framin og jafnvel ekki fyrr en brotaþolarnir hafa náð fullorðinsaldri. Þetta á ekki síst við þegar brotamaður er í fjölskyldutengslum við brotaþola.
    Samkvæmt ársskýrslu Stígamóta fyrir árið 2003 líður oft mjög langur tími frá því að brot gegn barni er framið þar til brotaþolinn er reiðubúinn að ræða málið og leita sér aðstoðar. Um 49% þeirra sem leituðu til Stígamóta höfðu orðið fyrir kynferðisbroti á aldrinum 0–10 ára en tæplega 70% á aldrinum 0–15 ára. Sé hins vegar litið á hvenær fólk leitar sér aðstoðar hjá Stígamótum kemur í ljós að rúmlega 40% eru 30 ára eða eldri. Samkvæmt núverandi fyrningarreglum eru öll kynferðisafbrot gegn barni sem er 14 ára eða yngra fyrnd þegar viðkomandi fórnarlamb hefur náð 29 ára aldri.
    Önnur 40% þeirra sem leita til Stígamóta eru á aldursbilinu 19–29 ára en sé um kynferðisbrot gegn barni að ræða eru sum slík brot fyrnd þar sem fyrningarfrestir vegna þeirra eru frá 5 árum til 15 ára og byrjar fresturinn að líða á 14 ára afmæli brotaþolans. Ljóst er því að fyrningarfrestir eru í of skammir fyrir stóran hóp brotaþola. Dómar þar sem menn hafa verið sýknaðir fyrir kynferðisbrot gegn börnum, jafnvel þótt sekt hafi verið sönnuð, staðfesta þetta.
    Samkvæmt ársskýrslu Stígamóta bárust einungis 8% af þeim málum sem komu til kasta Stígamóta til opinberra aðila. Í skýrslunni er tekið fram að gildandi fyrningarreglur eru ein af ástæðunum fyrir því að svo fá mál komast til umfjöllunar opinberra aðila.
    Rétt er að miða við 14 ára aldur í ljósi þeirrar staðreyndar að skv. 202. gr. almennra hegningarlaga eru lögleg aldursmörk samræðis og annarra kynferðismaka miðuð við 14 ára aldur. Þær röksemdir sem eru að baki sérstöðu þessara brotaþola eiga sömuleiðis fyrst og fremst við einstaklinga undir 14 ára aldri fremur en brotaþola á aldursbilinu 14–18 ára. Þolendur á aldrinum 14–18 ára eru í mun betri aðstöðu til að skilja að um brot sé að ræða og jafnframt líklegri til að þekkja þau úrræði sem þolendum kynferðisbrota bjóðast en brotaþoli sem er yngri en 14 ára. Brotaþolar á aldrinum 14–18 ára njóta því áfram sömu fyrningarfresta og fullorðnir verði frumvarpið samþykkt óbreytt.

Núgildandi fyrningarfrestir.
    Í núverandi refsilöggjöf fer lengd fyrningarfrests eftir lengd hámarksrefsingar sem lögð er við viðkomandi broti. Aðeins þeir glæpir þar sem hámarksrefsing er ævilangt fangelsi fyrnast aldrei skv. IX. kafla almennra hegningarlaga. Þetta eru landráð skv. 86. gr. og 87. gr. laganna, brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess skv. 98. gr. og 100. gr., hryðjuverk skv. 100. gr. a, manndráp skv. 211. gr., mannrán skv. 226. gr. og ítrekuð rán skv. 255. gr.
    Samkvæmt 81. gr. almennra hegningarlaga fyrnist sök á 2 árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 1 árs fangelsi eða refsing sú, sem til er unnið, fer ekki fram úr sektum. Sök fyrnist á 5 árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 4 ára fangelsi. Þetta á t.d. við um 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga um kynferðislega áreitni gagnvart barni sínu eða öðrum niðja undir 16 ára aldri. Sama má segja um kynferðislega áreitni manns skv. 2. mgr. 201. gr. við barn eða ungmenni sem er kjörbarn hans, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða ungmenni sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis og er undir 16 ára aldri.
    Fimm ára fyrningarfrestur á einnig við um kynferðislega áreitni við barn undir 14 ára aldri, sbr. 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, og þegar blekkingum, gjöfum og öðru slíku er beitt til að tæla barn yngra en 18 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka, sbr. 3. mgr. 202. gr. laganna. Sé barni undir 18 aldri greitt endurgjald fyrir samræði eða önnur kynferðismök skv. 4. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga er einnig 5 ára fyrningarfrestur.
    Sök fyrnist á 10 árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 10 ára fangelsi. Þessi fyrningarfrestur á t.d. við það sem fram kemur í 1. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga um samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða annan niðja sem kominn er yfir 16 ára aldur. Samkvæmt því sem fram kemur í 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga er sami fyrningarfrestur við samræði eða önnur kynferðismök við barn eða ungmenni sem er kjörbarn hans, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða ungmenni sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis og er á aldursbilinu 16–18 ára.
    Að lokum fyrnist sök á 15 árum þegar þyngsta refsing við broti er meira en 10 ára tímabundið fangelsi. Þetta er lengsti tímabundni fyrningarfresturinn og á hann t.d. við það sem tilgreint er í 1. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga um samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða annan niðja undir 16 ára aldri. Sama má segja um samræði eða önnur kynferðismök manns, samkvæmt því sem tilgreint er í 1. mgr. 201. gr. laganna, við barn eða ungmenni, sem er kjörbarn manns, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða ungmenni, sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis, og er undir 16 ára aldri. Þessi fyrningarfrestur á einnig við nauðgun skv. 194. gr. almennra hegningarlaga og við samræði og önnur kynferðismök við barn yngra en 14 ára skv. 1. mgr. 202. gr. laganna. Í stuttu máli sagt fyrnast kynferðisafbrot gegn börnum frá 5 árum til 15 ára og fer lengd fyrningarfrestsins eftir alvarleika brotsins.
    Í núgildandi ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga segir að fyrningarfrestur vegna brota samkvæmt ákvæðum 194.–202. gr. teljist ekki fyrr en frá þeim degi er brotaþoli nær 14 ára aldri. Fyrningarfrestur telst því frá þeim degi er refsiverðum verknaði lauk nema brotaþoli hafi ekki náð 14 ára aldri en þá telst fresturinn frá þeim degi er brotaþoli nær þeim aldri.
    Þetta ákvæði var lögfest árið 1998 í kjölfar tillögu þingmanna jafnaðarmanna um að fyrningarfrestur brota á 200., 201. og 202. gr. laganna hæfist ekki fyrr en þolandi brots hefði náð sjálfræðisaldri. Þótt bót hafi verið með lögfestingu þessa ákvæðis telja flutningsmenn að dómar og tölfræði um aldur brotaþola þegar hann sækir sér hjálp sýna að ekki er nóg að gert. Því er lagt til í frumvarpi þessu að fyrning kynferðisbrota gegn börnum undir 14 ára aldri verði afnumin með öllu í ljósi sérstöðu þessara brota og hagsmuna barna á þessum aldri.
    Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að löggjafinn hefur nú þegar tekið þá pólitísku ákvörðun að hafa sum afbrot ófyrnanleg. Má þar nefna landráð skv. 86. gr. og 87. gr. laganna, brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess skv. 98. gr. og 100. gr., hryðjuverk skv. 100. gr. a, manndráp skv. 211. gr., mannrán skv. 226. gr. og ítrekuð rán skv. 255. gr.
    Í norrænum rétti hefur verið gengið út frá að brot geti verið ófyrnanleg þegar um er ræða alvarlegustu brotin samkvæmt refsimati löggjafans. Flutningsmenn telja að kynferðisafbrot gegn börnum eigi heima í þessum flokki alvarlegustu afbrota hvað varðar fyrningu.

Réttarstaða barna verði tryggð.
    Hugtakið fyrning í refsirétti felur í sér að réttur ríkisvaldsins til að koma fram refsingu eða öðrum viðurlögum fellur niður að ákveðnum tíma liðnum. Fyrning getur verið af tvennum toga, fyrning sakar annars vegar og hins vegar fyrning refsingar. Til eru margs konar röksemdir fyrir reglum um fyrningu, svo sem hagkvæmnis- og sanngirnisrök, auk þess sem það liggur í hlutarins eðli að erfiðara verður að sanna brot eftir því sem lengri tími líður frá framningu þess.
    Það getur hins vegar ekki talist vera sjálfstæð röksemd gegn afnámi fyrningarfrests vegna kynferðisafbrota gegn börnum undir 14 ára aldri að erfiðara verður að sanna brotið eftir sem lengri tími líður. Sönnun í slíkum málum hefur hingað til verið erfið og verður erfið þrátt fyrir afnám fyrningarfrests. Sönnunarbyrðin verður eftir sem áður á ábyrgð hins opinbera ákæruvalds, sbr. 45. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, sem metur hvort það sem fram er komið sé nægilegt eða líklegt til sakfellis, sbr. 112. gr. sömu laga. Hins vegar má telja að sú vitneskja um að sönnun verði erfiðari eftir sem lengri tími líður hvetji brotaþola til leita úrræða sem fyrst en dragi það ekki í óþarflega langan tíma.
    Jafnframt verður það að teljast hæpin röksemd gegn afnámi fyrningarfrests að slíkir frestir virki sem aðhald fyrir rannsóknaraðila og ákæruvald um hröð vinnubrögð. Brotaþoli undir 14 ára aldri á ekki að líða fyrir slíkt markmið fyrningarreglna. Sömuleiðis er nú þegar lagalegur áskilnaður um málshraða á rannsóknaraðilum og ákæruvaldinu.
    Flutningsmenn telja að sérstaða kynferðisbrota gegn börnum undir 14 ára aldri og hagsmunir þeirra vegi þyngra en þau hagkvæmnis- og sanngirnisrök sem búa að baki reglum um fyrningarfrest. Flutningsmenn álíta að rangt sé að kynferðisbrot gegn börnum geti fyrnst. Vegna eðlis og sérstöðu þessara brota verður að telja að með fyrningarfresti á slíkum brotum sé börnum ekki tryggð nægjanleg réttarvernd og réttlæti samkvæmt lögum.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Ákvæðið miðast að því að fyrningarfrestir vegna kynferðisafbrota gegn börnum undir 14 ára aldri samkvæmt ákvæðum 194.–202. gr. almennra hegningarlaga verði afnumdir með öllu með vísan í sérstöðu þessara brota og hagsmuna barna á þessum aldri.

Um 2. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga er svohljóðandi: „Fyrningarfrestur vegna brota samkvæmt ákvæðum 194.–202. gr. telst þó eigi fyrr en frá þeim degi er brotaþoli nær 14 ára aldri.“ Með afnámi fyrningarfrests vegna brota samkvæmt ákvæðum 194.–202. gr. sem eru framin gagnvart brotaþola undir 14 ára aldri verður þessi málsliður óþarfur.

Um 3. gr.

    Gert er ráð fyrir að lögin taki þegar gildi. Rétt er að taka fram að ákvæði frumvarpsins geta einungis átt við þau brot sem eru framin eftir gildistöku þessara lagabreytinga og er það í samræmi við ákvæði 2. gr. almennra hegningarlaga um bann við afturvirkni refsilöggjafar og 69. gr. stjórnarskrárinnar.