Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 76. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 380  —  76. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2004.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.



Aukin útgjöld.
    Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2004 er lagt til að útgjöld ríkissjóðs verði aukin um 6,3 milljarða kr. Nú við 2. umræðu koma enn fram tillögur frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar um að auka útgjöldin, nú um 2,9 milljarða kr. Með samþykkt fyrirliggjandi frumvarps og breytingartillagna við það aukast fjárheimildir ársins því um 9,3 milljarða kr. eða um 3,4% af fjárlögum. Þetta er talsvert lægra hlutfall en verið hefur undanfarin ár og er það vissulega til bóta en samt sem áður er hér óskað eftir auknum fjárveitingum til útgjalda sem annaðhvort vekja furðu eða ættu að vekja til umhugsunar. 1. minni hluti fjárlaganefndar ætlar ekki við þessa umræðu að meta hvort þetta frumvarp eða breytingartillögurnar við það séu í samræmi við lög um fjárreiður ríkisins en bendir á nefndarálit sitt um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2003 þar sem gerðar voru umtalsverðar athugasemdir varðandi viðhorf ríkisstjórnarmeirihlutans til þeirra laga. Við 1. umræðu um frumvarpið lýsti fjármálaráðherra því yfir að það væri enginn vafi á því að frumvarpið væri fyllilega í samræmi við lög um fjárreiður ríkisins. Það er því ekki að sjá að rökstuddar athugasemdir hafi áhrif á viðhorf framkvæmdarvaldsins og meðan meiri hluti þingsins lætur þau viðhorf yfir sig ganga er ekki líklegt að breyting verði á. Eflaust á eftir að bætast við þetta frumvarp áður en til 3. umræðu kemur og mun þá frumvarpið verða skoðað í heild sinni út frá lögum um fjárreiður ríkisins.
    Það vekur sérstaka athygli að efnahagsforsendur fjárlaga ársins 2004 eru algjörlega brostnar. Þannig er nú t.d. spáð að einkaneysla tvöfaldist frá fyrri spám og hið sama gildir um fjárfestingu og þjóðarútgjöld.


Helstu þjóðhagsstærðir, magnbreytingar, %
Fjárlög
2004
Áætluð niðurstaða
2004
Frávik
frá fjárlögum
Einkaneysla 3,50 7,00 3,50
Samneysla 1,00 1,50 0,50
Fjárfesting 8,50 17,25 8,75
Þjóðarútgjöld alls 4,00 8,00 4,00
Útflutningur vöru og þjónustu 4,50 6,00 1,50
Innflutningur vöru og þjónustu 5,75 12,75 7,00
Verg landsframleiðsla 3,50 5,50 2,00
Viðskiptajöfnuður – % af landsframleiðslu -3,25 -7,25 -4,00


    Þessu til viðbótar er reiknað með að atvinnuleysi verði um 3% af mannafla á árinu 2004 sem er hálfu prósenti hærra en reiknað var með. Sjaldan eða aldrei hafa forsendur fjárlaga beðið annað eins skipbrot og einu viðbrögð ríkisstjórnar eru skattalækkanir sem gagnast þeim einum sem mest hafa handa á milli. Sú fyrirætlan getur eins og margir hafa bent á virkað líkt og olía á eld miðað við þær efnahagsforsendur sem við búum nú við.

Auknar tekjur.
    Samkvæmt frumvarpinu og breytingartillögum við það er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 9,3 milljarðar kr. frá fjárlögum yfirstandandi árs. Annars vegar er gert ráð fyrir að skatttekjur ríkissjóðs aukist um 10,8 milljarðar kr. en rekstrartekjur lækki um 1,5 milljarða kr. Hækkun skatttekna má að stærstum hluta rekja til góðrar afkomu fyrirtækja á árinu 2003, aukins bifreiðainnflutnings og áhrifa aukinnar einkaneyslu á innheimtu virðisaukaskatts. Í lok september sl. námu innheimtar ríkissjóðstekjur 13,2 milljörðum kr. umfram áætlun fjárlaga. Samkvæmt því má ætla að tekjur ríkissjóðs séu vanáætlaðar eins og oft áður og verði meiri en gert er ráð fyrir.

Viðhald Alþingishúss.
    Í frumvarpinu er nú gert ráð fyrir viðbótarframlagi til viðhalds Alþingishúss að upphæð 60 millj. kr. Á fjárlögum voru veittar 75 millj. kr. og því er áætlað að kostnaður við endurbæturnar verði 135 millj. kr. sem er 80% hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir þegar fjárlög ársins voru samþykkt. Í greinargerð með frumvarpinu eru tíndar til ýmsar skýringar. Þar kemur m.a. fram að tilboð í verkið voru heldur hærri en kostnaðaráætlun og að einnig kom í ljós eftir að framkvæmdir hófust að magnaukning og aukaverk voru mun meiri en kostnaðarramminn gerði ráð fyrir. Vissulega hafði sumarþingið áhrif en einnig verður að gagnrýna áætlunargerð framkvæmdanna því að þetta er ekki í fyrsta skipti sem framkvæmdir Alþingis fara verulega fram úr áætlunum án þessa að viðhlítandi skýringar fáist. Ljóst er að bæta þarf mjög allan undirbúning framkvæmda hjá Alþingi og ekki síður eftirlit með þeim. Það er ólíðandi að sú stofnun sem á að vera fyrirmynd hvað varðar umgengni við fjárlög skuli koma við sögu á þennan hátt í frumvarpi til fjáraukalaga.

Framhaldsskólar.
    Frá því að frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2004 var lagt fram hafa fjárveitingar til fjárlagaliðarins „Framhaldsskólar, almennt“ verði auknar um rúman milljarð króna. Verið er að leysa úr brýnum fjárhagsvanda framhaldsskólanna sem hafa verið verulega aðþrengdir um árabil. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2004 var gert ráð fyrir að auka fjárheimildina um 250 millj. kr. vegna þess að nemandaspá benti til þess að fjöldi ársnema gæti orðið allt að 1.100 umfram forsendur fjárlaga og var miðað við að lækka meðalframlag á nemanda frá því sem gert hafði verið ráð fyrir. Engin skýring hefur fengist á því hvar eða hvernig hið nýja viðmið fannst. Nú, örfáum vikum, síðar óskar ríkisstjórnin eftir því að fjárheimildin verði enn aukin um 200 milljónir kr. vegna nemandafjölgunar. Hafa því fundist rúmlega 800 nemendur til viðbótar frá því að frumvarpið var lagt fram eða hefur verið horfið frá lækkun meðalframlaga á nemanda? Hver sem skýringin er segir hún ýmislegt um þau vinnubrögð sem viðhöfð eru og getur ekki aukið traust til þeirrar áætlunargerðar sem viðhöfð er. Með þessum breytingum er fullyrt að rekstur framhaldsskóla verði í jafnvægi árið 2004. Hins vegar kemur ekki fram hvort með þessu sé einnig verið að taka á uppsöfnuðum rekstrarhalla framhaldsskólanna eða hvort þessi aukning eigi aðeins að standa undir rekstri yfirstandandi árs. Að mati 1. minni hluta er nauðsynlegt að menntamálaráðuneytið upplýsi þetta og sendi fjárlaganefnd áætlaða stöðu einstakra skóla í árslok 2004 að teknu tilliti til þessara framlaga.
    Þá má benda á að Háskóli Íslands á við sama vandamál að stríða, þ.e. að í fjárlögum ársins er gert ráð fyrir að greitt sé fyrir 5.200 virka nemendur en skólaárið 2003–2004 voru virkir nemendur í Háskóla Íslands 5.697. Eðlilegt er að spyrja hvers vegna ekki sé tekið á vanda Háskólans með sama hætti og vanda framhaldsskólanna. Hvaða reglur gilda innan menntamálaráðuneytisins þegar kemur að skilgreiningu á vanda stofnana? Þessu til viðbótar er athyglisvert að niðurstöður vinnuhóps, sem menntamálaráðherra skipaði árið 2002 til að meta hvort þróun einingarverða í reiknilíkani háskólanna væri í samræmi við ákvæði samnings um kennslu, benda til að ef fullt tillit hefði verið tekið til launahækkana hefði fjárveiting til Háskóla Íslands þurft að vera um 300 millj. kr. hærri á árinu 2004 en gert er ráð fyrir. Væntanlega verður tekið á þessu vandamáli við gerð fjárlaga fyrir árið 2005.
    Enn á ný er bætt við kafla í söguna endalausu um embætti ríkislögreglustjóra. Þau eru fátíð fjáraukalögin þar sem ekki er minnst á embætti ríkislögreglustjóra. Nú á samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar að flytja sérsveitina frá lögreglunni í Reykjavík til ríkislögreglustjóra en á móti á að flytja tæknirannsóknir frá ríkislögreglustjóra til lögreglustjórans í Reykjavík. Sérsveitin á nú að vera stoðdeild undir forsjá ríkislögreglustjórans, hvað sem það nú þýðir. Það er nauðsynlegt að mati 1. minni hlutans að fljótlega ljúki að sinni skipulagsbreytingum í tengslum við embætti ríkislögreglustjóra þannig að meta megi gæði og kostnað við starfsemina.
    Athyglisvert er að auka þarf fjárveitingar til Atvinnuleysistryggingasjóðs um tæplega 1,7 milljarða kr. eða um 67%. Þrátt fyrir aukinn hagvöxt er atvinnuleysi meira en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir. Stóriðjuframkvæmdirnar hafa ekki skilað þeim störfum sem áætlað var og hefur vinnuaflsþörfinni að mestu verið mætt með erlendu vinnuafli. Hið aukna atvinnuleysi er alvarleg þróun og ber stjórnvöldum skylda til að kanna ástæður þess þannig að grípa megi til aðgerða til að draga úr því.

Lokaorð.
    Margt fleira í þessu frumvarpi væri ástæða til að gera athugasemdir við en það bíður 3. umræðu þegar heildarmynd er komin á frumvarpið. Margoft hefur verið á það bent að til þess að fjárlaganefnd hafi þá yfirsýn sem nauðsynleg er verður að tryggja að við afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga liggi fyrir áætluð fjárhagsstaða stofnana við lok árs. Þrátt fyrir ósk í fjárlaganefnd í byrjun október sl. um slíkt yfirlit hefur það ekki enn borist. Það vekur ugg að svo langan tíma taki að taka saman slíkt yfirlit sem ætti ef vinnubrögð væru í lagi að vera fylgiskjal með fjárlagafrumvarpi. Blekkingarleikur með fjárlög hefur einkennt þá ríkisstjórn sem nú situr og því miður hefur meiri hluti Alþingis ekki viljað efla eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Meðan svo er má búast við marklitlum fjárlögum í fallegum búningi.

Alþingi, 18. nóv. 2004.



Einar Már Sigurðarson,


frsm.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.


Helgi Hjörvar.



Jón Gunnarsson.