Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 362. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 415  —  362. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Í stað 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Almenn veiðileyfi eru tvenns konar, þ.e. veiðileyfi með aflamarki og veiðileyfi með krókaaflamarki. Veiðileyfi skulu gefin út til árs í senn og á sama fiskveiðiári er aðeins heimilt að veita fiskiskipi eina gerð veiðileyfis.

2. gr.

    Lokamálsliður 5. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    2. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða 7. gr. laganna:
     a.      1. tölul. 3. mgr. fellur brott og breytist röð annarra töluliða samkvæmt því.
     b.      Orðin „sbr. þó ákvæði 9. gr.“ í 1. málsl. 4. mgr. falla brott.

5. gr.

    Í stað orðanna „samkvæmt lögum um veiðieftirlitsgjald“ í 1. mgr. 10. gr., 1. og 2. mgr. 11. gr. a og 5. og 7. mgr. 12 gr. laganna kemur: sbr. 19. gr.

6. gr.

    Við 10. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Skipstjóra fiskiskips er heimilt að ákveða að hluti af afla skipsins reiknist ekki til aflamarks þess. Sá hluti sem þannig reiknast ekki til aflamarks skipsins skal þó aldrei nema meira en 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla sem hlutaðeigandi skip veiðir á hverju fiskveiðiári. Heimild þessi er háð eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Að aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn sérstaklega og skráður.     
     2.      Að aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til sjóðs, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum.
    Sé heimild í 9. mgr. nýtt skulu forráðamenn uppboðsmarkaðarins þar sem aflinn er seldur standa skil á andvirði hins selda afla að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skal útgerð skipsins fá 20% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      1. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað „3. og 4. mgr.“ í 2. mgr. kemur: 2. og 3. mgr.; og í stað „3. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 2. mgr.
     c.      Orðin „og sameina hana aflahlutdeild annars skips“ í 6. mgr. falla brott.

8. gr.

    Í stað orðanna „skv. 8. gr. laga nr. 81 31. maí 1976“ í 2. mgr. 17. gr. laganna kemur: 10. gr. laga nr. 79 26. maí 1997.

9. gr.

    Í stað orðanna „1. september“ í 1. mgr. 23. gr. laganna kemur: 15. september.

10. gr.

    Í stað orðanna „2005/2006“ í ákvæði til bráðabirgða XXXI í lögunum, sbr. b-lið 16. gr. laga nr. 85 15. maí 2002, kemur: 2009/2010.

11. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi. Jafnframt eru felld úr gildi ákvæði til bráðabirgða XXIX í lögunum, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 129 20. desember 2001, 1. gr. laga nr. 75 26. mars 2003 og 1. gr. laga nr. 149 20. desember 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er stefnt að því að gera nokkrar lagfæringar á lagatexta sem einkum má rekja til afnáms sóknardagakerfis. Lagfærðar eru nokkrar tilvísanir til laga sem ekki eru lengur í gildi. Þá er lagt til að heimild til að ákveða að hluti afla skuli ekki reiknast til aflamarks verði gerð varanleg og að tímabundin heimild til ráðherra um sérstaka ráðstöfun þorskeldiskvóta gildi til loka fiskveiðiársins 2009/2010.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.


    Í lokamálslið 5. gr. laganna segir: „Á sama fiskveiðiári er aðeins heimilt að veita fiskiskipi eina gerð leyfis til veiða í atvinnuskyni, þ.e. veiðileyfi með almennu aflamarki, veiðileyfi með krókaaflamarki eða leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum.“ Sú breyting hefur verið gerð á lögunum að leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum standa aðeins ákveðnum bátum til boða, sbr. 2. gr. laga nr. 74/2004. Er því nauðsynlegt að fella þann valkost úr lögunum. Þá þykir fara betur á því að þetta ákvæði sé í 4. gr og því er þessi breyting lögð til.

Um 3. gr.


    2. mgr. 6. gr. fjallar um viðmiðunarafla fyrir sóknardagabáta eins og hvernig skerða eigi sóknardagafjölda fari afli yfir þau viðmiðunarmörk. Ástæða þykir til að fella þetta ákvæði niður miðað við þær breytingar sem gerðar hafa verið. Önnur ákvæði þessarar greinar gilda um þá báta sem verða í sóknardagakerfinu á fiskveiðiárinu 2004/2005 og 2005/2006.

Um 4. gr.


    Sú breyting sem í a-lið felst er einnig tilkomin vegna afnáms sóknardagakerfisins. Sú tilvísum sem í b-lið er lagt til að felld verði niður er óþörf og raunar misvísandi miðað við þær breytingar sem gerðar hafa verið á 3. mgr. þessarar greinar.

Um 5. gr.


    Í upphafi yfirstandandi fiskveiðiárs féllu lög um veiðieftirlitsgjald úr gildi, en í þeim var ákvæði um hvernig ákvarða skyldi verðmætahlutfall milli einstakra fisktegunda í þorskígildum. Er nú kveðið á um hvernig skuli að þessu staðið í 19. gr. laganna og því er þessi breyting lögð til.

Um 6. gr.


    Hér er lagt til að ákvæði til bráðabirgða XXIX í lögum sem fjalla um heimild skipstjóra til að ákveða að hluti afla skuli ekki reiknast til aflamarks verði gerð varanleg. Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði til bráðabirgða fellur ákvæðið úr gildi í lok yfirstandandi fiskveiðiárs. Efnislega er ákvæðið að öðru leyti óbreytt.

Um 7. gr.


    Í a-lið er lagt til að 1. mgr. 11. gr. laganna verði felld úr gildi. Í fyrri málslið þessarar málsgreinar segir að sé rekstri skips hætt skuli úthluta nýju eða nýkeyptu skipi í eigu sama aðila aflahlutdeild hins eldra skips, enda sé um sambærilegt skip að ræða. Þetta ákvæði má rekja til þess þegar miklar takmarkanir voru á flutningi aflahlutdeildar og aðgangur að veiðileyfum var mjög takmarkaður. Í síðari málslið málsgreinarinnar er ákvæði um rétt útgerðar til að ráðstafa aflahlutdeild í tólf mánuði þegar skip ferst. Þetta ákvæði er með sama hætti óþarft.
    B-liður er tilkominn vegna þess að 1. mgr. greinarinnar er felld brott.
    Við flutning aflahlutdeildar er það ekki skilyrði að hún sé sameinuð aflahlutdeild annars skips og er því lagt til að þessi orð séu felld úr greininni.

Um 8. gr.


    Hér er tilvísun í eldri lög sem felld voru í gildi með lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og er lagt til að það sé leiðrétt.

Um 9. gr.


    Í gildandi ákvæði segir að fyrsti gjalddagi fyrir veiðigjald sé 1. september. Við framkvæmdina hefur komið í ljós að ekki er ávallt unnt að ganga frá endanlegri úthlutun til allra báta fyrir upphaf fiskveiðiárs, m.a. til báta þar sem flutningur aflahlutdeildar fer fram alveg í lok árs. Þykir af þeim sökum eðlilegra að hafa meira svigrúm og er því þessi breyting lögð til.

Um 10. gr.


    Með lögum nr. 85/2002 var ráðherra heimilað að ráðstafa aflaheimildum sem námu allt að 500 lestum af óslægðum þorski til tilrauna með áframeldi. Heimild þessi gildir til loka fiskveiðiársins 2005/2006. Ljóst er að miklar væntingar eru bundnar við eldi á sjávarfiski og því nauðsynlegt að styrkja frekari tilraunir á því sviði. Er því lagt til að heimild þessi verði framlengd til loka fiskveiðiársins 2009/2010 því með því móti yrði kleift að efla frekari tilraunir og marka því stefnu til lengri tíma.

Um 11. gr.


    Hér er lagt til að lögin öðlist þegar gildi og jafnframt að fellt verði úr gildi bráðbirgðaákvæði það sem leyst er af hólmi með 6. gr. frumvarpsins.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er stefnt að því að gera nokkrar lagfæringar á lagatexta sem einkum má rekja til afnáms sóknardagakerfis. Lagfærðar eru nokkrar tilvísanir til laga sem ekki eru lengur í gildi. Þá er lagt til að heimild til að ákveða að hluti afla skuli ekki reiknast til aflamarks verði gerð varanleg og að tímabundin heimild til ráðherra um sérstaka ráðstöfun þorskeldiskvóta gildi til loka fiskveiðiársins 2009/2010.
    Verði frumvarðið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi í för með sérkostnaðarauka fyrir ríkissjóð.