Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 439  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2005.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2005 og breytingartillögum hennar og meiri hluta fjárlaganefndar kemur fram hver stefna ríkisstjórnarinnar er. Það frumvarp til fjárlaga sem hér liggur fyrir er í samræmi við fyrri frumvörp þessarar ríkisstjórnar þó þannig að nú er enn meiri áhersla lögð á að færa þeim mest sem hafa mest fyrir.
    Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram hvernig tekna skuli aflað og hvernig þeim verði síðan ráðstafað á einstaka málaflokka. Nánari skoðun á því sýnir vel áherslur ríkisstjórnarinnar þar sem markvisst er þrengt að velferðarsamfélaginu. Áherslur ríkisstjórnarinnar hafa leitt til aukinnar misskiptingar í samfélaginu. Bilið á milli ríkra og fátækra er sífellt að aukast og mun aukast enn frekar með tillögum ríkisstjórnarinnar um breytingar í skattkerfinu. Þannig eiga þeir sem hafa mest að fá mest og þeir sem hafa minnst að fá minnst. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks stefnir þjóðinni í auðhyggjusamfélag sem leggur höfuðáherslu á skammtímagróða og peningalegur mælikvarði er lagður á allt og alla. Vinstri hreyfingin – grænt framboð getur ekki samþykkt slíkar áherslur.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á velferð og jöfnun lífskjara. Samfélagið á að einkennast af jöfnuði, frelsi, fjölbreytni og ríkri samkennd. Framtíðarsýn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er að allir fái notið sín á eigin forsendum í samfélagi þar sem samhjálp, virðing og velferð ríkir. Skattastefnan á að fela í sér tekjujöfnun og að byrðum sé dreift með sanngjörnum hætti. Velferð á að vera allra en ekki hinna fáu. Jafnt tillit verður að taka til félagslegra, efnahagslegra, lífrænna og menningarlegra þátta, hvort sem horft er til skemmri eða lengri tíma. Í slíku samfélagi blómgast bæði sveit og borg á eigin forsendum.

Efnahagsforsendur.
    Efnahagsforsendur fjárlaga ársins 2004 hafa gjörbreyst. Þannig er nú spáð að einkaneysla aukist um 7% en ekki 3,5% eins og áætlun hafði gert ráð fyrir. Fleiri dæmi mætti nefna, svo sem fjárfestingu en hún jókst nærri tvöfalt meira en gert hafði verið ráð fyrir. Forsendur fjárlaga ársins 2004 hafa því engan veginn staðist. Í framhaldi af því hlýtur að vakna sú spurning hvort ekki þurfi að bæta vinnubrögð þegar forsendur fjárlaga eru áætlaðar.
    Í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu er talið að viðskiptahallinn á þessu ári verði 7–8% af landsframleiðslu og „vaxi síðan hratt og nái hámarki 2006 og verði þá 13–14 % af landsframleiðslu. Aukinn viðskiptahalla má að verulegu leyti rekja til beinna og óbeinna áhrifa vegna stóriðjuframkvæmdanna. Áætluð bein áhrif skýra upp undir 40% af viðskiptahallanum þegar framkvæmdir standa sem hæst árin 2005–2006“. Athygli er vakin á að yfir 60% viðskiptahallans eru vegna aukinnar einkaneyslu og þenslu í samfélaginu. Við þessar aðstæður velur ríkisstjórnin að lækka skatta, sérstakan hátekjuskatt og tekjuskatt einstaklinga, um nærri 5 milljarða kr. Þessu er mætt með niðurskurði á samgönguáætlun um 1,7 milljarða kr. á yfirstandi ári og um 4 milljarða kr. á næsta og þarnæsta ári. Framlög til velferðarkerfisins eru skert og sjúklingaskattar og skólagjöld hækkuð.
    Efnahags- og viðskiptanefnd ber lögum samkvæmt að fara yfir tekjuforsendur frumvarpsins. Það hefur hún enn ekki gert með viðhlítandi hætti og verður því sá hluti frumvarpsins tekinn sérstaklega til umfjöllunar við 3. umræðu.

Fjárlagagerðin.
    Í frumvarpinu er lagt til að útgjöld ríkissjóðs verði á næsta ári rúmir 294,6 milljarðar kr. Enn fremur er í breytingartillögum frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar lagt til að útgjöld verði aukin um 1,7 milljarða kr. Samtals er því gert ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs verði um 296,3 milljarðar kr. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir því í endurskoðaðri tekjuáætlun að heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári verði um 306,4 milljarðar kr.

Meiri hagsæld fyrir þá sem meira hafa.
    Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er eins og oft áður kveðið á um hækkun þjónustugjalda. Þessar hækkanir koma eins og alltaf harðast niður á þeim er síst skyldi. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að skráningargjöld stúdenta í ríkisháskólunum verði hækkuð úr 32.500 kr. í 45.000 kr. Ráðgert er að hækka komugjöld til heilbrigðis- og heilsugæslustöðva um 50 millj. kr. Þá má ekki gleyma skattalækkunarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem nú er til meðferðar á Alþingi, þar sem megininntakið er að þeir fái mest sem hafa mest.

Menntamál.
Framhaldsskólar.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar „Endurskoðun ríkisreiknings 2003“ kemur fram að fjárhagsstaða margra framhaldsskóla var slæm í árslok 2003. Í skýrslunni eru nefndir 11 skólar þar sem neikvætt eigið fé er samtals 662 millj. kr. Margir framhaldsskólar eru í slíkri stöðu ár eftir ár. Ljóst er að taka verður á þessum vanda. Reiknilíkanið sem skammtar fé til framhaldsskólanna er enn gallað og mikilvægt að ljúka endurskoðun á því sem fyrst. Í áliti 2. minni hluta menntamálanefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2005 er jafnframt bent á að undanfarin ár hafi stjórnvöld neitað að samþykkja áætlanir framhaldsskólanna um fjölda ársnemenda. Vegna þessa hefur nemendafjöldinn verið vanáætlaður í fjárlögum. Skólarnir hafa ekki fengið bættan útgjaldaauka vegna fjölgunar nemenda fyrr en eftir á. Þetta hefur m.a. leitt til vandræðaástands eins og skapaðist í þjóðfélaginu síðastliðið sumar þegar mörg ungmenni gátu ekki fengið skólavist vegna fjársveltis framhaldsskólanna. Stjórnvöld samþykktu um síðir að setja meiri fjármuni til framhaldsskólanna svo að þeir gætu tekið á móti fleiri nemendum. Vegna fjárhagsstöðu margra framhaldsskóla leggur Vinstri hreyfingin – grænt framboð því áherslu á að reiknilíkanið sem greitt er eftir verði endurskoðað og raunveruleg fjárþörf skólanna verði metin. Í reiknilíkaninu er vanáætlað til margra þátta, m.a. fjármálastjórnar, tölvukaupa og reksturs tölvukerfa, svo nokkuð sé nefnt. Þá eiga verknámsskólar og heimavistir erfitt með að fá sinn sérkostnað metinn. Fáránlegt er að setja þak á nemendafjölda minni framhaldsskóla þar sem aukinn fjöldi nemenda styrkir þessa skóla og eykur möguleika á fjölbreyttara námsframboði. Þá er ótæk sú stjórnsýsla að láta framhaldsskólana bera stöðugt uppsafnaðan halla milli ára. Hefur Ríkisendurskoðun ítrekað bent á að slíkt sé ekki heimilt samkvæmt fjárreiðulögum. Þá hafa forsvarsmenn framhaldsskólanna og ríkisháskólanna harðlega gagnrýnt að sjálft reiknilíkanið skuli ekki vera skólunum aðgengilegt þó að þeim sé gert að haga rekstri sínum eftir duttlungum þess.

Opinberir háskólar.
    Nauðsynlegt er að laga launastiku reiknilíkans menntamálaráðuneytisins sem notast er við þegar greitt er til háskóla. Í áliti 2. minni hluta menntamálanefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2005 kemur m.a. fram að ein af niðurstöðum skýrslu um „forsendur útreikninga nemendaframlaga í reiknilíkani um kennslu við háskóla“ sem starfshópur á vegum menntamálaráðuneytisins skilaði af sér í mars á þessu ári hafi verið að 10,5% vanti upp á að launastikan endurspegli meðallaunahækkanir í háskólum. Þannig hefur verið áætlað að á árunum 2001–2003 hefði fjárveiting til kennslu í ríkisháskólunum átt að vera um milljarði kr. hærri en raun var á.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur til að þetta verði leiðrétt og leggur jafnframt áherslu á að fjárveitingar til Háskóla Íslands verði auknar svo koma megi til móts við þann fjárhagsvanda sem einkum fámennar greinar standa frammi fyrir. Háskóli Íslands, sem er langstærsta kennslu- og rannsóknastofnun landsins, hefur búið við fjársvelti undanfarin ár. Stjórnvöld hafa ekki brugðist nægilega markvisst við aukinni eftirspurn eftir námi í skólanum. Þannig kemur fram í áliti 2. minni hluta menntamálanefndar um fjárlagafrumvarpið að á þessu ári er áætlað að virkir nemendur verði um 5.800 en í fjárlögum ársins er aðeins gert ráð fyrir 5.200 nemendum. Skólinn er því í raun að mennta um 600 nemendur sem hann fær ekki greitt fyrir. Slíkt mun á endanum bitna á gæðum kennslunnar. Þá má nefna að hlutfall fjárveitinga til rannsókna í Háskóla Íslands var 67% af kennsluframlagi á árinu 1999 en verður komið niður í 46% árið 2005 verði rannsóknarframlag til skólans ekki aukið. Háskóli Íslands er stærsta menntastofnun landsins og hefur fært þjóðinni mikla hagsæld með menntuðum einstaklingum og framúrskarandi rannsóknum. Sú kraftmikla stofnun sem Háskólinn er og hefur verið er ein af forsendum þess að við höfum getað byggt upp sjálfstæða þjóð þar sem lífskjör eru með því besta sem gerist. Ekki má þrengja svo að Háskóla Íslands að það dragi úr gæðum kennslu eða aðgangi nemenda að skólanum. Lausnin er ekki að koma á skólagjöldum þar sem aðstaða þeirra efnameiri verður betri til að fá menntun. Því mótmælir Vinstri hreyfingin – grænt framboð aðgangstakmörkunum og skólagjöldum í opinberum háskólum. Brýnt er að búa svo um að opinberir háskólar beri ekki skarðan hlut frá borði í þeirri samkeppni sem efnt hefur verið til á milli einstakra háskóla. Sem stendur geta sjálfseignarstofnanirnar aukið tekjur sínar með því að innheimta skólagjöld af nemendum án þess að það komi niður á hinu opinbera framlagi. Réttmætt er að halda því fram að verið sé að pína opinbera háskóla til að fara út á sömu braut. Slíkt samrýmist engan veginn sjónarmiðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um jafnrétti til náms. Mikilvægt er að stjórnvöld móti opinbera heildarstefnu um háskólastigið eins og Ríkisendurskoðun leggur til í skýrslu sinni „Háskólamenntun, námsframboð og nemendafjöldi“, stefnu þar sem verkefnum er forgangsraðað og þau tímasett og mælanleg markmið skilgreind.

Utanríkismál.
    Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að útgjöld til utanríkismála verði um 6,7 milljarðar kr. Útgjöld til þessa málaflokks hafa hækkað mikið á undanförnum árum. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 14. október sl. kom m.a. fram að á ellefu ára tímabili, þ.e. frá árinu 1995, hafi útgjöld til málaflokksins hækkað um 245% en á sama tíma hafi vísitala neysluverðs hækkað um 36%. Þá kemur einnig fram í áðurnefndri grein að á þessu sama tímabili hafi kostnaður vegna sendiráða Íslands hækkað um 260%. Að auki hafi um 2,7 milljörðum kr. verið varið til kaupa á húsnæði fyrir sendiráð og sendiskrifstofur, viðhalds, innréttinga og breytinga. Þá kemur fram í skýrslu sem utanríkisráherra lagði fyrir Alþingi í apríl sl. að á átta ára tímabili, 1995–2002, hafi verið stofnuð átta sendiráð og sendiskrifstofur.
    Með því nýmæli í fjárlögum að setja öll sendiráð undir eitt fjárlaganúmer dregur mjög úr gagnsæi. Á undanförnum árum hafa fjárveitingar til þessa málaflokks aukist mjög og því er nauðsynlegt að ljóst sé hvar útgjöld hafa aukist. Ríkisendurskoðun hefur í skýrslu sinni „Endurskoðun ríkisreiknings 2003“ gagnrýnt þetta fyrirkomulag og telur að með þessu dragi úr gagnsæi upplýsinga og að líklegt sé að ábyrgð forstöðumanna minnki.
    Áfram er bætt í svokallaða íslenska friðargæslu á erlendri grund. Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að hervæða íslenska ríkisborgara og stilla þeim upp við hlið hersveita NATO og Bandríkjanna. Jafnframt er mótmælt þátttöku Íslands í hópi hinna vígfúsu ríkja við innrásina í Írak og að íslenska ríkið leggi fram fé til hergagnaflutninga.

Heilbrigðismál.
Landspítali – háskólasjúkrahús.
    Fjárhagsvandi Landspítala – háskólasjúkrahúss er mikill. Handahófskenndur niðurskurður hefur gengið mjög nærri starfsemi hans á árinu. Enn er honum gert að spara um 600 millj. kr. í rekstri á næsta ári. Ljóst er að með auknum niðurskurði er höggvið í grunnstoðir heilbrigðisþjónustunnar. Vísað er til álits minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar um fjárhagsstöðu spítalans.

Heilbrigðis- og heilsugæslustofnanir.
    Fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar „Endurskoðun ríkisreiknings 2003“ að fjárhagsstaða margra heilbrigðisstofnana var slæm í árslok 2003. Í því sambandi eru sérstaklega nefndar fimm heilbrigðisstofnanir þar sem samanlagður höfuðstóll er neikvæður um 297 millj. kr. Annar minni hluti mótmælir fyrirhuguðum niðurskurði hjá heilbrigðisstofnunum á Blönduósi, Hvammstanga, Patreksfirði og Bolungarvík, þar sem gert er ráð fyrir að fella niður bráðaþjónustu. Vakin er athygli á að þúsundir íbúa höfuðborgarsvæðisins eru án skráðs heimilislæknis.

Heilsugæslan.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir þeirri einkavæðingu sem á sér stað í heilsugæslunni. Reynslan af því að gera samning við einkaaðila um að taka að sér heilsugæsluna virðist ekki vera góð. Þannig kemur eftirfarandi fram í áðurnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar um Heilsugæslustöðina í Lágmúla: „Heilsugæslustöðin Lágmúla starfar samkvæmt verktakasamningi milli Heilsugæslunnar í Reykjavík og Heimilislæknastöðvarinnar ehf. Samningurinn rann út í árslok 2000 en aðilar líta svo á hann sé enn þá í gildi þar sem þeir hafa ekki sagt honum upp. Við endurskoðun Ríkisendurskoðunar voru gerðar athugasemdir við að eignaskrá liggur ekki fyrir og lánveitingar til lækna sem jafnframt eru hluthafar Heimilislæknastöðvarinnar ehf. Í þjónustusamningi er engin heimild fyrir slíkum lánveitingum. Þá er þar kveðið á um hvernig fara eigi með rekstrarafgang og skal helmingur skattalegs hagnaðar renna til verksala en hinn helminginn skal leggja í varasjóð sem verksali ávaxtar. Á síðustu fimm árum nam tekjuafgangur 52 millj. kr. sem verksala hafa verið greiddar. Sá hluti rekstrarafgangs sem leggja átti í varasjóð var ekki lagður þangað. Þá hafði landlæknisembættið ekki sinnt sérstaklega eftirliti með störfum verksala og gæðum þjónustunnar eins og kveðið er á um í samningi.“ Þetta er ekki glæsileg einkunn sem Ríkisendurskoðun gefur einkavæðingarbrölti ríkisstjórnarinnar. Hvernig má það t.d. vera að hagnaður sé af rekstri heilsugæslustöðvar þegar fjöldi fólks í því hverfi sem hún á að sinna fær ekki fastan heimilislækni og, það sem meira er, fær ekki að panta tíma hjá læknum heldur má einungis koma á ákveðnum tímum og bíða stundum langtímum saman eftir að fá að hitta lækni. Og hvernig má það vera að þessi sama stöð er samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar að stunda lánarekstur til eigenda sinna? Og hvers konar vinnubrögð eru það að hafa ekki endurskoðað samning sem rann út í árslok 2000?

Réttarbætur til ungra öryrkja.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir því harðlega að ríkisstjórnin ætli ekki að uppfylla samkomulagið við Öryrkjabandalagið frá því í mars 2003 um aldurstengdar örorkubætur. Eins og fram kemur í áliti minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2005 er ljóst að um 500 millj. kr. vantar til að hægt verði að standa við það fyrirkomulag sem kynnt var að taka ætti upp, þ.e. að tvöfalda hækkun grunnlífeyris hjá yngstu öryrkjunum. Heilbrigðisráðherra hefur staðfest í fjölmiðlum að loforðið við öryrkja hafi ekki verið efnt að fullu. Haustið 2003 talaði ráðherrann um að „greiða þyrfti hækkanirnar sem um var samið í áföngum, 66% koma til greiðslu um næstu áramót (2003–2004) og afgangurinn ári síðar.“ Sömuleiðis sagði heilbrigðisráðherra „miðað við þær heimildir sem ég hef þarf hins vegar að áfangaskipta þessu samkomulagi. En það stendur ekki til annað en að standa við það eins og það stendur.“ Nú kveður hins vegar við annan tón í máli heilbrigðisráðherra og enn á að svíkja öryrkja. Í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinu fé til að standa við samninginn að fullu eða seinni áfangann eins og heilbrigðisráðherra talaði um fyrir um ári síðan.

Sveitarfélög.
    Fjárhagur margra sveitarfélaga hefur verið erfiður undanfarin ár. Stöðugt fleiri verkefni hafa verið færð til sveitarfélaganna án þess að þeim hafi fylgt nægir tekjustofnar. Með samþjöppun í sjávarútvegi og sölu fiskveiðiheimilda frá byggðunum hverfa jafnframt fyrirtæki þeirra einstaklinga sem greiddu hæstu gjöldin til sveitarfélaganna. Þessi þróun hefur leitt til þess að mörg bæjar- og sveitarfélög eiga í miklum fjárhagsörðugleikum. Þannig hafa sveitarfélögin verið rekin með halla frá 1990 en samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er líklegt að um 2,8 milljarða kr. halli verði á rekstri sveitarfélaganna árið 2003. Samhliða þessu hafa hreinar skuldir sveitarfélaganna aukist gríðarlega. Einu skilaboðin sem sveitarfélögin fá frá ríkisvaldinu eru að þau eigi að selja eignir. Þetta hefur leitt til þess að mörg sveitarfélög hafa þurft að selja frá sér sínar arðbærustu eignir, svo sem orkubú. Þetta ráð getur aðeins dugað í ákveðinn tíma. Hvað eiga sveitarfélögin að gera þegar þau hafa selt allar eignir sínar og notað söluandvirðið til að standa undir lögbundinni þjónustu við íbúana?

Umhverfismál.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill vernda íslenska náttúru og auðlindir lands og sjávar. Náttúruauðlindir eiga að vera sameign landsmanna og um vernd þeirra og nýtingu verður að ríkja bærileg sátt. Slíkt gerist ekki fyrr en stjórnvöld opna augu sín fyrir gildi náttúruverndar og læra mikilvægi þess að við nýtingu náttúrulegra auðlinda sé farið að meginsjónarmiðum sjálfbærrar þróunar. Með hliðsjón af því leggur Vinstri hreyfingin – grænt framboð áherslu á að efla stofnanir sem starfa á sviði náttúruverndar og nýtingar náttúruauðlinda og gera þeim kleift að sinna sínu þýðingarmikla hlutverki. Þá er ljóst af áliti minni hluta umhverfisnefndar um frumvarp til fjárlaga að margar stofnanir sem heyra undir umhverfisráðuneytið eiga við rekstrarvanda að etja.


Náttúrufræðistofnun Íslands.
    Nauðsynlegt er að bæta Náttúrufræðistofnun Íslands uppsafnaðan halla auk þess sem þörf er á að hækka árlegan rekstrargrunn stofnunarinnar. Ef það verður ekki gert eru frekari uppsagnir yfirvofandi hjá stofnuninni og fari svo að fleirum verði sagt upp störfum aukast erfiðleikar stofnunarinnar við að sinna lögbundnum verkefnum sínum með fullnægjandi hætti. Þá er nauðsynlegt að lækka sértekjukröfu þá sem hvílir á stofnuninni enda er hún með öllu óraunhæf.

Skipulagsstofnun.
    Nauðsynlegt er að lækka sértekjukröfu stofnunarinnar til samræmis við það sem raunhæft getur talist. Hafa verður í huga að Skipulagsstofnun getur ekki haft áhrif á sértekjur sínar heldur ráðast þær alfarið af fjölda framkvæmda sem stofnuninni er ætlað að úrskurða um. Þá er nauðsynlegt að líta til þess að stofnunin hefur þurft að sinna auknum skyldum vegna breytinga sem gerðar voru á lögum um mat á umhverfisáhrifum árið 2000 og leiðrétta þarf fjárveitingu vegna þessa.

Umhverfisstofnun.
    Láðst hefur að reikna með fjárveitingu vegna verndaráætlunar fyrir Mývatnssveit sem þó var gert ráð fyrir í lögum nr. 97/2004, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Nauðsynlegt er að leiðrétta fjárveitingu til stofnunarinnar vegna þessa.

Lokaorð.
    Fjárlagfrumvarpið eins og það liggur nú fyrir markar ákveðin vatnaskil í ríkisfjármálum. Fyrsti áfangi stórfelldra skattalækkana kemur til framkvæmda. Þeim er mætt með skertum framlögum til velferðarkerfisins, skólagjöldum og sjúklingasköttum. Sérstök framlög ríkisstjórnarinnar til vegamála á kosningaári hafa nú gufað upp og niðurskurður á samþykktri samgönguáætlun á þremur árum nemur tæpum 6 milljörðum kr. Tillögur um hvar sá niðurskurður eigi að koma niður verða að liggja fyrir við 3. umræðu. Víst er að íbúar inn til dala og út til nesja um allt land, einkum á Vestfjörðum og Norðausturlandi, munu telja sig svikna ef brýnum vegaframkvæmdum á þessum svæðum verður enn á ný slegið á frest. Ljóst er að verði gjaldahlið frumvarpsins lokað eins og það liggur nú fyrir mun verða þrengt óhóflega að mörgum stofnunum og brýnum samfélagsverkefnum í grunnþjónustunni. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu mæla fyrir breytingartillögum sem leiðrétta að nokkru þessa röngu forgangsröðun meiri hlutans nái þær fram að ganga.
    Þar sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur enn ekki skilað fullnægjandi nefndaráliti um tekjuáætlunina og efnahagshorfur næsta árs verður beðið með umfjöllun um þann hluta frumvarpsins til 3. umræðu.
    Varðandi ítarlegri umfjöllun um einstaka málaflokka er vísað til álita sem fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eiga aðild að og birt eru í nefndaráliti meiri hlutans.

Alþingi, 25. nóv. 2004.



Jón Bjarnason.




Fylgiskjal I.


Steingrímur J. Sigfússon
og Jón Bjarnason:


Sveitarfélögin svelt til hlýðni.
(Morgunblaðið, 29. september 2004.)


    Sveitarfélögin á Íslandi hafa lengi búið við óviðunandi afkomu og fer fjarri að það ástand sé bundið við minnstu sveitarfélögin. Taprekstur og skuldasöfnun er veruleiki sveitarfélaga af öllum stærðum og gerðum. Aukning skulda hefur að undanförnu verið á bilinu 3–5 milljarðar á ári, t.d. tæpir 8 milljarðar samtals sl. tvö ár. Er það nokkuð í takt við aukningu heildarskulda sveitarfélaganna uppá um 35 milljarða samtals sl. 11 ár. Varðandi samanburð milli ára ber þó að hafa í huga að reikningsskilaaðferðum var breytt upp úr 2000.
    Þingmenn vinstri-grænna hafa ítrekað reynt að vekja athygli á þessum vanda og lagt til úrbætur í þeim efnum, því miður með litlum árangri. Gætt hefur ótrúlegs tómlætis um afkomu sveitarfélaganna, ekki síst í ljósi þess að á undanförnum árum hafa veigamiklir velferðarmálaflokkar færst þangað.

Lengt í hengingarólinni.
    Í stað aðgerða hefur gætt tilhneigingar af hálfu ríkisvaldsins til að hvetja menn til að lengja í hengingarólinni með sölu eigna. Enginn vafi er á því að um meðvitaða pólitík er að ræða. Einkavæðingarsinnar líta til þess með velþóknun að sveitarfélögin sjái iðulega engin önnur úrræði en að selja verðmætar félagslegar eignir sem þó eru sveitarfélaginu bráðnauðsynlegar til að veita undirstöðuþjónustu. Þetta lagar bókhaldið tímabundið en verður svo dýrara og þar með staðan verri til lengri tíma litið.
    Við nýjar framkvæmdir eru aðstæður yfirleitt þannig að aðeins er um tvennt að ræða; viðbótarlántöku til að fjármagna fjárfestingarnar eða semja um að þær fari fram í svokallaðri einkaframkvæmd. Þ.e. að einkaaðili byggi, reki og jafnvel eigi um aldur og ævi viðkomandi eign og sveitarfélagið borgi síðan árlega leigu. Yfirgnæfandi líkur eru á því að einkaframkvæmd reynist dýrari leið þegar upp er staðið. Fyrir því er sú einfalda meginástæða að í einkarekstrinum ætla menn sér arð sem þeir taka út árlega. Ekki er þó síður alvarlegt að þessi aðferð bindur sveitarfélagið á klafa langtímasamninga sem hafa að lokum í för með sér aukinn kostnað og geta einnig kostað erfiðleika við að ná fram ýmsum félagslegum og faglegum markmiðum.
    Fyrir nokkru áttu sveitarfélög á Vestfjörðum í miklum erfiðleikum. Þá datt ríkisstjórninni það snjallræði í hug að kaupa af þeim verðmætustu sameiginlegu eign þeirra, Orkubú Vestfjarða, vel rekna og þarfa stofnun sem sá Vestfirðingum fyrir rafmagni á hagstæðu verði. Í batnandi og sterkum fjárhag Orkubúsins gátu verið fólgnir miklir framtíðarmöguleikar fyrir Vestfirðinga. Þeir urðu engu að síður að sjá á eftir þessu gulleggi sínu til að fleyta sér áfram. Svipuðu máli gegnir víðar. Má nú síðast nefna Vestmannaeyinga sem fyrir stuttu seldu veitur sínar og eru nú lagðir af stað í aðra umferð eignasölu, þ.e. sölu fasteigna bæjarins til utanaðkomandi eignarhaldsfélags. Ekki höfum við þá trú að það sé einlægur vilji forsvarsmanna Vestmannaeyjakaupstaðar heldur þvert á móti að neyðin hreki menn út í aðgerðir af þessu tagi. Það er umhugsunarefni að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna skuli taka slíkar aðgerðir góðar og gildar. Er opinberri eftirlitsnefnd stætt á því að leggja slík skammtímasjónarmið til grundvallar starfi sínu? Hvernig réttlætir nefndin það að leggja blessun sína yfir aðgerðir til meintrar lausnar á fjárhagsvanda sveitarfélaga sem þýða að eftir 15–20 ár, jafnvel fyrr, verður afkoman að öðru óbreyttu enn þá verri en ella?

Pólitíkin undir, yfir og allt um kring.
    Ofan í fyrrgreindar aðstæður er nú farin í gang opinber áætlun um stórfellda sameiningu sveitarfélaganna. Nátengd eru áform um að færa yfir til þeirra enn aukin og mjög útgjaldafrek verkefni, s.s. á sviði heilbrigðismála og umönnunar aldraðra. Minna heyrist af þeim tekjum sem sveitarfélögin eiga að fá til að mæta hinum nýju verkefnum. Minnst hefur þó heyrst af aðgerðum til að lagfæra núverandi stöðu þeirra sem auðvitað er brýnasta verkefnið. Furðu sætir hversu þögulir og þolinmóðir sveitarstjórnarmenn hafa verið við þessar aðstæður.
    Enginn vafi er að óviðunandi afkoma sveitarfélaganna skapar stórfellda hættu hvað snertir framtíðarhorfur samábyrgs velferðarsamfélags á Íslandi. Þá er ljóst að bág afkoma sveitarfélaganna er einn mesti Akkilesarhællinn í byggðalegu tilliti. Félagshyggjufólk og áhugafólk um jafnvægi í byggðaþróun verður að láta þessa hluti til sín taka. Skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar koma svo eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Sé ríkissjóður aflögufær um skatttekjur, sem verulega má efast um, væri þá ekki nær að þær tekjur færðust a.m.k. að verulegu leyti yfir til sveitarfélaganna til að bæta afkomu þeirra? Ætla sveitarstjórnarmenn ekki að minna á tilveru sína í tengslum við þessa skattaumræðu, eða hvað?
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð mun hafa það eitt af sínum forgangsverkefnum á komandi þingi að knýja fram umræður og vonandi aðgerðir til úrbóta í fjármálum sveitarfélaganna. Við núverandi ástand verður ekki lengur unað.


Fylgiskjal II.


Félag íslenskra framhaldsskóla
og Skólameistarafélag Íslands:


Fjárhagsstaða framhaldsskólanna.
Minnisblað með athugasemdum og ábendingum.

(10. nóvember 2004.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal III.


Minnisblað frá Háskólanum á Akureyri.
(11. nóvember 2004.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal IV.


Minnisblað frá Háskóla Íslands.
(4. nóvember 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal V.


Bréf frá Ferðamálasamtökum Íslands til fjárlaganefndar.
(5. nóvember 2004.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Fylgiskjal VI.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið:

Fréttatilkynning nr. 17/2003.


(25. mars 2003.)



Samkomulag um að bæta hag ungra öryrkja sérstaklega.


Allt að tvöföldun grunnlífeyris.


    Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands hafa, fyrir hönd ríkisstjórnar og Öryrkjabandalagsins, gert samkomulag um hækkun grunnlífeyris öryrkja frá 1. janúar 2004. Er með samkomulaginu komið sérstaklega til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni, en gert er ráð fyrir allt að tvöfaldri hækkun grunnlífeyris til þeirra sem yngstir verða öryrkjar.
    Ríkisstjórnin samþykkti samkomulagið á fundi sínum í morgun. Það er gert í framhaldi af formlegum og óformlegum viðræðum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og forsvarsmanna Öryrkjabandalags Íslands sem staðið hafa frá í febrúar 2002, eða í rúmt ár, og hefur Öryrkjabandlagið lagt sérstaka áherslu á það í viðræðunum að sérstaða þeirra sem yngstir verða öryrkjar verði bætt. Samkomulagið er einnig gert í tilefni Evrópuárs fatlaðra.
    Samkvæmt samkomulaginu er lagt til að skipaður verði starfshópur sem geri endanlegar tillögur að breytingum á lögum um almannatryggingar í samræmi við samkomulagið sem taka gildi 1. janúar 2004, eins og áður sagði, og tillögur sem eiga að auka möguleika öryrkja til atvinnuþátttöku.
    Starfshópurinn skal miða störf sín við framangreint samkomulag sem felur í sér eftirfarandi:
    *    Stigið verði fyrsta skref til viðurkenningar á hinni margvíslegu sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni.
    *     Þeir sem yngstir verða öryrkjar til lífstíðar fá þannig hækkun á núverandi grunnlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, sem nemur allt að tvöföldun grunnlífeyrisins.
    *     Þeir sem verða öryrkjar síðar á lífsleiðinni fá hins vegar hækkun á núverandi grunnlífeyri með hliðsjón af aldri, þannig að þeir sem verða öryrkjar 67 ára fá grunnlífeyri sem nemur sömu upphæð og ellilífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins.
    *     Hækkunin kemur til framkvæmda 1. janúar 2004.
    Í samkomulaginu er sömuleiðis gert ráð fyrir að starfsendurhæfing öryrkja verði efld og taki mið af þeim margvíslegu möguleikum sem nú hafa skapast með breyttum atvinnuháttum. Er þetta gert til að ýta undir og opna möguleika öryrkja til að taka þátt í atvinnulífinu á sínum forsendum.
    Samkvæmt útreikningum sérfræðinga heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins verður kostnaðurinn við þessa hækkun grunnlífeyris og kerfisbreytinguna rúmur einn milljarður króna á ársgrundvelli.


Fylgiskjal VII.


Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands árið 2003.

    Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn fimmtudaginn 9. október 2003, fagnar því samkomulagi sem náðst hefur við ríkisstjórn Íslands um hið nýja kerfi örorkulífeyris sem tekið verður upp frá og með 1. janúar næstkomandi. Með kerfisbreytingu þessari er hin margvíslega sérstaða öryrkja viðurkennd í verki. Fyrir það pólitíska raunsæi eiga íslensk stjórnvöld þakkir skildar.
    Samkomulagið markar ekki aðeins þáttaskil í sögu og þróun almannatrygginga, heldur einnig í samskiptum stjórnvalda við Öryrkjabandalag Íslands. Með beinu og milliliðalausu samkomulagi við bandalagið sýna ráðamenn þjóðarinnar mikilsverðan skilning á nýjum og breyttum viðhorfum til mannréttindabaráttu fatlaðra.
    Öryrkjabandalag Íslands lítur svo á að þau þáttaskil sem hér hafa orðið, ásamt því góða samstarfi sem hafið er í tilefni Evrópuárs fatlaðra, marki upphafið að betri og bjartari framtíð, samfélaginu öllu til hagsbóta. Nútíminn krefst þess að stjórnvöld og samtök fatlaðra haldi áfram að vinna sameiginlega að því brýna verkefni sem þeim hefur verið treyst til að leysa – því verkefni að rjúfa einangrun fatlaðra, leyfa þeim að njóta raunverulegs frelsis og taka fullan þátt í því lýðræðislega samfélagi sem við Íslendingar viljum búa í.


Fylgiskjal VIII.


Ritstjórnargrein.
Orð skulu standa.
(Morgunblaðið 27. nóvember 2003.)


    Fram kom í máli Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra á Alþingi í fyrradag að ríkisstjórnin treysti sér ekki til að standa strax um áramótin við samkomulag það, sem gert var við Öryrkjabandalag Íslands í marz síðastliðnum um hækkun á grunnlífeyri öryrkja og breytingar á kerfi örorkulífeyris. Samkvæmt samkomulaginu á m.a. að aldurstengja örorkubætur og þannig u.þ.b. tvöfalda bætur til þeirra, sem yngstir verða öryrkjar.
    Jón Kristjánsson segir nú að samkomulagið verði efnt í áföngum, þar sem hækkun bótanna kosti meira en þann milljarð, sem ætlaður er til þess að efna samkomulagið í fjárlagafrumvarpinu.
    Nú gætu það út af fyrir sig verið gild rök fyrir að fresta gildistöku samkomulagsins að hluta, að fé til þess skorti – ef sá fyrirvari hefði verið gerður þegar samkomulagið var gert, að til þess kynni að koma. Svo er hins vegar ekki. Ekkert er þess efnis í samkomulaginu sjálfu og í grein, sem Jón Kristjánsson skrifaði hér í blaðið nokkrum dögum eftir að skrifað var undir það, sagði: „Nú verður settur niður starfshópur til að útfæra samkomulagið í smáatriðum í samráði við fulltrúa Öryrkjabandalags Íslands og er gert ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum sínum strax í haust í frumvarpsformi þannig að þær liggi snemma fyrir á Alþingi, en gildistakan er 1. janúar nk.“ Þetta er alveg skýrt, enda sagðist Jón sannfærður um „að enginn stjórnmálaflokkanna myndi einn eða í samráði við aðra flokka reyna að rokka við því samkomulagi sem gert hefur verið“.
    Í sömu grein tók Jón Kristjánsson fram að samkomulagið væri ekki útspil vegna komandi kosninga. Engu að síður vitnuðu þingmenn stjórnarflokkanna beggja, einkum Framsóknarflokksins, til þess í greinum og ræðum í vor að eitt af kosningaloforðunum væri að efna samkomulagið.
    Stjórnmálamenn, sem í vor töldu ríkissjóð hafa nægt svigrúm, þannig að bæði væri hægt að lofa að lækka skatta og heita öryrkjum brýnum kjarabótum, geta ekki verið þekktir fyrir að seinka nú efndum loforða sinna – og raunar undirskrifaðs samkomulags. Þetta er spurning um trúverðugleika stjórnmálamanna gagnvart kjósendum sínum. Orð eiga að standa.


Fylgiskjal IX.


Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 2005 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá minni hluta umhverfisnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og tvö bréf fjárlaganefndar frá 12. og 18. október. Nefndin fékk til sín á fund Hrafnhildi Þorvaldsdóttur frá umhverfisráðuneyti. Hún fór yfir þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði nefndarinnar og svaraði spurningum nefndarmanna.
    Það er álit minni hluta umhverfisnefndar að ráðlegt hefði verið að kalla forstöðumenn stofnana sem heyra undir málasvið nefndarinnar á hennar fund, en ekki reyndist nægur tími til þess, svo minni hlutinn óskaði eftir sérstökum upplýsingum frá forstöðumönnum helstu stofnana og frá Samtökum náttúrustofa. Nefndinni bárust minnisblöð frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Skipulagsstofnun Íslands, Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands og Samtökum náttúrustofa. Álit þetta byggist á upplýsingum úr þessum minnisblöðum.

Stofnanir umhverfisráðuneytisins.
    Það er ljóst að allar þessar stofnanir eiga við rekstrarvanda að etja og nauðsynlegt er að fjárveitingavaldið taki afstöðu til þeirra upplýsinga sem því hafa verið gefnar við skoðun þessara mála í nefndum þingsins. Í því sambandi telur minni hlutinn nauðsynlegt að bæta Náttúrufræðistofnun Íslands uppsafnaðan halla auk þess sem þörf er á að hækka árlegan rekstrargrunn stofnunarinnar. Ef þetta verður ekki gert eru frekari uppsagnir yfirvofandi hjá stofnuninni og fari svo að fleiri verði sagt upp aukast erfiðleikar stofnunarinnar við að sinna lögbundnum verkefnum sínum með fullnægjandi hætti. Þá vill minni hlutinn að sértekjukrafa sú sem hvílir á stofnuninni verði lækkuð, enda er hún með öllu óraunhæf. Það sama má segja um sértekjukröfu á Skipulagsstofnun sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Það er mat minni hlutans að nauðsynlegt sé að lækka hana til samræmis við það sem raunhæft getur talist. Hafa verður í huga að Skipulagsstofnun getur ekki haft áhrif á sértekjur sínar heldur ráðast þær alfarið af fjölda framkvæmda sem stofnuninni er ætlað að úrskurða um. Þá ber fjárlaganefnd að líta til þeirrar staðreyndar að Skipulagsstofnun hefur þurft að standa undir auknum skyldum vegna breytinga sem gerðar voru á lögum um mat á umhverfisáhrifum 2000 og er eðlilegt að fjárveitingavaldið leiðrétti fjárveitingu til stofnunarinnar vegna þessa. Þá er Veðurstofa Íslands þannig sett að veðurþjónustan, og úrvinnsla veðurgagna, er komin niður fyrir ásættanlegt lágmark að mati forstöðumanns stofnunarinnar. Það er mat minni hlutans að í fjárlögum fyrir árið 2005 verði að taka tillit til þessa. Loks ber að geta Umhverfisstofnunar, en þar er sömu sögu að segja, fjárlaganefnd hefur láðst að reikna með fjárveitingu vegna verndaráætlunar fyrir Mývatnssveit sem þó var gert ráð fyrir í lögum nr. 97/2004, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Þetta verður að leiðrétta. Einnig skortir enn á fjárveitingu til stofnunarinnar til dýraverndarmála. Þar er um að ræða atriði sem minni hluti umhverfisnefndar óskaði leiðréttinga á 2003 og er sú krafa áréttuð í þessu áliti. Einnig er nauðsynlegt að staðið verði við stóru orðin um átak í uppbyggingu þjóðgarða og friðlýstra svæða. Umhverfisstofnun ber hitann og þungann af því starfi og nauðsynlegt er að henni sé gert kleift að standa þannig að málum að sómi sé að. Þá er minni hlutinn sammála því sem segir í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar um nauðsyn þess að farið verði vandlega yfir fjárhagsstöðu verkefna er tengjast nýsamþykktri náttúruverndaráætlun og að fjárframlög í það verkefni verði tryggð.

Náttúrustofur.
    Minni hlutinn telur fjárlagafrumvarpið ekki gæta lögbundinnar skyldu Alþingis gagnvart náttúrustofunum. Þær starfa samkvæmt lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, og í 10. gr. segir að framlag ríkisins til hverrar stofu skuli miðast við fjárhæð er nemi launum forstöðumanns í fullu starfi að viðbættri fjárhæð sem sé allt að því jafnhá þeirri fjárhæð. Samkvæmt því ætti framlag ríkisins til hverrar stofu að vera nálægt 11,7 millj. kr., en frumvarpið gerir ráð fyrir 7,9 millj. kr. á hverja þeirra. Þannig vantar 3,8 millj. kr. upp á framlagið til hverrar stofu til að það standi undir því sem til er ætlast samkvæmt lögunum. Þetta telur minni hlutinn að þurfi að leiðrétta. Auk þess má nefna stefnuleysi gagnvart möguleikum stofanna til að fjármagna sérverkefni sín. Slíkir styrkir koma gjarnan af safnliðum fjárlaga og um þá ríkir óvissa þar til við endanlega afgreiðslu laganna. Þar með skapar Alþingi stofunum óviðunandi aðstæður sem gera þeim afar erfitt fyrir að skipuleggja starfsemi sína.

Safnliðir.
    Eins og fram kemur í inngangi álits þessa bárust umhverfisnefnd tvö bréf frá fjárlaganefnd, annað dagsett 12. október og hitt dagsett 18. október. Hið fyrra var til að tilkynna umhverfisnefnd að óskað væri eftir því að hún gerði tillögur um skiptingu safnliða sem heyrðu undir ráðuneyti umhverfismála, en hið síðara var til að tilkynna umhverfisnefnd að fjárlaganefnd hefði skipt um skoðun og nú væri þess ekki óskað að umhverfisnefnd gerði tillögu um skiptingu safnliðanna. Ekki voru færð rök fyrir þeirri ákvörðun. Það er mat minni hluta umhverfisnefndar að þessi hringlandaháttur sé til marks um ráðaleysi meiri hluta fjárlaganefndar varðandi skiptingu safnliða almennt. Í 25. gr. þingskapalaga er þess getið að fjárlaganefnd geti vísað verkefnum til fastanefndar og það fyrirkomulag hefur viðgengist a.m.k. allt síðasta kjörtímabil. Það var tekið upp að fyrirmynd annarra norrænna þjóðþinga. Þannig hafa fagnefndirnar fengið til umsagnar þær umsóknir sem fjárlaganefnd berast um stuðning við félög og einstaklinga á viðkomandi málasviði. Nú er fjárlaganefnd að hverfa frá því fyrirkomulagi og virðist þar hið sama eiga að gilda um allar nefndir þingsins þótt þessi hluti starfsins hafi verið mismikill hjá nefndunum og haft mismikið álag í för með sér. Þannig hefur álit umhverfisnefndar hvað þetta varðar fyrst og fremst snúið að fjárhagslegum stuðningi til frjálsra félagasamtaka, auk þess sem nefndin hefur fjallað um einstakar umsóknir um stuðning við verkefni á sviði umhverfismála. Það umfang sem hér um ræðir er sáralítið hjá því sem t.d. hefur snúið að menntamálanefnd og því ekki sambærilegt. Það er mat minni hluta umhverfisnefndar að rétt sé að koma styrkveitingum Alþingis í formlegan farveg í fagráðuneytunum þar sem stofnaðir yrðu sjóðir með faglega yfirstjórn sem auglýsti eftir styrkjum einu sinni til tvisvar á ári. Slíkir sjóðir störfuðu eftir ákveðnum reglum um úthlutanir og auglýsingar styrkja. Þannig yrði eftir föngum reynt að tryggja að öllum væri ljós framgangsmáti slíkra styrkveitinga og allir ættu því jafnan aðgang og jafna möguleika. Einnig mætti hugsa sér að hluti af því fé sem fjárlaganefnd hefur úthlutað rynni óskipt til stofnana á viðkomandi sviði. T.d. ættu allir fjármunir sem fara í að endurgera gömul hús eða gamla eikarbáta að fara í gegnum Þjóðminjasafnið og lúta þeim viðmiðum sem safnið hefur sett sér í varðveislu menningararfsins. Einnig væri hugsanlegt að færa fjármuni yfir til húsafriðunarnefndar í þessum tilgangi. Það sem fjárlaganefnd er að gera núna með því að taka styrkúthlutanirnar inn á sitt borð og útiloka þannig fagnefndirnar getur varla talist vera lausn á þessum vanda, það er miklu frekar skref aftur á bak.


Alþingi, 10. nóv. 2004.

Kolbrún Halldórsdóttir.