Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 389. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 493  —  389. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Samkvæmt fjárlagafrumvörpum þessa og síðasta árs er tekjuaukning ríkissjóðs milli ára 7–8% en spár um hagvöxt gera ráð fyrir 5% aukningu. Ríkissjóður er því að taka til sín stærri hlut af landsframleiðslunni á árinu 2005 en hann gerir á yfirstandandi ári. Þetta frumvarp er partur af þessari þenslu ríkisins sem hefur einkennt framgöngu þessarar ríkisstjórnar.
    Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar fjármálaráðherra um skattabyltingu er hér á ferðinni frumvarp sem felur í sér að bein útgjöld landsmanna, í formi skatta, aukast um 340 millj. kr. Að auki mun hækkunin sem frumvarpið felur í sér leiða til þess að neysluvísitalan hækkar um 0,08%. Það þýðir að skuldaklyfjar landsmanna munu aukast um fast að einum milljarði kr. Þetta er þó ekki eini afrakstur dagsins fyrir ríkissjóð.
    Fyrr á þessum degi voru á dagskrá tvö frumvörp um aukatekjur ríkissjóðs og um bifreiðagjald. Þau gera samanlagt ráð fyrir 320 millj. kr. aukinni skattheimtu ríkissjóðs. Samtals hefur því ríkisstjórnin lagt fram á þessum degi þrjú frumvörp sem öll fela í sér aukna skattheimtu og að bein útgjöld landsmanna aukast um 640 millj. kr. Jafnframt munu skuldir einstaklinga, heimila og fyrirtækja aukast um fast að milljarði kr.
    Þessar hækkanir koma í kjölfar annarra hækkana sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir á síðasta ári. Þar má nefna hækkun á þungaskatti, hækkun á sérstöku bensíngjaldi, lækkun vaxtabóta, afnám sérstakrar ívilnunar vegna séreignarlífeyrissparnaðar, hækkun komugjalda á heilsugæslu, auk margra annarra smærri gjalda sem lögfest voru í fyrra. Þá eru ótaldar ýmsar hækkanir sem komið hafa fram á yfirstandandi vetri, eins og á skólagjöldum og enn frekari hækkanir á komugjöldum.
    Samtals má meta hækkanir síðasta árs og þessa á allt að 5 milljarða kr. Það er hærri tala en sú skattalækkun sem ríkisstjórnin hefur samþykkt fyrir næsta ár með 2% lækkun á hátekjuskatti og 1% flatri lækkun á tekjuskattshlutfalli. Ríkisstjórnin er því þegar búin að fjármagna skattalækkanir næsta árs með hækkunum á gjöldum og sköttum á þessu og síðasta ári.
    Rétt er jafnframt að fram komi að fulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar lýsti yfir á fundi efnahags- og viðskiptanefndar að Íslendingar ættu heimsmet í áfengisgjöldum, og sú gjaldastefna hefði mjög neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna. Að dómi fulltrúans hvetur þetta til undanskota og svartrar atvinnustarfsemi. Í stjórnarsáttmála er hins vegar lögð áhersla á að efla ferðaþjónustu þannig að hún verði samkeppnishæfari atvinnugrein, og Ísland þar með samkeppnishæfara á hinum alþjóðlega ferðamarkaði.
    Með vísan til framangreinds er allri ábyrgð á þessari skattahækkun því vísað á ríkisstjórnina.

Alþingi, 29. nóv. 2004.



Össur Skarphéðinsson,


frsm.


Lúðvík Bergvinsson.


Jón Gunnarsson.



Fylgiskjal.


Samtök ferðaþjónustunnar:

Samanburður á áfengisgjaldi eftir löndum.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.















Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.