Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 396. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 503  —  396. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)


Breyting á orkulögum, nr. 58/1967, með síðari breytingum.
1. gr.

    80. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 10/2001, um stofnun hlutafélags
um Hitaveitu Suðurnesja, með síðari breytingum.

2. gr.

    14. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 159/2002, um stofnun hlutafélags
um Norðurorku, með síðari breytingum.

3. gr.

    9. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 40/2001, um stofnun hlutafélags
um Orkubú Vestfjarða, með síðari breytingum.

4. gr.

    12. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis
um Orkuveitu Reykjavíkur, með síðari breytingum.

5. gr.

    10. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum.
6. gr.

    16. gr. laganna fellur brott.

Breyting á lögum nr. 60/1981, um raforkuver, með síðari breytingum.
7. gr.

    5. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 31. desember 2005.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar nýrra raforkulaga, nr. 65/2003, sem fela í sér heildarendurskoðun á löggjöf um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu á raforku, og samhliða frumvarpi um skattskyldu orkufyrirtækja. Frumvarp um skattskyldu orkufyrirtækja var samið af starfshópi fjármálaráðherra sem fjallaði um skattalegt umhverfi raforkufyrirtækja með það fyrir augum að tryggja jafnræði í skattalöggjöf á þessu sviði. Það var niðurstaða starfshópsins að rökréttast væri að skoða starfsemi orkufyrirtækja heildstætt en ekki einungis raforkustarfsemina enda væri það ýmsum vandkvæðum bundið í skattalegu tilliti, vegna þess hversu blandaður rekstur orkufyrirtækjanna væri, að skilja á milli kostnaðar vegna sölu á raforku annars vegar og heitu vatni hins vegar. Jafnframt taldi starfshópurinn nauðsynlegt að orkugeirinn sem heild byggi við sambærileg skattaleg skilyrði, ekki síst út frá almennum samkeppnissjónarmiðum.
    Í frumvarpi um skattskyldu orkufyrirtækja er gert ráð fyrir að orkufyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem stunda vinnslu, dreifingu, flutning, sölu og afhendingu á raforku og heitu vatni, verði skattskyld frá og með 1. janúar 2006. Samhliða því frumvarpi er nauðsynlegt að afnema öll ákvæði í sérlögum sem veita orkufyrirtækjum sérstakar undanþágur frá sköttum og öðrum opinberum gjöldum. Í þessu frumvarpi eru því felld brott sérákvæði um skattundanþágur sem finna má í orkulögum, nr. 58/1967, lögum um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, nr. 10/2001, lögum um stofnun hlutafélags um Norðurorku nr. 159/2002, lögum um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða, nr. 40/2001, lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, nr. 139/2001, lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983, og lögum um raforkuver, nr. 60/1981. Í frumvarpinu felst að undanþága framangreindra fyrirtækja frá greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarfélaga fellur niður, þ.m.t. greiðsla stimpilgjalds.
    Frumvarpi þessu er ekki ætlað að hrófla við þeim almennu reglum sem gilda um fasteignaskatta og fasteignamat mannvirkja í eigu orkufyrirtækja. Lög nr. 4 frá 30. janúar 1995, um tekjustofna sveitarfélaga, fjalla m.a. um fasteignaskatt. Á grundvelli heimildar í lögunum hefur félagsmálaráðherra sett reglugerð nr. 945/2000, um fasteignaskatt. Lögin og reglugerðin kveða á um að leggja skuli fasteignaskatt árlega á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári. Í 5. gr. laganna er að finna undantekningar frá þessari reglu en greinin hefur ekki að geyma undanþágur varðandi greiðslu orkufyrirtækja á fasteignasköttum.
    Í lögum nr. 6 frá 6. febrúar 2001, um skráningu og mat fasteigna, og reglugerð nr. 406/ 1978, um fasteignaskráningu og fasteignamat, er m.a. að finna ákvæði er varða fasteignamat og undanþágur frá slíku mati. Í 26. gr. laganna er að finna upptalningu á eignum sem eru undanþegnar mati. Í 3. tölul. segir að rafveitur, þar á meðal línur til flutnings raforku ásamt burðarstólpum og spennistöðvum, skuli undanþegnar fasteignamati. Hins vegar skal meta eftir venjulegum reglum hús, sem reist eru yfir aflstöðvar og spennistöðvar, og þær lóðir er þau standa á. Í 3. tölul. 6. gr. reglugerðar nr. 406/1978, með áorðnum breytingum, segir m.a. að mannvirki sem horfa fyrst og fremst til aukinna nota og arðs af landi, svo sem vegir, brýr og girðingar, skuli eigi metin sérstaklega, en við mat á landi skuli tekið tillit til aukins verðmætis sem frá mannvirkjunum stafar.
    Af þessum almennu reglum leiðir að orkufyrirtækjunum ber að greiða fasteignaskatta af þeim mannvirkjum sem metin eru í fasteignamati. Því er ekki skylt að greiða fasteignagjöld af ýmsum mannvirkjum sem tengjast framleiðslu, flutningi og dreifingu raforku, svo sem línum til flutnings raforku ásamt burðarstólpum og spennistöðvum. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að ýmis mannvirki orkufyrirtækja eru ekki metin sérstaklega, sbr. ákvæði 3. tölul. 6. gr. reglugerðar nr. 406/1978.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

    Frumvarpið er lagt fram í tengslum við frumvarp til laga um afnám undanþágu orkufyrirtækja frá greiðslu tekjuskatts og eignarskatts og er vísað til kostnaðarumsagnar um það frumvarp. Í samræmi við það frumvarp er í þessu frumvarpi lagt til að sérákvæði um skattundanþágur orkufyrirtækja sem finna má í ýmsum lögum verði felld niður.