Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 160. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 559  —  160. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um þriðju kynslóð farsíma.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurberg Björnsson og Karl Alvarsson frá samgönguráðuneyti, Sigurjón Ingvason frá Póst- og fjarskiptastofnun, Pál Ásgrímsson frá Símanum og Pétur Pétursson og Örn Orrason frá Og Vodafone. Umsagnir um málið bárust frá nokkrum aðilum.
    Mál þetta var lagt fram á 130. þingi og sendi nefndin það einnig þá út til umsagnar auk þess að ræða það vel.
    Hingað til hafa sérlög ekki verið í gildi varðandi úthlutun tíðna fyrir þriðju kynslóð farsíma og því ekki við önnur lög að styðjast en lög um fjarskipti. Með málinu er lagt til að sérlög verði sett um þriðju kynslóð farsíma að því er varðar úthlutun tíðna. Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði að úthlutun tíðna fari fram á grundvelli útboða eftir reglum sem þar er kveðið á um og taka m.a. til útbreiðsluskyldu og kostnaðar vegna leyfa. Enginn hefur enn sótt um að fá úthlutað leyfi fyrir starfrækslu farsímaneta fyrir þriðju kynslóð farsíma en þegar til þess kemur er mikilvægt að til séu skýrar reglur um slíka úthlutun. Markmið frumvarpsins er eins og kemur fram í 1. gr. að tryggja hagsmuni neytenda og virka samkeppni. Nefndin telur að þessum markmiðum verði náð eins og málið liggur fyrir, m.a. með vísan til útboðsleiðarinnar og kröfu um lágmarksþjónustu á hverju svæði. Er það mat nefndarinnar að nokkuð góð sátt ríki um málið.
    Við meðferð málsins ræddi nefndin hugmynd, sem kom fram á fundi hennar með fulltrúum símafyrirtækja, um að tekið væri tillit til þess að fyrirtækin gætu uppfyllt kröfurnar að hluta með svo kallaðri 2 1/ 2 kynslóð farsíma, „edge“ tækni. Það er niðurstaða nefndarinnar að slíkt sé ekki ráðlegt, í það minnsta ekki miðað við núverandi aðstæður.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    
Kristján L. Möller, Bryndís Hlöðversdóttir og Guðjón A. Kristjánsson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið.
    
Björgvin G. Sigurðsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. des. 2004.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Sæunn Stefánsdóttir.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Bryndís Hlöðversdóttir,


með fyrirvara.


Guðjón Hjörleifsson.


Guðjón A. Kristjánsson,


með fyrirvara.



Kristján L. Möller,


með fyrirvara.


Birkir J. Jónsson.